Árangur með samstarfi vinaþjóða
Framkvæmdastjóri SI og formaður Grænvangs og forstöðumaður Grænvangs skrifa grein í Morgunblaðið.
Ísland hefur sannarlega margt fram að færa. Til að sækja tækifærin þarf samstarf, bæði heima fyrir og alþjóðlega. Ísland er í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar endurnýjanlega orku. Með áratugalangri nýtingu fallvatna og jarðvarma hefur þróast mikil þekking hér á landi sem nýst hefur í a.m.k. 45 löndum um allan heim og aukið lífsgæði. Auk þess hefur nýsköpun alið af sér nýjar leiðir til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þarna hafa skapast ný tækifæri til þess að ná árangri í loftslagsmálum, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim með því að flytja þekkinguna út.
Grænvangur hefur fest sig í sessi
Grænvangur var stofnaður í anda samstarfs og samvinnu, að hvetja til aðgerða innanlands til að ná markmiðum í loftslagsmálum en ekki síður til þess að flytja þessa dýrmætu þekkingu út, hjálpa þannig öðrum að ná sínum markmiðum auk þess að skapa verðmæti. Þetta er gert í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs en árangur á þessu sviði mun ekki nást nema með miklu samstarfi allra hlutaðeigandi aðila. Grænvangur hefur þegar vakið verðskuldaða athygli hérlendis og erlendis og fest sig í sessi frá stofnun hans árið 2019.
Forseti leiðir aðila saman
Grænvangur var stofnaður að danskri fyrirmynd. Í ríkisheimsókn þáverandi forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessonar, til Danmerkur árið 2017 var hið danska State of Green heimsótt en það er samstarfvettvangur danskra stjórnvalda og atvinnulífs í grænni iðnbyltingu og orkuskiptum. Friðrik X. Danakonungur er verndari State of Green en hann hefur verið verndari vettvangsins frá stofnun.
Í ríkisheimsókn forseta Íslands til Danmerkur sem lýkur í dag má segja að hringnum hafi verið lokað. Það er mikið fagnaðarefni að forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, hafi þekkst boð um að verða verndari Grænvangs og höfum við þá trú að hún geti leitt saman ólíka aðila til samstarfs að metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum.
Aukið samstarf Íslands og Danmerkur
Í gær var einnig undirritaður samstarfssamningur milli Grænvangs og State of Green sem mun efla samstarf ríkjanna sem og íslenskra og danskra fyrirtækja á sviði orku og grænna lausna og gerir aðilum kleift að sækja sameiginlega fram þar sem það á við. Markmiðið er að byggja á styrkleika beggja landa og efla samstarfið í kynningu á grænum lausnum þjóðanna, með þekkingarmiðlun milli landanna og með því að vinna saman að auknu samstarfi Norðurlandanna.
Víðtækt samstarf þarf til að ná metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum. Við getum sannarlega náð árangri með því að taka höndum saman, bæði hér innanlands en ekki síður með alþjóðlegu samstarfi. Þó markmiðin geti virst fjarlæg þá eru leiðirnar þangað að miklu leyti þekktar og tæknin þróast hratt.
Árangur í loftslagsmálum grundvallast á nýsköpun, innleiðingu grænna lausna og aukinni nýtingu grænnar orku í stað olíu og annars jarðefnaeldsneytis. Þar höfum við Íslendingar góða sögu að segja og getum við áfram verið í forystu í heiminum ef rétt er á málum haldið. Danir hafa náð eftirtektarverðum árangri á þessu sviði, með þróun lausna og með stefnumörkun til langs tíma. Með góðu samstarfi hérlendis og erlendis getum við í senn náð árangri á Íslandi í loftslagsmálum og skapað meiri verðmæti með útflutningi á hugviti og treyst þannig efnahagslegar stoðir Íslands. Samstarf Grænvangs og State of Green er þýðingarmikið skref í rétta átt.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Grænvangs, og Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs.
Morgunblaðið, 10. október 2024.