Betur má ef duga skal

18. júl. 2018

Landslið Íslands í knattspyrnu hefur veitt landsmönnum mikla gleði og vakið aðdáun fyrir afrek sín, ekki síst það mikla afrek að komast á heimsmeistaramótið.

Landslið Íslands í knattspyrnu hefur veitt landsmönnum mikla gleði og vakið aðdáun fyrir afrek sín, ekki síst það mikla afrek að komast á heimsmeistaramótið. Það er sérstakt til þess að hugsa að árið 2010 var liðið í 112. sæti FIFA-listans og fjarlægur draumur að keppa á heimsmeistaramótinu. Staðan hefur svo sannarlega gjörbreyst á stuttum tíma. Ýmsar skýringar eru á þessum mikla árangri, ekki síst þrotlaus vinna þjálfara, leikmanna og annarra sem að undirbúningi koma og góður aðbúnaður víða um land. Markviss uppbygging skilar þannig árangri. Það á sannarlega við á fleiri sviðum – samkeppnishæfni Íslands og í nýsköpun. Horfurnar þar eru ekki góðar en Ísland hefur nú fallið um 10 sæti í alþjóðlegri mælingu Alþjóðahugverkastofnunarinnar, Global Innovation Index (GII), á nýsköpun í ríkjum heims. Nú er Ísland í 23. sæti en var í 13. sæti árið 2017. Niðurstöðurnar voru birtar þann 10. júlí síðastliðinn. 

Drifkraftur vaxtar 

Rétt eins og í knattspyrnu keppa ríki heims sín á milli um að búa þegnum sínum sem best lífskjör og skapa þannig aðlaðandi aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki. Samkeppnishæfni þjóða skiptir þannig máli varðandi velsæld landsmanna. Þau fjögur málefni sem skipta mestu máli fyrir samkeppnishæfni þjóða eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Með umbótum á þessum sviðum stöndum við okkur betur í samkeppni þjóða, aukin verðmæti verða til sem standa undir auknum lífsgæðum. Nýsköpun er ein meginforsenda framleiðniaukningar, verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og gjaldeyrisöflunar fyrirtækja og þjóða. Nýsköpun mun að stórum hluta leysa þær áskoranir sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og má nefna loftslagsmál og heilbrigðismál með öldrun þjóða. Hinn alþjóðlegi mælikvarði sem um ræðir, GII, leitast við að mæla þá samverkandi þætti sem leiða til öflugrar nýsköpunar þar sem tillit er tekið til fjölmargra þátta, samanber stöðu menntakerfis, einkaleyfismál, fjárfestingar í tækniþróun og samstarf háskóla og atvinnulífs við rannsóknir og þróun. Markmið Samtaka iðnaðarins er að Ísland verði orðið meðal fimm efstu landa samkvæmt þessum mælikvarða árið 2020. 

Dregur úr skilvirkni 

Ýmislegt gengur vel og má nefna að við verjum miklum fjármunum í menntakerfið í samanburði við önnur ríki (3. sæti) og birtar vísindagreinar á sviði raunvísinda og tækni eru fleiri en gengur og gerist með hliðsjón af landsframleiðslu (4. sæti). Ýmsir þættir draga Ísland niður og má þar nefna hlutfall útskrifaðra nema í raunvísindum og verkfræði (77. sæti), útflutning á vegum skapandi iðnaðar (105. sæti) og rafræna stjórnsýslu en þrátt fyrir gott aðgengi að netinu og almenna tölvunotkun eru stjórnvöld eftirbátur annarra ríkja á þessu sviði (60. sæti). Mælt er hvað við leggjum fram til að örva nýsköpun annars vegar og svo hverju það skilar hins vegar. Samkvæmt mælikvarðanum dregur úr nýsköpun milli ára. Ísland er nú í 19. sæti á þann mælikvarða en var í 10. sæti árið 2017. Þannig dregur úr skilvirkni kerfisins og það skilar ekki sama árangri og áður. Nú er Ísland í 23. sæti hvað varðar skilvirkni kerfisins en var áður í 5. sæti. 

Spýtum í lófana 

Stjórnvöld vinna nú að mótun nýsköpunarstefnu. Það er sannarlega þarft verk enda viljum við ekki dragast aftur úr í samkeppni þjóða. Sú staðreynd að Ísland hefur hrapað um 10 sæti á listanum á milli ára er þörf áminning um að við megum engan tíma missa og enn mikilvægara verður að ljúka mótun nýsköpunarstefnu. Með markvissri uppbyggingu getur Ísland sannarlega orðið nýsköpunarland rétt eins og landslið Íslands í knattspyrnu gat á örskömmum tíma náð ótrúlegum árangri. Tíminn er núna.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Markaðurinn / Fréttablaðið, 18. júlí 2018.