Byggjum fjölbreytt efnahagslíf

5. sep. 2018

Margt hefur áunnist í efnahagsmálum á síðustu árum og er staða hagkerfisins á margan hátt góð um þessar mundir. 

Margt hefur áunnist í efnahagsmálum á síðustu árum og er staða hagkerfisins á margan hátt góð um þessar mundir. Er nú svo komið að efnahagsleg lífskjör hér á landi eru með því besta sem gerist í heiminum. Hagkerfið er í ágætu jafnvægi, erlend skuldastaða þjóðarbúsins góð og kaupmáttur meiri en nokkru sinni áður svo eitthvað sé nefnt. Galli uppsveiflunnar frá 2010 er að hana skortir fjölbreytileika. Byggir hún að verulegu leyti á auknum gjaldeyristekjum af ferðamönnum en önnur gjaldeyrisskapandi starfsemi hefur átt undir högg að sækja. Þannig hefur, svo dæmi sé tekið, framleiðsluiðnaður skroppið saman en hann var um 10% af landsframleiðslu þegar uppsveiflan byrjaði en var kominn í 7,8% í fyrra.

Samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna hefur versnað umtalsvert í þessari uppsveiflu. Laun í framleiðsluiðnaði hafa hækkað um 140% frá fyrsta ársfjórðungi 2010 mælt í evrum en til samanburðar hækkuðu laun í þeim hluta iðnaðarins um 20% í ESB-ríkjunum á sama tíma. Hækkuðu laun hér á landi mælt í evrum langt umfram það sem gerst hefur í nokkru öðru iðnvæddu ríki á tímabilinu. Laun í greininni eru nú með því hæsta sem þekkist í samanburði við önnur lönd og samkeppnishæfni greinarinnar því skert á alþjóðlegum vettvangi. Kemur þetta verst niður á þeirri gjaldeyrisskapandi starfsemi þar sem vægi launakostnaðar er hátt í heildarkostnaði. Við þetta bætist síðan hár innlendur fjármagnskostnaður og óhagstætt skattaumhverfi. Hefur þetta komið niður á samkeppnisstöðu fyrirtækja í greininni gagnvart erlendum keppinautum, rýrt markaðshlutdeild og gjaldeyrissköpun þeirra. Svipaða sögu má segja af fyrirtækjum í öðrum greinum sem eru í erlendri samkeppni.

Líkt og í mörgum öðrum smáríkjum er neysluvara og fjárfestingarvara að stórum hluta innflutt hér á landi. Innflutningur vöru og þjónustu er fjármagnaður með mjög sérhæfðum útflutningi sem byggir að stórum hluta á náttúruauðlindum landsins. Í rannsókn á efnahagslegri stöðu smáríkja sem kom út fyrr á þessu ári á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að þessi mikla sérhæfing getur verið vandamál. Bent er þar á að efnahagssveiflurnar eru líklegri til að verða meiri eftir því sem sérhæfingin er meiri. Niðurstaða rannsóknarinnar er að með því að auka fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun nái þessi ríki að draga úr efnahagssveiflum, hækka meðalhagvöxt og auka þannig efnahagsleg lífsgæði til langs tíma.

Í þessu ljósi er það áhyggjuefni að lítill vöxtur hefur verið í gjaldeyrisskapandi greinum hér landi á undanförnum árum fyrir utan ferðaþjónustuna. Mikilvægt er að undirbyggja aukinn fjölbreytileika til framtíðar og þannig skapa hagkerfinu meiri stöðugleika. Skiptir það m.a. máli nú þegar við stöndum frammi fyrir minni vexti í tekjum af erlendum ferðamönnum en hefur verið. Einhæfni gjaldeyrisöflunar í núverandi efnahagsuppsveiflu ógnar stöðugleika hagkerfisins og framtíðarhagvexti.

Þegar litið er til framtíðar er ljóst að til að bæta efnahagsleg lífsgæði hér á landi þarf að auka gjaldeyristekjur umtalsvert og skapa meiri fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun. Það er áleitin spurning hvernig þetta verði gert. Ljóst er að líklegast til árangurs er að ráðast í þá þætti sem gætu aukið samkeppnishæfni atvinnuveganna, m.a. iðnaðar sem vegur um 23% af landsframleiðslu. Leggja þarf áherslu á stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi fyrirtækja, öfluga menntun, mikla nýsköpun og sterka innviði. Hafa Samtök iðnaðarins í því sambandi bent á aðgerðir sem gætu stuðlað að því að Ísland verði í fremstu röð þjóða þar sem fólk vill búa og reka atvinnustarfsemi. Núna er rétti tíminn til að ráðast í þessar aðgerðir.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 5. september 2018.