Brothættur efnahagsbati

17. mar. 2022

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar um efnahagsbatann í Viðskiptablaðinu.

Efnahagsbatinn undanfarið hefur ekki verið án hnökra bæði hér á landi og í helstu viðskiptalöndum. Leiðin út úr Covid faraldrinum hefur verið mörkuð af erfiðleikum í framleiðslu og flutningum. Samhliða vaxandi eftirspurn hefur þetta leitt til ójafnvægis á mörkuðum, vöruskorts, verðhækkana hrávöru og aukinnar verðbólgu. Afleiðingarnar hafa verið alvarlegar fyrir heimili og fyrirtæki víða um heim og hægt á efnahagsbatanum sem var kröftugur fram eftir síðastliðnu ári.

Viðbúið er að stríðið í Úkraínu hægi enn frekar á uppsveiflunni. Stríðið hefur veruleg áhrif á einstök fyrirtæki sem eru í miklum viðskiptum við þær þjóðir sem eru í þessum átökum. Sum fyrirtækjanna eru hér á landi. Tekjusamdráttur blasir við hjá þessum aðilum. Ófriðnum fylgja einnig meiri tafir í aðfangakeðju heimsins sem var löskuð fyrir. Þá hefur verð á ýmsum hrávörum s.s. olíu og hveiti hækkað enn frekar í kjölfar innrásar Rússa með neikvæðum áhrifum á verðbólgu og kaupmátt. Aukin óvissa vegna stríðsins fær fólk og fyrirtæki til að halda að sér höndum í fjárfestingum. Ófriðurinn hefur þannig margvísleg neikvæð alþjóðleg efnahagsleg áhrif.

Áætlað er að um 2% heildarútflutnings Íslands fari til Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu. Útflutningur iðnaðarvöru og þjónustu til þessara landa er lítill hluti heildargjaldeyristekna iðnaðar. Engu að síður vegur hann þungt í tekjum einstakra iðnfyrirtækja. Um 0,5% heildarinnflutnings koma beint frá þessum löndum. Vægið í innflutningi er meira ef tekið er með það sem flutt er inn óbeint frá þessum svæðum. Með beinum og óbeinum hætti er flutt inn timbur, stál, hveiti, olía og fleiri aðföng íslensks iðnaðar. Verðhækkun á þessum aðföngum og hökt í afhendingu hefur því áhrif á iðnaðinn og hagkerfið allt.

Hagvöxtur síðastliðins árs mældist 4,3% hér á landi. Vöxturinn var hraður á öðrum og þriðja ársfjórðungi en mikill vöxtur var þá bæði í innlendri eftirspurn og útflutningi. Fjöldi starfa skapaðist og atvinnulausum fækkaði hratt. Þróunin var öll í rétta átt. En á síðasta ársfjórðungi dró úr vaxtahraðanum og samhliða jókst verðbólgan. Verbólgan hefur haldið áfram að aukast í ár en hún mælist nú 6,2% og er það mesta verðbólga sem mælst hefur hér á landi í áratug. Svipaða þróun má greina í helstu viðskiptalöndum nema að þar þarf að fara enn lengra aftur í tímann til að finna viðlíka verðbólgu og nú mælist.

Þróunin undanfarið er áminning þess hvað efnahagsbatinn getur verið brothættur og hve mikilvægt er að stoðir efnahagslífsins séu sterkar og fjölbreyttar. Stjórnvöld hér á landi breyta litlu um þróun stríðsins í Úkraínu eða hvernig Covid faraldurinn breiðist um heiminn. Þau geta hins vegar haft mikil áhrif á það hvernig íslenskt efnahagslíf stendur af sér slík áföll.

Mikil tækifæri eru til að bæta lífskjör hér á landi. Þau tækifæri eru m.a. mörg í iðnaði. Jákvætt er að vöxturinn hefur verið nokkuð kröftugur í greininni í þessari uppsveiflu þótt að honum hafi verið vegið undanfarið. Styrkur iðnaðar hefur falist í stærð hans og fjölbreytileika. Skiptir það miklu fyrir viðnámsþrótt hagkerfisins og vaxtargetu. Eitt af hverjum fimm störfum í landinu er í iðnaði. Skapar greinin um 21% landsframleiðslunnar og 41% gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Fjölbreytni iðnaðarins hefur aukist á síðustu árum en mikill vöxtur hefur verið í grein hugaverkaiðnaðar undanfarið og er hún nú fjórða stoð gjaldeyrisöflunar þjóðarbúsins. Það er með svona styrk og fjölbreytileika sem hagkerfið getur staðið af sér áföll líkt og þau sem hagkerfið hefur verið að ganga í gegnum undanfarið.

Í þessu umhverfi er mjög mikilvægt að hagstjórnaraðilar leggi sitt af mörkum til að renna stoðum undir efnahagsbatann með aðgerðum sem efla samkeppnishæfni fyrirtækja. Mikilvægt er að ákvarðanir stjórnvalda leiði til umbóta sem gefa atvinnulífinu svigrúm til aukinnar verðmætasköpunar. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að huga að stöðugleikanum í komandi kjarasamningum en lífskjarasamningarnir renna út í haust. Og Seðlabankinn þarf að gæta að því að kæfa ekki hagvöxtinn með aðgerðum sínum til að halda aftur af verðbólgunni. Með samstilltum aðgerðum getum við tryggt góð efnahagsleg lífsgæði í landinu þrátt fyrir þá erfiðleika sem fylgja heimsfaraldri og styrjöld í Evrópu. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur.

Viðskiptablaðið / Vb.is, 17. mars 2022.