Atvinnulífið tekur ábyrgð

2. okt. 2024

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar í Viðskiptablaðið um umhverfs- og orkumál.

Ríki heims stefna að kolefnishlutleysi og eru íslensk stjórnvöld þar engin undantekning. Græn iðnbylting hófst seint á síðustu öld og mun standa yfir næstu áratugi. Árangur í loftslagsmálum grundvallast á nýsköpun, innleiðingu grænna lausna og aukinni nýtingu grænnar orku í stað olíu og annars jarðefnaeldsneytis. Þar höfum við Íslendingar góða sögu að segja og getum við áfram verið í forystu í heiminum ef rétt er á málum haldið. Á Íslandi urðu framfarir þegar hugmyndir leiddu til ákvarðana og uppbyggingar, meðal annars á sviði innviða, grænnar orku og iðnaðar. Þetta er hugmyndalandið, þar sem hugmyndir verða að veruleika og framfarir sem auka velsæld landsmanna.

Samtök iðnaðarins og félagsmenn samtakanna hafa ekki látið sitt eftir liggja. Samtökin tileinkuðu árið 2022 grænni iðnbyltingu til þess að vekja máls á loftslagsmálum og hvetja til aðgerða. Fyrirtæki landsins hafa sannarlega látið sig loftslagsmál varða, sýnt vilja í verki og hafa metnað til þess að gera enn betur. Sum fyrirtæki hafa þegar náð kolefnishlutleysi í sinni starfsemi og mörg fyrirtæki hafa gert metnaðarfullar áætlanir til að draga úr losun. Enn önnur fyrirtæki þróa grænar lausnir sem nýtast öðrum – hérlendis og erlendis – við að ná sínum markmiðum. Loftslagsvegvísar atvinnulífsins voru gefnir út á síðasta ári og lýsa þeim fjölmörgu þáttum sem þurfa að koma saman svo árangur náist. Byggingariðnaður var fyrsta atvinnugreinin til að gera vegvísi í átt að kolefnishlutleysi og kom það til í góðri samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs. Þó stjórnvöld setji markmið þá þarf að þróa útfærslur í virku samtali stjórnvalda og atvinnulífs, þar sem lausnirnar verða til. Þetta hefur gefist vel erlendis og má þar nefna Svíþjóð, Danmörku og Bandaríkin. Á sama hátt þurfa stjórnvöld og atvinnulíf að koma saman hér á landi til að þróa útfærslur og aðgerðir. Stjórnvöld setja upp hvata og atvinnulíf þróar og innleiðir bestu lausnirnar.

Grænvangur, samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir, var stofnaður árið 2019 að frumkvæði atvinnulífsins í þessum anda samvinnu og samstarfs. Fyrirmyndin að Grænvangi er hið danska State of Green en hugmyndin kviknaði í ríkisheimsókn forseta Íslands til Danmerkur árið 2017. Í samstarfi við State of Green hafa dönsk fyrirtæki náð miklum árangri í markaðsstarfi víða um heim og þannig hafa orðið til verðmæti í Danmörku. Þetta mun einnig gerast hér á landi ef rétt er á málum haldið.

Orkuskipti eru veigamesti liðurinn í að ná markmiðum í loftslagsmálum en bruni olíu og annars jarðefnaeldsneytis losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Orkuskipti þýða að græn orka er notuð í stað mengandi orku eins og olíu. Hér á Íslandi erum við í kjörstöðu til að vera í forystu á heimsvísu með því að nýta eingöngu græna orku í framtíðinni. Það kallar á fleiri virkjanir, í sátt við umhverfi og náttúru, en á móti kemur að Ísland verður enn sjálfstæðara í orkumálum og með því að draga úr og hætta að lokum að flytja inn olíu sparast háar fjárhæðir árlega.

Framboð á raforku hefur ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins. Aukinni eftirspurn hefur verið mætt með aukinni olíunotkun með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda þvert á sett markmið. Þessu þarf að breyta. Þó framtíðin virðist fjarlæg þá verður að hefja undirbúning nú þegar svo græn orka verði tiltæk þegar tæknin verður innleidd en margar lausnir eru nú þegar tilbúnar til notkunar. Minnumst þess að Hvammsvirkjun, sem verður senn reist, hefur verið í undirbúningi í aldarfjórðung og framkvæmdir hafa enn ekki hafist. Framtíðin kemur hvort sem við erum undir hana búin eður ei.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Viðskiptablaðið, 2. október 2024.