Áræðni, ný hugsun og djörf framtíðarsýn

29. des. 2017

Aukin sam­keppn­is­hæfni Íslands og mótun fram­tíð­ar­sýnar er helsta verk­efni stjórn­valda, atvinnu­lífs og raunar sam­fé­lags­ins alls árið 2018. 

Aukin sam­keppn­is­hæfni Íslands og mótun fram­tíð­ar­sýnar er helsta verk­efni stjórn­valda, atvinnu­lífs og raunar sam­fé­lags­ins alls árið 2018. Sam­keppn­is­hæfni eykst með umbótum í mennta­kerfi þannig að þörfum atvinnu­lífs­ins verði betur mætt, með því að búa nýsköpun umhverfi á heims­mæli­kvarða, með nauð­syn­legri upp­bygg­ingu inn­viða og með bættum starfs­skil­yrðum fyr­ir­tækja. Hug­vit verður drif­kraftur vaxtar á 21. öld­inni rétt eins og hag­kvæm nýt­ing nátt­úru­auð­linda var und­ir­staða vaxtar á 20. öld­inni. Hug­vits­drif­inn iðn­aður hefur stundum verið nefndur fjórða stoð hag­kerf­is­ins. Umbætur til þess að auka sam­keppn­is­hæfni lands­ins gagn­ast ekki aðeins atvinnu­líf­inu heldur eru til hags­bóta fyrir sam­fé­lagið í heild sinni enda verður Ísland þannig áfram í fremstu röð, hag­kerfið mun standa á fleiri stoð­um, stöð­ug­leiki eykst sem og verð­mæta­sköp­un, lífs­kjör lands­manna batna enn frekar, atvinnu­tæki­færi verða fjöl­breytt­ari og Ísland verður eft­ir­sókn­ar­vert fyrir ungt fólk.

Atvinnu­lífið er mik­il­vægt tann­hjól i viða­miklu gang­verki sam­fé­lags­ins. Íslenskur iðn­aður er fjöl­breytt­ur. Allt frá ein­yrkjum til fjöl­mennra fyr­ir­tækja, fyr­ir­tækja sem starfa á lands­byggð­inni, höf­uð­borg­ar­svæð­inu eða um víða ver­öld, fyr­ir­tækja í mat­væla­fram­leiðslu, bygg­ing­ar­iðn­aði, hug­bún­að­ar­gerð, hátækni og arki­tektúr svo eitt­hvað sé nefnt. Íslenskur iðn­aður skiptir lands­menn alla miklu máli þar sem hann skapar grunn að lífs­kjörum í land­inu. Einn af hverjum fimm starfa í iðn­aði, iðn­aður skapar ríf­lega þriðj­ung útflutn­ings­tekna og um 29% lands­fram­leiðslu. 

Árið 2017 var krefj­andi ár á margan hátt fyr­ir­ ­fyr­ir­tæki. Árið ein­kennd­ist af óstöð­ug­leika á ýmsum sviðum eins og í stjórn­mál­um, í starfs­skil­yrð­um, á vinnu­mark­aði, á íbúða­mark­aði, í gengi krónu og svo mætti áfram telja. Allt hefur þetta áhrif á íslenskt atvinnu­líf og minnir okkur á að sam­keppn­is­hæfni lands­ins verður að verja öllum stund­um. Tals­verðan tíma tók að mynda þá rík­is­stjórn sem tók við stjórn­ar­taumum í upp­hafi árs. Sú stjórn varð ekki lang­líf og boða varð til kosn­inga. Óvissa um stjórn lands­ins hefur tals­verð áhrif á hag­kerf­ið. Ákvörð­unum er þá gjarnan slegið á frest og minni verð­mæti skap­ast fyrir vik­ið.

Losun fjár­magns­hafta á almenn­ing og atvinnu­líf var lang­þráð skref í átt að opnun hag­kerf­is­ins eftir að hindr­unum hafði verið rutt úr vegi. Sú áætlun um losun fjár­magns­hafta sem kynnt var 8. júní 2015 hefur stað­ist, slita­búin voru gerð upp án eft­ir­mála og krónan styrkt­ist þvert á þær vænt­ingar sem uppi voru nokkur ár á und­an. Aðferða­fræðin átti sér margra ára aðdrag­anda og hún gekk upp. Orð og efndir fóru sam­an.

Vöru­merkið Ísland

Orð­spor þjóða hefur mikil áhrif á efna­hag þeirra. Gott orð­spor eykur eft­ir­spurn eftir land­inu og því sem þaðan kem­ur. Dæmi um það eru þýskir bílar, sviss­nesk úr og frönsk vín. Þannig getur orð­spor leitt til þess að vörur og þjón­usta eru seldar með auka­á­lagn­ingu. Slíkt skapar verð­mæti sem styður við betri lífs­kjör í land­inu.

Orð­spor þjóða byggir á stöðu og ein­kennum sem leiða til upp­lif­un­ar. Undir hið fyrr­nefnda heyra m.a. lífs­gæði og sam­keppn­is­hæfni. Má þar nefna frelsi, öryggi, aukna mennt­un, nýsköp­un, betra rekstr­ar­um­hverfi fyr­ir­tækja og trausta inn­viði. Undir hið síð­ar­nefnda heyra menn­ing og arf­leifð þjóða, nátt­úra, matur og ferða­þjón­usta. Allt þetta skapar umgjörð upp­lif­unar þeirra sem njóta hvort sem það eru lands­menn sjálfir, ferða­menn sem sækja landið heim eða fólk um víða ver­öld í gegnum „sendi­herra“ sem bera þjóð­inni gott vitni. Slíkir sendi­herrar eru dæmi um menn­ing­ar­á­hrif landa. Á alþjóð­legum vett­vangi er Björk einn frægasti slíki sendi­herra Íslands. Ísland stendur vel í alþjóð­legum sam­an­burði og er í 15. sæti yfir vöru­merki landa. Ná má enn hærra á þeim lista ef unnið væri mark­visst að því að bæta orð­spor. Rækta þarf betur vöru­merkið Ísland og búa til fleiri sendi­herra sem bera þjóð­inni gott vitni. Það verður gert með auk­inni sam­keppn­is­hæfni, með því að draga fram sér­kenni lands og þjóðar og með fram­leiðslu sem byggir á gæð­um.

Við fram­leiðum gæði

Fram­leiðsla sem byggir á sér­stöðu og gæðum getur svo sann­ar­lega verið sendi­herra sinnar þjóðar og stuðlað að góðu orð­spori henn­ar, sér­stak­lega ef mörkun og mark­aðs­færsla er mark­viss og hags­munir ólíkra atvinnu­greina eru flétt­aðir saman á skipu­legan hátt. Með slíkum menn­ing­ar­á­hrifum má auka áhrif Íslands á erlendum vett­vangi.

Með stefnu­mörkun og réttu vali má hafa jákvæð áhrif og skapa ný verð­mæti. Hið opin­bera eyðir 45 krónum af hverjum 100 krónum sem eytt er í hag­kerf­inu. Það skiptir máli hvernig þeim fjár­munum er varið og ef vel tekst til má skapa nýjar lausnir og aukin verð­mæti. Gott dæmi um þetta má finna í Nor­egi. Þar­lend yfir­völd vilja stuðla að orku­skiptum í sam­göngum og höfðu því áhuga á því að knýja ferjur með raf­magni í stað olíu. Þar til gerður bún­aður var ekki til þannig að stjórn­völd ósk­uðu eftir slíkum bún­aði. Fyr­ir­tæki þró­uðu búnað þannig að ferjur gætu gengið fyrir raf­magni og mark­miðum norskra stjórn­valda var náð. Það áhuga­verða við þessa sögu er að upp úr þessu sýndu aðrar þjóðir því áhuga að raf­væða ferjur og nýta þann búnað sem norsk fyr­ir­tæki höfðu þró­að. Úr þess­ari stefnu­mörkun norskra stjórn­valda varð því til útflutn­ings­iðn­aður með til­heyr­andi verð­mæta­sköp­un. 

Í hönnun geta falist ein­stök tæki­færi til þess að skapa aukið virði fram­leiðslu sem getur stutt við orð­spor lands­ins og aukið menn­ing­ar­á­hrif. Draga þarf fram sér­stöðu íslenskrar hönn­unar og fram­leiðslu til að byggja upp gott orð­spor lands­ins. Það tekur tíma og því er mik­il­vægt að hefj­ast handa sem fyrst. Sam­tök iðn­að­ar­ins munu taka þátt í end­ur­skoðun á íslenskri hönn­un­ar­stefnu en verk­efnið hefur þegar verið sett af stað í atvinnu­vega- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyt­inu í sam­vinnu við mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neytið og Hönn­un­ar­mið­stöð Íslands. Hið opin­bera á að ganga á undan með góðu for­dæmi og prýða opin­berar bygg­ingar með íslenskum hús­gögnum og inn­rétt­ing­um, ekki síst þær bygg­ingar sem ferða­menn og aðrir gestir leggja leið sína um. Nefna má Bessa­staði í þessu sam­bandi. Ef mörkuð væri opin­ber stefna í inn­kaupum þar sem áherslan væri á íslenska hönnun og fram­leiðslu myndi það ýta enn frekar undir vöxt á þessum sviðum og byggja upp blóm­legan iðn­að, jafnt í hönnun sem og í fram­leiðslu.

Hug­vit er drif­kraftur vaxtar

Fram­tíð­ar­vöxtur hag­kerf­is­ins bygg­ist á hug­viti meðan vöxtur hingað til hefur að miklu leyti grund­vall­ast á hag­kvæmri nýt­ingu nátt­úru­auð­linda. Nátt­úru­auð­lindir eru tak­mark­aðar og stað­bundnar en hug­vit er ótak­markað og án landamæra. Þessi síð­ast­nefnda stað­reynd krefst þess að starfs­um­hverfi nýsköp­unar hér á landi stand­ist sam­keppni við önnur lönd þannig að hug­myndum sé breytt í verð­mæti hér á landi en ekki ann­ars staðar í heim­in­um. Sam­tök iðn­að­ar­ins hafa sett það mark­mið að Ísland verði í fremstu röð í heim­inum þegar kemur að nýsköp­un.

Nýsköpun á sér stað í stórum fyr­ir­tækjum og smá­um, ungum fyr­ir­tækjum jafnt og þeim sem starfað hafa um ára­tuga skeið, fyr­ir­tækjum í nýjum greinum sem og fyr­ir­tækjum sem starfa í rót­grónum iðn­aði. Vís­inda- og tækni­ráð gaf út stefnu og aðgerða­á­ætlun um mitt ár 2017. Vinnur ráðið að því mark­miði að útgjöld til rann­sókna og þró­unar verði 3% af lands­fram­leiðslu. Þetta hlut­fall nemur ríf­lega 2% nú. Um tveir þriðju af þessum útgjöldum koma frá atvinnu­líf­inu og um þriðj­ungur frá hinu opin­bera.

Mörg ríki hafa hvatt til rann­sókna og þró­unar til þess að skapa aukin verð­mæti og fleiri störf. Þessir hvatar fel­ast í end­ur­greiðslum vegna rann­sókna og þró­un­ar. Hér á landi er þak á slíkar end­ur­greiðsl­ur. Með því eru stjórn­völd að senda þau skila­boð að nýsköpun eigi heima í smáum fyr­ir­tækjum en um leið og vel gengur og fyr­ir­tækin vaxa úr grasi eigi þau betur heima ann­ars stað­ar. Það eru röng skila­boð. Stærri fyr­ir­tæki sem byggja sína starf­semi á hug­viti eru að sjálf­sögðu eft­ir­sótt þar sem þau treysta fjórðu stoð­ina í sessi. Vegna þessa þarf að afnema þak á end­ur­greiðslur vegna rann­sókna og þró­unar hér á landi. Ánægju­legt var að sjá slíka áherslu í stjórn­ar­sátt­mála nýrrar rík­is­stjórnar og verður slíkt von­andi lög­fest á vor­þingi 2018.

Nauð­syn­legt sam­spil mennta­kerfis og atvinnu­lífs

Það mik­il­væga verk­efni bíður nýrrar rík­is­stjórnar að marka skýra stefnu um það hvernig nem­endur á Íslandi verða und­ir­búnir til að mæta kröfum fram­tíð­ar­innar á vinnu­mark­aðn­um. Mennta­kerfið gegnir þeim mik­il­væga til­gangi að und­ir­búa kom­andi kyn­slóðir undir störf fram­tíð­ar­inn­ar. Aukið fjár­magn í mennta­kerfið er ekki nauð­syn­leg for­senda fyrir breyt­ing­ar. Miklu frekar þarf nýja hugsun og nýjar áherslur til að leysa vand­ann. Það velk­ist eng­inn í vafa um að mennta­kerfið er mik­il­vægt fyrir gang­verk sam­fé­lags­ins en það er langt frá því að vera eyland. Með öðrum orðum þarf mennta­kerfið að mæta þörfum atvinnu­lífs­ins til þess að tryggja verð­mæta­sköp­un. Það má engan tíma missa því ekki viljum við að íslenskir nem­endur verði eft­ir­bátar ann­arra ung­menna né viljum við draga úr sam­keppn­is­hæfni Íslands. Ný hugsun í mennta­málum skilar sér marg­falt til sam­fé­lags­ins.

Það verður alltaf þörf fyrir iðn­menntað fólk þrátt fyrir miklar tækni­fram­farir og breyt­ingar í sam­fé­lag­inu. Mað­ur­inn hefur unnið með málm og tré í þús­undir ára, gerir enn og mun áfram gera. Iðn­nám hér á landi þarf að efla að sama skapi og virð­ingu fyrir iðn­menntun þarf að auka. Mun færri fara í iðn- og starfs­nám hér á landi en í nágranna­lönd­un­um. Við­horf nýs mennta­mála­ráð­herra og vil­yrði í stjórn­ar­sátt­mála nýrrar rík­is­stjórnar lofa góðu. Það er mik­ill skortur á iðn­mennt­uðu fólki og því mik­il­vægt að efnt verði til meira sam­starfs við atvinnu­lífið til þess að bæta úr.

Með tækni­fram­förum verður aukin þörf fyrir tækni- og raun­greina­menntað starfs­fólk. Í námi nem­enda á öllum skóla­stigum þarf að leggja áherslu á vit­neskju um tækni­þró­un, skap­andi hugs­un, grein­ing­ar­hæfni og lausn­a­mið­aða nálgun enda mun það skipta meira máli á tímum auk­innar sjálf­virkni en áður. Í því skyni mætti gjarnan end­ur­vekja þátt­inn Nýjasta tækni og vís­indi en sá þáttur vakti áhuga almenn­ings á tækni og vís­ind­um, ekki síst þeirra sem yngri voru. Sam­tök iðn­að­ar­ins vilja gera for­ritun að skyldu­fagi í grunn- og fram­halds­skólum sem lið í þessum breyt­ing­um.

Upp­bygg­ing inn­viða er nauð­syn­leg fjár­fest­ing

Inn­viðir skapa hag­vöxt, störf og lif­andi sam­fé­lag. Með fjár­fest­ingu í innviðum er fjár­fest í lífs­gæðum þjóð­ar­inn­ar, sam­keppn­is­hæfni atvinnu­lífs­ins og hag­vexti fram­tíð­ar­inn­ar. Sam­tök iðn­að­ar­ins ásamt félagi ráð­gjafa­verk­fræð­inga gáfu út skýrslu um ástand og fram­tíð­ar­horfur inn­viða á Íslandi og eru inn­viðir á ábyrgð hins opin­bera teknir fyr­ir. Skýrslan, sem er sjálf­stæð úttekt sér­fræð­inga, er fyrsta heild­stæða úttekt á stöðu inn­viða sem gerð hefur verið á Íslandi. End­urstofn­virði inn­viða nemur um 3.500 millj­örðum króna sem er af svip­aðri stærð­argráðu og allar eignir líf­eyr­is­sjóð­anna. Upp­söfnuð við­halds­þörf nemur 372 millj­örðum króna til þess að inn­viðir lands­ins geti sinnt hlut­verki sínu sem skyldi. Mest er þörfin í vega­kerf­inu, flutn­ings­kerfi raf­orku, frá­veitum og fast­eignum hins opin­bera. Þessu til við­bótar koma nýjar fram­kvæmdir þannig að ljóst má vera að fjár­fest­inga­þörfin hleypur á hund­ruðum millj­arða þegar allt er talið. Við­haldi inn­viða hefur verið veru­lega ábóta­vant á ýmsum svið­um. Nefna má flutn­ings­kerfi raf­orku í því sam­bandi og sem dæmi hamlar skortur á orku á Norð­ur­landi frek­ari atvinnu­upp­bygg­ingu og verð­mæta­sköpun þar. Áherslur rík­is­stjórn­ar­innar á upp­bygg­ingu inn­viða vekja upp vonir um að gert verði átak á kjör­tíma­bil­inu í þeim efnum þó nauð­syn­legt sé að setja meira fé í mála­flokk­inn heldur en gert verður árið 2018. Brýnt er að sam­göngu­á­ætlun og rík­is­fjár­mála­á­ætlun verði upp­færð í ljósi þess að auka þarf fjár­magn í inn­viða­fram­kvæmdir á næstu árum. Nýlega voru sagðar fréttir af 1,2 millj­arða við­bót­ar­fram­lagi til vega­fram­kvæmda til þess að stemma stigu við alvar­legum slysum vegna stór­auk­ins fjölda veg­far­enda. Þetta er skýr sönnun þess að nú þegar verður að ráð­ast í stór­á­tak í vega­málum til að bæta öryggi veg­far­enda.

Ráð­ast verður nú þegar í við­hald inn­viða þannig að þeir geti sinnt hlut­verki sínu sem skyldi. Nú er rétti tím­inn til að huga að slíkum fjár­fest­ing­um. Á næstu árum mun draga úr hag­vexti og þar með losnar um fram­leiðslu­þætti sem nýta má til inn­viða­upp­bygg­ing­ar. Hafa ber í huga að það geta liðið nokkur ár frá því ákveðið er að ráð­ast í fram­kvæmdir þar til þeim lýk­ur. Ljúka þarf hönn­un­ar­ferli og bjóða þarf verk út áður en fram­kvæmdir hefj­ast. 

Í anda ígrund­aðrar stefnu­mót­unar ættu stjórn­völd að móta heild­stæða stefnu um upp­bygg­ingu inn­viða, inn­viða­stefnu, þannig að yfir­sýn og skil­virkni náist á þessu sviði.

Stöð­ug­leiki óskast

Stöð­ug­leiki í augum hins opin­bera er fyrst og fremst verð­stöð­ug­leiki sem mældur er með vísi­tölu neyslu­verð, eða verð­bólgu eins og það er kallað í dag­legu tali. Á þennan mæli­kvarða hefur stöð­ug­leiki ríkt á Íslandi und­an­farin ár. Á aðra mæli­kvarða hefur stöð­ug­leiki ekki ríkt. Vinnu­mark­að­ur, gengi krónu, stjórn­mál, starfs­um­hverfi og íbúða­mark­aður hafa ein­kennst af óstöð­ug­leika. Laun hafa hækkað um tugi pró­senta á nokkrum árum, á einu ári var tvisvar kosið til Alþing­is, á árinu hefur gengi krónu sveifl­ast tals­vert, ójafn­vægi á íbúða­mark­aði og skortur á lóðum hefur leitt til mik­illa verð­hækk­ana og svo mætti áfram telja. Erfitt er að gera áætl­anir í slíku umhverfi og slík óvissa kostar sam­fé­lagið tals­vert í töp­uðum tæki­fær­um. Eigi stöð­ug­leiki að ríkja þurfa pen­inga­stefna, vinnu­mark­aður og opin­ber fjár­mál að ganga í takt. Sú hefur ekki verið raunin und­an­farin ár. Góð fyr­ir­heit eru í stjórnarsátt­mál­anum um vinnu­mark­að­inn og von­andi kemst á lang­þráður friður þar. Ný rík­is­stjórn mun hins vegar draga úr aðhaldi rík­is­fjár­mála og er það mið­ur. Nær væri að sýna aðhald meðan hag­kerfið vex hratt og bæta í útgjöld þegar mögru árin koma. Þá er minnt á að aukin rekstr­ar­út­gjöld eru ekki ávísun á bætta þjón­ustu heldur getur þurft umbætur til. Með bættum rekstri og með for­gangs­röðun á að vera unnt að ráð­ast í arð­bærar fjár­fest­ingar og áfram­hald­andi nið­ur­greiðslu skulda.

End­ur­skoðun pen­inga­stefnu stendur yfir og má vænta til­lagna á kom­andi ári. Það er öllum ljóst að end­ur­skoð­unar er þörf sem og að núver­andi rík­is­stjórn­ar­flokkar eru sam­mála um það að íslensk króna sé fram­tíð­ar­gjald­mið­ill lands­ins. Það ein­faldar málið tals­vert þar sem fyrri rík­is­stjórn hafði þrjár ólíkar skoð­anir um gjald­mið­il­inn.

Í fremstu röð

Með nauð­syn­legum umbótum eins og raktar eru hér að framan má bæta sam­keppn­is­hæfni Íslands, atvinnu­lífi og lands­mönnum öllum til hags­bóta. Aukin verð­mæti má skapa með því að bæta enn frekar gott orð­spor Íslands og með fram­leiðslu sem ein­kenn­ist af gæðum og góðri hönn­un. Til þess að vinna að slíkum umbótum þarf áræðni, nýja hugsun og djarfa fram­tíð­ar­sýn. Mark­miðin eru þó skýr: að atvinnu­líf sé blóm­legt um land allt, að auka eft­ir­spurn eftir Íslandi, íslenskri fram­leiðslu og þjón­ustu, að aukin verð­mæta­sköpun standi undir bættum lífs­kjörum og að landið sé eft­ir­sókn­ar­verður staður til þess að búa á og starfa. Þannig verður Ísland áfram í fremstu röð.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Kjarninn, 28. desember 2017.