Áform ríkisstjórnarinnar draga úr fjölgun íbúða

3. maí 2023

Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, skrifar í ViðskiptaMoggann um áhrif lækkunar endurgreiðslu á íbúðamarkaðinn.

Ef áform ríkisstjórnarinnar um lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna við byggingu íbúðarhúsnæðis úr 60% í 35% ná fram að ganga mun draga úr fjölgun íbúða. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar mun auka kostnað við húsbyggingar, draga úr framboði nýrra íbúða sem kemur fram eftir 2-3 ár og hækka verð íbúða. Nú þegar eru blikur á lofti um samdrátt í íbúðauppbyggingu vegna verulegra vaxtahækkana og hækkunar verðs aðfanga. Lækkun endurgreiðslunnar mun eingöngu auka á þann vanda sem er á íbúðamarkaði og vinna gegn yfirlýstu markmiði ríkisstjórnarinnar að byggja íbúðir í samræmi við þörf. Sú þörf er alltaf að aukast með fjölgun landsmanna sem fjölgaði um rúmlega 11.500 í fyrra. 

Endurgreiðsla af vinnu iðnaðarmanna hefur frá upphafi byggst á þeirri forsendu að lækka byggingarkostnað og vinna gegn svartri atvinnustarfsemi. Þau sjónarmið eiga enn við í dag. Fyrirhuguð lækkun á endurgreiðsluhlutfallinu, sem hefur það meginmarkmið að vinna gegn verðbólgunni, mun hækka byggingarkostnað og ef fram fer sem horfir gæti umrædd aðgerð ríkisstjórnarinnar leitt til hækkunar á neysluvísitölunni. Þessi aðgerð, sem er ætlað að slá á verðbólgu, gæti því haft þveröfug áhrif og orðið verðbólgumyndandi. 

Gefnar hafa verið tvær ástæður fyrir því að ráðast í þessa aðgerð. Í fyrsta lagi að umsvif á íbúðamarkaði séu svo mikil og í öðru lagi að arðsemi í byggingariðnaði sé slík að fyrirtækin í greininni geti borið þessa skattahækkun. Hvorug forsendnanna stenst skoðun. 

Samkvæmt niðurstöðum könnunar á meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins hyggjast fyrirtækin draga úr íbúðauppbyggingu um 65% næstu 12 mánuðina og hefja byggingu á 1.000 færri íbúðum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur metið það svo að byggja þurfi 3-4.000 íbúðir á ári til að mæta fyrirliggjandi þörf. Ljóst er að við munum ekki ná þeim markmiðum. Þrátt fyrir að umsvif séu umtalsverð á þessum tímapunkti, sem eru m.a. komin til vegna hvatningar stjórnvalda til að byggja íbúðir í samræmi við þörf, þá eru blikur á lofti um mikinn samdrátt. 

Hvað varðar arðsemi verktaka þá hafa ályktanir verið dregnar út frá samanburði á íbúðaverði og vísitölu byggingarkostnaðar. Vísitölu byggingarkostnaðar er ætlað að mæla verðbreytingar á aðföngum vegna byggingar húsnæðis en hún mælir ekki allan kostnað við byggingu íbúðarhúsnæðis. Stóra kostnaðarliði vantar eins og lóðaverð, fjármagnskostnað og hönnunarkostnað. Kostnaður við framleiðslu íbúðarhúsnæðis er mismunandi, þar sem til að mynda er almennt dýrara að byggja á þéttingarreitum en á nýjum byggingarsvæðum. Réttari mælikvarði til að meta stöðu fyrirtækja í greininni er að horfa á hagnað þeirra sem hlutfall af tekjum og er ljóst að hann er langt því frá að vera umfram það sem sést í öðrum greinum hagkerfisins. Staða fyrirtækja á verktakamarkaði er að versna hratt og er gjaldþrotum í greininni að fjölga umtalsvert. 

Stjórnvöld virðast ætla að nýta byggingariðnaðinn til sveiflujöfnunar og skattleggja byggingafyrirtæki sérstaklega til að mæta erfiðum aðstæðum í þjóðfélaginu. Með því að breyta endurgreiðsluhlutfallinu með svo skömmum fyrirvara setur það allar áætlanir byggingafyrirtækja, stórra sem smárra, í uppnám. Þannig er verið að skapa óstöðugleika og óvissu á framboðshlið íbúðamarkaðarins sem mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Björg Ásta Þórðardóttir, sviðssstjóri mannvirkjasviðs SI.

ViðskiptaMogginn, 3. maí 2023.