Ekki góð uppskrift að grafa undan samkeppnisstöðu Evrópu

30. des. 2019

Óhætt er að fullyrða að Evrópa hefur tekið forystu í loftslagsmálum á heimsvísu og gengið lengst í aðgerðum til að draga úr loftslagsvandanum. 

Óhætt er að fullyrða að Evrópa hefur tekið forystu í loftslagsmálum á heimsvísu og gengið lengst í aðgerðum til að draga úr loftslagsvandanum. Evrópskir stjórnmálamenn eru þó smám saman að átta sig á mikilvægi þess að slíkar aðgerðir bitni ekki á samkeppnishæfni atvinnulífsins. 

Kolefnisfótspor framleiðslugreina í Evrópu er hagstæðara en víðast hvar annars staðar í heiminum og hvergi er það hagstæðara en á Íslandi. Ef dregið er úr losun staðbundið í Evrópu með því að hrekja framleiðslu út fyrir álfuna, þá eru yfirgnæfandi líkur á að loftslagsvandinn dýpki enn frekar. 

Munu álver losa súrefni en ekki CO2? 

Nýr tónn var gefinn þegar Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, tók við sem forseti
framkvæmdastjórnar ESB í byrjun nóvember. Leyden, sem er fyrsta konan til að gegna embættinu, sagðist ætla að beita sér fyrir því að útvíkka ETS, viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, þannig að það næði einnig yfir sjávarútveg og að flugfélög þyrftu að greiða meira fyrir sína losun. Þá hyggst hún leggja til að kerfið nái til byggingariðnaðar og samgangna. 

Eins og kunnugt er heyra málmframleiðsla, orkuver, flug innan Evrópu og fiskimjölsbræðslur nú þegar undir ETS-kerfið, sem þýðir að þessar atvinnugreinar greiða vaxandi kolefnisgjöld fyrir sína losun. Ef einungis er horft til álframleiðslu má gera ráð fyrir að gjöld sem álver á Íslandi greiða fyrir losunarheimildir hafi numið vel yfir milljarði á þessu ári, en þau hafa nær sexfaldast í verði á þremur árum. 

Íslensk stjórnvöld fá samsvarandi uppboðs heimildir og skila þessi kolefnisgjöld álvera sér því í ríkissjóð. Samál hefur beitt sér fyrir því að þau renni til loftslagsvænna verkefna enda er sú raunin í flestum Evrópuríkjum. Til mikils er að vinna, en stefnt er að því að dregið hafi úr losun innan ETS-kerfisins um 43% árið 2030 miðað við árið 2005 og gengur það því lengra en skuldbindingar einstakra ríkja. 

Nú þegar eru viðamikil verkefni í gangi til að draga úr losun. Hæst ber að Alcoa og Rio Tinto eru með í þróun kolefnislaus skaut í samstarfi við Apple og kanadísk stjórnvöld. Ef það verkefni gengur upp, þá losnar súrefni en ekki CO2 við álframleiðslu. Það lofar góðu um framhaldið að nú í byrjun desember bárust fregnir af því að Apple væri farið að nýta fyrsta farminn af slíku áli í sína framleiðslu.

Kolefnisgjöld hygla þjóðum sem losa mest þjóðum sem losa mest 

En Leyden gengur lengra og vill umbylta kerfinu til þess að jafna samkeppnis- stöðuna. Ástæðan er auðvitað sú að með því að leggja kolefnisgjöld á fyrirtæki í Evrópu, eins og gert er með ETS-kerfinu, þá er verið að hygla fyrirtækjum utan álfunnar sem ekki greiða nein slík gjöld en eru að jafnaði með óhag stæðara kolefnisfótspor. 

Til marks um það má nefna að álframleiðsla í Kína er að uppistöðu til knúin með kolum og losar því tífalt meira en álframleiðsla hér á landi. Álframleiðsla í Kína ber hins vegar engin teljandi kolefnisgjöld og nýtur að auki verulegs ríkisstuðnings eins og raunar álframleiðsla víðast hvar í heiminum utan Íslands, samkvæmt skýrslu OECD frá því fyrr á þessu ári. Eftir að viðskiptastríð skall á milli Kína og Bandaríkjanna streymir ál frá Kína í vaxandi mæli til Evrópu og njóta kínverskir álframleiðendur þess að þurfa að ekki að bera kostnað af sinni losun. 

 Loftslagsvandinn er nefnilega hnattrænn í eðli sínu en ekki staðbundinn. Ef raunverulegur árangur á að nást, þá þurfa allir að sitja við sama borð. Það gerir aðeins illt verra að hrekja álframleiðslu frá Evrópu til Kína, Indlands eða Mið-Austurlanda þar sem losunin er margfalt meiri. Það segir sína sögu, að á sama tíma og álframleiðsla í Kína hefur aukist gríðarlega og nemur yfir helmingi af heimsframleiðslunni, þá hefur álframleiðsla dregist saman um þriðjung í Evrópu, m.a. vegna kolefnisgjalda sem lögð hafa verið á framleiðslu áls og raforku.

Kolefnisskattur á innflutning til Evrópu? 

Til þess að bregðast við ójafnri samkeppnisstöðu vill Leyden leggja kolefnisskatt á innflutning afurða til Evrópu, m.a. áls og stáls. Nú þegar er hafin vinna við að meta áhrif slíkrar skattlagningar og hvernig megi útfæra hana. En ljóst er að slík skattlagning er afar vandasöm. Í fyrsta lagi þyrfti hún að ná til allrar virðiskeðju áls, í öðru lagi þyrfti skatturinn að taka mið af meðalkolefnisspori í viðkomandi ríki og í þriðja lagi yrði að gæta þess að framleiðslukostnaður ykist ekki svo í Evrópu að vörur framleiddar þar yrðu ósamkeppnishæfar utan álfunnar. 

Færa má rök fyrir því að tollahækkanir í formi slíkrar skattlagningar séu einungis til þess fallnar að ýta undir tortryggni og stuðla að frekari víxlverkun hækkana, sem kæmu á endanum verst niður á útflutningsþjóðum á borð við Ísland. Affarasælast yrði að allar þjóðir tækju upp sameiginlegt viðskiptakerfi með losunarheimildir, sem myndi þá leiða til samkeppnisforskots fyrir afurðir með minnsta kolefnissporið. Því miður er ekkert sem bendir til þess að slíkt kerfi verði tekið upp í bráð.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls

Viðskiptablaðið/Ármót, 30. desember 2019.