Búum mannvirkjaiðnaði gott starfsumhverfi

19. jún. 2023

Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, skrifar um mannvirkjaiðnað í sérblaði Viðskiptablaðsins um Verk og vit. 

Mannvirkjaiðnaður gegnir lykilhlutverki þegar kemur að framtíðarsýn stjórnvalda um húsnæðisuppbyggingu, innviðauppbyggingu og orkuskipti. 

Á Iðnþingi sem haldið var fyrr á þessu ári var greint frá því að þörfin fyrir uppbyggingu á þessum sviðum væri mikil. Á þinginu kom fram að iðnaðurinn er tilbúinn í þessi verkefni en hann þarf að búa við gott starfsumhverfi svo framtíðarsýn stjórnvalda raungerist. Starfsumhverfið þarf að vera stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt. 

Sagan hefur því miður einkennst af miklum óstöðugleika í mannvirkjaiðnaði þar sem sveiflur í greininni hafa fylgt hagsveiflunni en með mjög ýktum hætti. Má í því sambandi nefna að greinin ríflega helmingaðist að umfangi eftir efnahagsáfallið 2008 en hefur meira en tvöfaldast að umfangi síðan. 

Nú sjáum við aftur merki þess að greinin sé að dragast saman og aðgerðir stjórnvalda til að ná niður verðbólgu miðast öðru fremur að því að draga úr þenslu í mannvirkjaiðnaði. Mikilvægt er að auka stöðugleika og hverfa frá þeirri síendurteknu hegðun að nýta mannvirkjaiðnað til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Aukinn stöðugleiki stuðlar að auknum gæðum og aukinni framleiðni. 

Vistvæn mannvirkjagerð 

Samhliða mikilli þörf fyrir uppbyggingu er jafnframt ákall um að uppbyggingin sé vistvæn. Með vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð, sem er nefndur Byggjum grænni framtíð, eru skýr markmið sett um samdrátt í losun frá mannvirkjagerð. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 43% fyrir árið 2030 og hafa verið settar fram 74 aðgerðir sem ráðast þarf í til að ná settu markmiði. 

Það er ljóst að enginn einn aðili ber ábyrgð á þessu verkefni. Þetta er verkefni okkar allra. Víðtækt og virkt samtal allra hagaðila, atvinnulífs, stjórnvalda og háskóla þarf til að ná raunverulegum árangri. 

Fjölmargir hagaðilar koma að því stóra verkefni að byggja vönduð mannvirki í samræmi við þörf á hagkvæman hátt. Stór skref hafa verið tekin síðastliðin misseri í átt að bættri yfirsýn og jákvæðri þróun innan iðnaðarins. 

Aukin skilvirkni 

Með einu ráðuneyti innviða hafa skapast tækifæri til víðtækra umbóta í starfsumhverfi greinarinnar auk stofnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það hefur löngum verið ákall, og er enn, eftir aukinni skilvirkni í leyfisveitingarferlum, regluverki og stjórnsýslu. 

Stafræn þróun mannvirkjagerðar, þar sem aukin áhersla er á nýtingu stafrænna lausna bæði á hönnunar- og framkvæmdastigi sem og í stjórnsýslu og leyfisveitingarferli, er ein lykilforsenda aukinnar skilvirkni og bætts starfsumhverfis iðnaðarins. Við erum því miður eftirbátar nágrannaþjóða okkar hvað þetta varðar, þrátt fyrir að stórstíg skref á íslenskan mælikvarða hafi verið tekin. 

Nauðsynleg þróun mannvirkjagerðar er háð því að regluverk styðji við og stuðli að bættri mannvirkjagerð. Það hefur löngum verið áherslumál iðnaðarins að einfalda regluverk og er sú vegferð hafin með endurskoðun á byggingareglugerð. Til viðbótar einföldun regluverks þarf jafnframt að tryggja samræmda túlkun þess en slíkt hefur verið áskorun í því umhverfi sem iðnaðurinn starfar innan þar sem eftirlitsaðilar eru dreifðir á 42 byggingarfulltrúa. Með einföldun regluverks og aukinni samræmingu í eftirliti má draga úr kostnaði, auka skilvirkni og framleiðni. 

Til mikils að vinna 

Það er til mikils að vinna að búa mannvirkjaiðnaði gott starfsumhverfi sem er í senn stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt. Ábyrgð stjórnvalda er þar mikil. Meira þarf þó að koma til og eru fyrirtæki í mannvirkjaiðnaði ávallt á höttunum eftir nýjum lausnum og tækifærum til þess að starfa með skilvirkari hætti, auka hagkvæmni, vistvæna uppbyggingu og gæði. 

Sýningin Verk og vit er kjörið tækifæri til að eiga samtal um nýjar hugmyndir og lausnir í mannvirkjaiðnaði fyrir þá mikilvægu uppbyggingu sem er framundan.

Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.

Verk og vit, sérblað með Viðskiptablaðinu, 16. júní 2023.