Ásókn hins opinbera í verðmæta lykilstarfsmenn

2. mar. 2020

Það er áhyggjuefni að hið opinbera er í síauknum mæli að taka til sín verðmæta lykilstarfsmenn frá íslenskum verkfræðistofum.

Það er áhyggjuefni að hið opinbera er í síauknum mæli að taka til sín verðmæta lykilstarfsmenn frá íslenskum verkfræðistofum. Réttara væri að styðja við uppbyggingu sérfræðiþekkingar í atvinnulífinu með því að útvista verkefnum eftir fremsta megni. Sérstaklega í því árferði sem við siglum nú inn í. 

Að undanförnu hefur orðið veruleg fjölgun launþega hjá hinu opinbera og fyrirtækjum í þess eigu á sama tíma og fjöldi starfsmanna í viðskiptahagkerfinu hefur dregist saman. Í nýrri könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu meðal aðildarfélaga Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, svöruðu 75% aðspurðra að ráðningar hins opinbera á þeirra lykilstarfsfólki hefðu aukist til muna á síðustu árum og 92% fyrirtækjanna telja að það vegi verulega að samkeppnishæfni þeirra á markaði. Fréttir um fjölgun starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur um 32% frá árinu 2013 koma því verkfræðistofum innan FRV ekki á óvart. 

Atvinnugreinin starfar ekki aðeins hér á landi heldur skapar hún útflutningstekjur með því að leiða og taka þátt í verkefnum erlendis sem eru leidd af íslenskum ráðgjafarverkfræðingum. Í litlu samfélagi þar sem verkefnin eru færri og smærri er því mikilvægt að hið opinbera leiti til sérfræðinga í atvinnulífinu, þannig tekst fyrirtækjunum að efla mannauð sinn og skapa samkeppnishæfa útflutningsvöru. Hjá hinum Norðurlandaþjóðunum er útflutningur á þekkingu verkfræði- og arkitektastofa stór hluti af veltu þessara fyrirtækja, til dæmis í Danmörku og Svíþjóð er hlutfallið um 20%. Útvistun hjá hinu opinbera getur skapað mörg ný störf ,sem gefur fyrirtækjunum tækifæri til að fara með þekkingu sinna starfsmanna í útrás og færa hana milli verkefna og sviða. Það blasir við að aukin innhýsing hins opinbera dregur úr getu fyrirtækjanna til að nýta slík tækifæri. Í stað þess að taka starfskrafta út úr atvinnugreininni hér á landi ætti hið opinbera frekar að styðja við uppbyggingu greinarinnar þannig að Ísland gæti náð hinum norrænu löndunum í útflutningi á verkfræðiráðgjöf. 

Það hlýtur að vera vilji stjórnvalda að auka verðmætasköpun hér á landi með því að styðja við bakið á atvinnulífinu frekar en að draga til sín starfsfólk með dýrmæta þekkingu og reynslu úr einstökum atvinnugreinum og koma þannig í veg fyrir að tækifærin til vaxtar séu nýtt. Það er ástæða til að hafa áhyggjur því það er eitthvað öfugsnúið við þessa stefnu stjórnvalda.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.

Morgunblaðið, 2. mars 2020.