Ekki er kyn þó keraldið leki

28. ágú. 2020

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, skrifar um álmarkaðinn í Markaðnum.

Eins og alþjóð veit er regluverk Evrópusambandsins svo flókið að langan tíma getur tekið að fá botn í það og stundum er botninn suður í Borgarfirði.

Það átta sig fæstir á því að þegar orkuverð hér á landi er borið saman við orkuverð á meginlandinu, þá verður að taka með í reikninginn ýmsar ívilnanir og hagræði sem stóriðja býr þar við. Munar þar mestu um stórfelldar endurgreiðslur stjórnvalda til stórnotenda í ríkjum á borð við Noreg, Frakkland og Þýskaland, en þar er öflugur orkuiðnaður sem siglt hefur þessum ríkjum út úr margri kreppunni.

Orkuframleiðendur í Evrópu, sem brenna jarðefnaeldsneyti á borð við kol og gas, þurfa nefnilega að greiða fyrir losunarheimildir innan ETS-kerfisins. Eins og nærri má geta er sá reikningur himinhár í tilfelli orkuvera sem ganga fyrir kolum eða gasi, enda losunin margfalt meiri en frá endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við vatnsafl eða jarðvarma. Það hefur aftur áhrif til hækkunar orkuverðs á meginlandinu.

Til þess að orkusækinn iðnaður í Evrópu haldist samkeppnishæfur er stjórnvöldum í ríkjum ESB heimilt að greiða niður orkuverðið beint til þeirra. Flest iðnríki Evrópu nýta sér það, enda er þeim umhugað um að standa vörð um samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar. Það liggur í hlutarins eðli að ef orkan er ekki á samkeppnishæfu verði, þá eru forsendur brostnar fyrir rekstri slíkra fyrirtækja.

Slíkar ETS-niðurgreiðslur eru reiknaðar eftir sérstökum stuðli sem miðast við hlutfall jarðefnaeldsneytis í orkumynstri ríkja á sameiginlegum orkumarkaði ESB og geta greiðslur til stóriðjufyrirtækja numið á annan tuga evra á MWst. Þegar haft er í huga að meðalverð Landsvirkjunar til stórnotenda hér á landi var um 28 dollarar á MWst árið 2018, og var þá flutningur að hluta innifalinn, sést hversu mikið slíkar niðurgreiðslur skekkja stöðuna.

Ljóst er að þetta kerfi verður áfram við lýði og vinnur framkvæmdastjórn ESB að útfærslu á því til ársins 2030. En þar sem Ísland tengist ekki sameiginlegum orkumarkaði ESB eiga stjórnvöld hér ekki kost á að taka upp slíkar niðurgreiðslur, jafnvel þó að áhuginn væri fyrir hendi. Þó ganga álverin hér fyrir endurnýjanlegri orku eins og í Noregi. Það skrítna er, að ETS-kerfið skerðir samkeppnisstöðu íslenskra álvera, en á sama tíma er losunin hvergi minni en hér, samkvæmt tölum Norsk Hydro. Ekki er kyn að keraldið leki, gæti einhverjum ratast á munn.

Ofan á það bætist að flutningskostnaður hér á landi, í þessu strjálbýla og fámenna landi, er margfalt hærri en til að mynda í Noregi. Á það einkum við um stórnotendur, þar sem þeir njóta sérstakra ívilnana í Noregi, m.a. vegna þess að þeir eru oft staðsettir á afskekktum svæðum nærri uppsprettu orkunnar og fá að njóta þess í afsláttum af flutningskostnaði.

Þá þarf að hafa í huga að stjórnvöld víða í Evrópu styðja myndarlega við fjárfestingarverkefni í orkuiðnaði, ekki síst hjá frændum okkar Norðmönnum. ENOVA-sjóðurinn stóð til að mynda straum af stórum hluta kostnaðarins við uppbyggingu á nýrri kerlínu í álverinu í Karmoy, þar sem horft var til bættrar orkunýtingar, og komu íslenskar verkfræðistofur að því verkefni. Norskstjórnvöld kappkosta því miklu til að sækja fram og viðhalda þannig samkeppnishæfni orkuiðnaðar í Noregi.

Ljóst er að stjórnvöld víða um heim halda vöku sinni og vilja standa vörð um iðnaðinn heima fyrir. Í áliðnaði er skollið á tollastríð milli Bandaríkjanna og Kína annarsvegar og Kanada hinsvegar. Þá hefur framkvæmdastjórn ESB tekið til skoðunar undirboð á kínversku áli og mótvægisaðgerðir gegn því.

Hér á landi berst orkuiðnaður fyrir tilvist sinni, hvort sem horft er til álvera, kísilvera eða gagnavera. Mikilvægt er að stjórnvöld marki stefnu sem tryggir orkuiðnaði sjálfbærar rekstrarforsendur til framtíðar, þannig að iðnaðurinn geti haldið áfram að skapa verðmæti, dýrmæt störf og stuðlað að bættum lífskjörum. Það þarf að slá botninn í tunnuna.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

Markaðurinn, 28. ágúst 2020.