Athafnaborgin standi undir nafni

17. maí 2019

Borgarskipulag þar sem iðnaður, verslun og þjónusta þrífst í bland við íbúabyggð tryggir blómlegt samfélag.

Borgarskipulag þar sem iðnaður, verslun og þjónusta þrífst í bland við íbúabyggð tryggir blómlegt samfélag. Iðnaður er ein helsta driffjöður atvinnusköpunar á Íslandi og aukinnar efnahagslegrar velmegunar landsmanna. Iðnaður skapar flest það sem viðkemur daglegu lífi borgarbúa hvort sem það er bygging íbúðarhúsnæðis, lagning vega, framleiðsla matvæla og klæða, framleiðsla tölvuleikja, uppbygging raforkukerfa, veitukerfa, gangatenginga eða tæknikerfa. Það skýtur því skökku við að svo virðist sem stjórnendur Reykjavíkurborgar vilji ýta iðnaði út að jaðri borgarinnar eða jafnvel út fyrir borgarmörkin en sú hefur því miður verið þróunin undanfarin ár. Þessi stefna eykur kostnað samfélagsins á margan hátt þar sem m.a. ferðast þarf lengri leiðir til og frá vinnu og sömuleiðis milli fyrirtækja. Þannig eykst umferð með tilheyrandi töfum og mengun. 

Aukin skattbyrði 

Reykjavíkurborg gerir þeim sem reka atvinnustarfsemi erfitt fyrir í mörgu tilliti. Álagðir fasteignaskattar á fyrirtæki í Reykjavík hafa hækkað hratt síðustu ár. Hefur sú skattbyrði hækkað um 45% umfram almenna verðlagsþróun frá byrjun efnahagsuppsveiflunnar árið 2011 en álagðir skattar á atvinnuhúsnæði í Reykjavík voru tæplega 12 milljarðar króna í fyrra. Reykjavík nýtir lögbundið hámark álagningar sem er 1,65% en dæmi eru um sveitarfélög sem fara með hlutfallið niður í 1,19%. 

Auknar tafir 

Á sama tíma og umferð hefur stóraukist þá hefur lítið verið um samgönguframkvæmdir innan borgarmarkanna. Ferðatími fólks í og úr vinnu frá úthverfum að miðju hefur aukist um allt að 45% á nokkrum árum. Þetta veldur því að höfuðborgarbúar sóa heilmiklum tíma í umferðartafir með tilheyrandi kostnaði og skerðingu á lífsgæðum. Atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu ber jafnframt mikinn umframkostnað af þessum aukna ferðatíma en það kemur beint niður á framleiðni þjóðarbúsins og verðmætasköpun. Tilfærsla atvinnustarfsemi í jaðra höfuðborgarsvæðisins er því þjóðfélaginu einkar dýr og vinnur beint gegn þeim jákvæðu áhrifum sem þéttingunni er ætlað að skila. Ef atvinnustarfsemi er að megninu til staðsett í jaðri borgarinnar sækir fólk vinnu lengri vegalengdir sem vinnur gegn markmiði um þéttingu byggðar og minni mengun farartækja. 

Gerum betur 

Samtök iðnaðarins fagna því framtaki stjórnenda borgarinnar að kynna Reykjavík sem athafnaborg. Nú er lag að sýna í verki að þeim sé alvara með því að greiða götu atvinnustarfsemi í allri borginni í stað þess að ýta henni út í jaðarinn. Athafnaborgin verður að standa undir nafni.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 17. maí 2019.