Ekkert sjálfsagt við sjálfstæði í orkumálum
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, skrifar um orkumál í ViðskiptaMoggann.
Mikilvægi öflugs og fjölbreytts atvinnulífs verður aldrei skýrara en þegar áföll dynja yfir. Í heimsfaraldrinum varð íslenskt atvinnulíf fyrir þungu höggi þegar skrúfað var fyrir ferðalög og það hafði aftur fordæmalaus áhrif á afkomu ríkissjóðs. Sem betur fer fyrir íslenskt þjóðarbú var staða ríkissjóðs sterk, þannig að þetta var ekki rothögg, en hallinn á fjárlögum hefur numið hundruðum milljarða og enn hefur ekki tekist að vinda alveg ofan af honum.
Lexían er einföld, þegar gefur á bátinn hjá fyrirtækjum í landinu, sem skapa verðmæti alla daga, þá hefur það bein áhrif á velferð þjóðarinnar. Tekjur ríkissjóðs dragast saman, við stöndum ekki undir velferðinni og til lengri tíma grefur það undan tækifærum og lífskjörum.
Það var ánægjulegt sem fram kom í máli Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, á fundi Isavia nýverið að ferðaþjónustan hefði náð fyrri styrk og skilaði 24,5% af útflutningsstekjum þjóðarinnar þegar litið væri til fjögurra síðustu ársfjórðunga.
Ekki var síður athyglisvert í máli Lilju að álútflutningur nam 396 milljörðum eða um 24% útflutningstekna á sama tímabili. Enn sem fyrr kemur því áliðnaðurinn sterkur inn, þegar skórinn kreppir í efnahagslífinu. Ef horft er til heildarframlags iðnaðar má gera ráð fyrir að hann hafi skilað 45% útflutningstekna á liðnu ári. Ekki þarf að fara nema nokkra áratugi aftur tímann, til að rifja upp að helsta vandamálið var einhæfur útflutningur og að afkoma þjóðarbúsins réðst fyrst og fremst af þorskverði. Nú er öldin önnur, sjávarafurðir skiluðu 337 milljörðum eða 20% af heildarútflutningi, og sýnir það vel að stoðunum undir afkomu þjóðarinnar hefur fjölgað.
Annað dæmi um að ytri aðstæður geti valdið áföllum í efnahagslífinu er Úkraínustríðið. Ekki þarf að orðlengja hversu átakanlegt og sorglegt það er að horfa upp á hörmungarnar sem innrás Rússa hefur valdið í þessu næststærsta og áttunda fjölmennasta ríki Evrópu. Úkraínska þjóðin er orðin útvörður lýðræðis í Evrópu og jákvætt að samstaða sé um stuðning Atlantshafsbandalagsins, en stríðið snertir öll vestræn ríki.
Átökin hafa valdið orkukrísu í Evrópu og hefur hátt orkuverð orðið til þess að atvinnulífið hefur víða lent í þrengingum. Til marks um það má nefna að álframleiðsla í Evrópu hefur dregist saman um 25% og ef einungis er horft til ríkja ESB er samdrátturinn 46%. Hér á landi höfum við notið þess að vera sjálfstæð í orkumálum og orkukrísan hefur því ekki náð hingað, svo neinu nemi.
Við værum ekki á þessum stað, ef ekki væri fyrir uppbyggingu í nýtingu endurnýjanlegrar orku í hálfa öld. Byggst hefur upp öflugur orkugeiri, þar sem þekkingin er orðin útflutningsvara, og samhliða því orkuiðnaður sem skilar björgum í bú og sveiflujafnar efnahagslífið. Það er ekki sjálfsagt.
Í nýútkomnu tímamótaverki Jóhannesar Nordals Lifað með öldinni kemur fram að augljóst hafi verið „að stofnkostnaður þeirra virkjana sem reisa þyrfti til að sjá nýrri stóriðju fyrir orku væri langt umfram fjárhagsgetu Íslendinga“. Alþjóðabankinn steig inn í fjármögnunina með erlendu lánsfé, en mat það algjörlega óraunhæft að virkja við Búrfell, sem var hagstæðasta orkuöflunin fyrir Íslendinga, „án þess að selja verulegan hluta orkunnar til stóriðju“.
Að mati bankans var „bygging Búrfellsvirkjunar ásamt sölu verulegs hluta orkunnar til stóriðju arðbær og viðráðanleg framkvæmd, bæði með tilliti til stærðar íslenska hagkerfisins og mögulegs ábata af framkvæmdinni“. Taldi bankinn „að á Íslandi væri ekki kostur á annarri opinberri framkvæmd sem væri álitlegri eða áhrifameiri til að auka fjölbreytni íslenska hagkerfisins“.
Óhætt er að segja að þessi orð hafi gengið eftir. Fyrirhyggja þeirra var mikil sem lögðu drög að sjálfstæði Íslands í orkumálum.
ViðskiptaMogginn, 7. desember 2022.