Breytist draumurinn í martröð?

3. feb. 2022

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, skrifar um loftslagsmál í ViðskiptaMoggann.

Nýju gjaldheimtukerfi Evrópusambandsins, sem skammstafað er CBAM, er eiginlega best lýst sem draumi hvers skriffinna í Brussel. Og þykist ég vita að þar sé nokkra að finna.

Bara nafnið á kerfinu nálgast að vera óskiljanlegt. „Carbon Border Adjustment Mechanism“. Þó að ég hafi oft fengist við þýðingar um ævina, þá fallast mér eiginlega hendur. Enda er rótin að þessari flóknu nafngift sú, að ef talað væri um tolla eða viðskiptahindranir af hvaða tagi sem er, þá myndi það koma ESB í vandræði gagnvart WTO, Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Þannig að það var bara búin til óskiljanleg romsa í staðinn.

 

Einföld hugmynd

En þó að nafngiftin sé flókin er hugmyndin einföld að kerfinu. Þannig er að orkuver, iðnaður og flug í Evrópu þarf að greiða kolefnisgjöld fyrir losun gróðurhúsalofttegunda af sinni starfsemi. Það gera fyrirtækin í gegnum ETS, viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir. Íslensk álver keyptu losunarheimildir í gegnum það kerfi fyrir um 1,2 milljarða árið 2020 og hefur verð á losunarheimildum tvöfaldast síðan þá. Íslenska ríkið hefur sambærilegar tekjur af kerfinu í gegnum sölu á losunarheimildum.

Vandinn við ETS-kerfið er hinsvegar sá að fyrirtæki utan Evrópu greiða lítið sem ekkert fyrir losun af sinni framleiðslu. Kolefnisgjöldin draga því úr samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs. Í raun má segja að kerfið vinni gegn markmiðum sínum, því ef fyrirtæki hrekjast frá Evrópu vegna hárra kolefnisgjalda, þá blasir við að loftslagsvandinn dýpkar enn frekar, þar sem kolefnisfótspor atvinnulífs í Evrópu er almennt lægra en í öðrum heimsálfum.

Af því er hugmyndin um CBAM sprottin. Ætlunin er að láta fyrirtæki utan Evrópu greiða losunargjöld af þeim afurðum sem fluttar eru til Evrópu og slá tvær flugur í einu höggi, jafna samkeppnisstöðuna og skapa hvata fyrir fyrirtæki utan Evrópu til að draga úr losun. Einföld lausn á flóknu vandamáli. Eins og oft vill verða um slíkar lausnir, þá skapar hún fleiri vandamál en hún leysir.

 

Framleiðslukostnaður hækkar í Evrópu

Í fyrsta lagi hækkar framleiðslukostnaður í Evrópu, þar sem aukin gjöld eru lögð á innflutning til Evrópu og um leið er ætlunin að hækka losunargjöld á fyrirtæki innan álfunnar. Það blasir við að ef framleiðslukostnaður hækkar innan Evrópu en ekki utan, þá skapast hætta á því að fyrirtæki flytji starfsemi sína út fyrir Evrópu til að draga úr kostnaði og viðhalda samkeppnishæfni sinni.

Ef það gerist dregur það ekki bara úr verðmætasköpun í Evrópu, heldur dýpkar loftslagsvandinn. Orkumynstrið er hvergi hagstæðara en í Evrópu, þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa, en það er við vinnslu orku úr jarðefnaeldsneyti sem mest losun verður á heimsvísu. Innan framkvæmdastjórnar ESB hefur verið rætt um útflutningsbætur til að bæta evrópskum fyrirtækjum upp háan framleiðslukostnað, en ólíklegt er að WTO fallist á það.

Í öðru lagi er nánast ógjörningur að staðreyna upplýsingar um kolefnisfótspor framleiðslu utan Evrópu. Ef ál er tekið sem dæmi, þá hefur það engin áhrif á gæði áls hvort það er framleitt með kolaorku eða endurnýjanlegri orku. Alkunna er að ál er gætt þeim eiginleika, að það má endurvinna endalaust án þess það tapi upprunalegum gæðum, sem þýðir að það gæti freistað framleiðenda utan Evrópu að flytja það inn sem áframunnið ál eða brotaál til að komast hjá vöruflokkum sem falla undir CBAM.

 

Mikilvægt að verja samkeppnishæfni

Loks má nefna að orkuverð er hvergi hærra en í Evrópu, þar sem orkuver eru innan ETS-kerfisins og þurfa að kaupa losunarheimildir og þeim kostnaði er velt út í orkuverðið. Orkuver utan Evrópu þurfa ekki að standa skil á slíkum kostnaði, sem skapar skilyrði til að selja orkuna gegn lægra verði til framleiðenda. Það skekkir enn frekar samkeppnisstöðuna.

Þetta er ekki tæmandi listi yfir ástæður fyrir því að draumur skriffinnanna í Brussel gæti hæglega breyst í martröð. Þannig er það oft um útópíur að þær ríma illa við veruleikann. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld komi sér fyrir við teikniborðið og gæti hagsmuna íslensks atvinnulífs, enda er kolefnisfótspor iðnaðar hvergi lægra en hér á landi. Það er ekki bara mikilvægt að standa vörð um samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs út frá verðmætasköpun og lífsgæðum – heldur er það líka loftslagsmál.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda.

ViðskiptaMogginn, 2. febrúar 2022.