Áfall ef önnur útflutningsstoð brestur

22. nóv. 2020

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar um orkusækinn iðnað í Morgunblaðinu.

Það hriktir í stoðum þjóðarbúsins og stefnir í mesta samdrátt í útflutningi í tugi ára. Nauðsynlegt er að hlúa að samkeppnishæfni þeirra atvinnugreina sem geta veitt viðspyrnu enda má hagkerfið ekki við frekari skakkaföllum. Orkusækinn iðnaður hefur verið öflug stoð í efnahag Íslands allt frá því stjórnvöld ákváðu að reisa þá stoð með markvissum hætti fyrir rúmlega hálfri öld síðan. Sú stoð skilaði 240 milljörðum króna inn í hagkerfið á síðasta ári, til raforkukaupa, í launagreiðslur, í opinber gjöld og í kaup á vörum og þjónustu af fyrirtækjum í nærsamfélaginu. Það er því áhyggjuefni að dregið hefur úr samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar sem meðal annars birtist í því að sex af níu stórnotendum raforku nýta ekki afkastagetu sína til fulls á þessu ári. Hafa bæði álver og gagnaver dregið úr raforkukaupum. Það yrði mikið áfall ef tvær stoðir hagkerfisins gæfu eftir á sama tíma, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta. Viljum við að orkusækinn iðnaður dafni áfram hér á landi með tilheyrandi störfum, verðmætasköpun, gjaldeyristekjum og þekkingu? Ef svarið er já, þá er verk að vinna. Samtök iðnaðarins munu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.

Verðmæti, fjárfestingar og störf

Orkusækinn iðnaður hefur þróast talsvert á síðustu áratugum og orðið fjölbreyttari. Álver, kísilver, gagnaver og aflþynnuverksmiðja kaupa nú raforku og framleiða verðmæti sem skila mikilvægum gjaldeyristekjum. Uppsafnað framlag stórnotenda raforku til verðmætasköpunar nemur um 2.100 milljörðum króna frá því orkusækinn iðnaður komst á laggirnar. Fjárfesting stórnotenda raforku nemur um 1.600 milljörðum króna á þessum tíma.. Orkusækinn iðnaður skapar beint um tvö þúsund vel launuð störf auk fjölda annarra óbeinna og afleiddra starfa. Virðiskeðja orkunnar hefst við virkjunina og endar þegar útflutningstekjur iðnfyrirtækja skila sér til landsins.

Grafalvarleg staða orkusækins iðnaðar

Staða orkusækins iðnaðar var orðin alvarleg áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á. Stærstu iðnfyrirtækin töpuðu samtals 40 milljörðum árið 2019. Á sama tíma högnuðust stærstu orkufyrirtækin um 32 milljarða samkvæmt fréttum Viðskiptablaðsins. Afkastagetan er ekki nýtt til fulls sem þýðir að eftirspurn raforku er minni en áður. Þá eru horfur á lágu orkuverði erlendis en aukin fjárfesting í vindorku á Norðurlöndum, ásamt öðrum þáttum, mun auka framboð af orku umfram eftirspurn. Samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði hefur versnað og er það áhyggjuefni nú þegar viðspyrnu er þörf.

Umbætur framundan

Í byrjun október kynnti ráðherra orkustefnu. Sú stefna gefur góð fyrirheit og markar ákveðin tímamót þar sem hún er unnin af fulltrúum allra flokka og vísar veginn fram á við. Stjórnvöld koma að orkumarkaði á ýmsa vegu en í megindráttum má nefna þrjá þætti: eignarhald á orkufyrirtækjum, mótun regluverks og eftirlit. Þessir þrír þættir þurfa að endurspegla stefnuna og því er mikið umbótastarf framundan.

Samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar byggir á mörgum samverkandi þáttum og er ekki nóg að líta eingöngu til raforkuverðs. Stuðningur við rannsóknir og þróun, stærðarhagkvæmni og nálægð við markaði hafa áhrif sem og niðurgreiðslur, styrkir, ívilnandi skatta- og gjaldaumhverfi og uppbyggingarstyrkir. Regluverkið hefur líka áhrif. Regluverkið eins og það er í dag býður notendum ekki upp á nægilegan sveigjanleika sem hægir á vexti nýrra greina. Þessu er auðvelt að breyta.

Orkuþekking leysir loftslagsvanda

Uppbygging orkusækins iðnaðar hefur skapað þekkingu hér á landi sem nýtist annars staðar til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig geta íslensk fyrirtæki hjálpað öðrum ríkjum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum með nýtingu endurnýjanlegrar orku og skapað um leið verðmæti hér á landi. Þetta gæti orðið okkar helsta framlag til heimsins á næstu árum ef rétt er á málum haldið og var Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir meðal annars stofnaður í því skyni. Verði ekki frekari uppbygging í orkusæknum iðnaði má búast við því að þessi dýrmæta þekking hverfi með tímanum þannig að við höfum minna fram að færa til heimsbyggðarinnar.

Snúum vörn í sókn

Orkuauðlindir landsins geyma mikil verðmæti að því gefnu að einhver sé reiðubúinn að kaupa orkuna og búa til verðmæti úr henni. Með skýrri sýn um framtíð orkusækins iðnaðar, sem endurspeglast í eigendastefnu opinberra orkufyrirtækja, umbótum á regluverki þar sem horft er til aukins sveigjanleika og með umbótum á eftirliti má snúa vörn í sókn, verja verðmæt störf og mikilvægar gjaldeyristekjur á þessum viðsjárverðu tímum og hvetja til fjárfestinga til framtíðar. Mikið er í húfi.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 21. nóvember 2020.