Engin kyrrstaða í íslenskum áliðnaði

11. okt. 2023

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, skrifar um þróun í áliðnaði í Viðskiptablaðinu.

Stöðug framþróun er í framleiðsluferli áls hér á landi. Að því koma fjölmörg fyrirtæki, sem eiga mismikið undir áliðnaði, en á síðasta ári keyptu íslensku álverin vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja fyrir rúma 60 milljarða. Ef bætt er við raforkukaupum álvera með orkuflutningi má áætla að 85 milljarðar ofan á það, en þá er tekið mið af raforkunotkun og meðalverði Landsvirkjunar til stórnotenda.

Stökk í áframvinnslu

Ef horft er til Íslands þá hafa öll álverin þrjú tekið stórt stökk fram á við í áframvinnslu áls. Norðurál vinnur um þessa mundir að 16 milljarða fjárfestingarverkefni í nýjum steypuskála, þar sem framleiddar verða álstangir eða sívalningar úr áli. Auk þess verður framleiðsla á málmblöndum aukin verulega. Hingað til hafa álhleifar Norðuráls verið bræddir í stangir í Evrópu, þar sem raforkuframleiðsla hefur stærra kolefnisspor, en með þessum áfanga er áætlað að orkusparnaður verði um 40%.

Í álverinu Straumsvík eru eingöngu framleiddar álstangir, en það risaskref var stigið með 70 milljarða fjárfestingu á árunum eftir hrun. Í álveri Alcoa Fjarðaáls fyrir austan eru framleiddar vírar og málmblöndur og í samfélagsskýrslu fyrirtækisins fyrir árið í fyrra kemur fram að unnið er að undirbúningi frekari fjárfestinga í nýrri steypulínu í steypuskála.

Sprotar komast á legg

En framþróun í áliðnaði er ekki einkamál álvera. Fjölmörg innlend fyrirtæki koma að því verkefni og eru þau jafnvel að selja vörur og þjónustu um allan heim. Nýverið bárust fregnir af því að íslenska hátæknifyrirtækið DTE hafi nú lokið við að setja upp kerskálalausn sína hjá Emirates Global Aluminium, sem er eitt stærsta álframleiðslufyrirtæki í heiminum. DTE hefur þróað lausnir sem umbylta framleiðslustýringu í áliðnaði með rauntíma efnagreiningum með leysigeisla, sem auka hraða og skilvirkni í framleiðsluferlinu og bæta orkunýtni.

DTE er eitt af á fjórða tug fyrirtækja og stofnana í Álklasanum, sem komið var á fót fyrir tæpum áratug. Gróskan er mikil í klasanum og má nefna sprotafyrirtæki á borð við Gerosion sem vinnur að hringrásarlausnum, betri nýtingu á hráefnum og verðmætasköpun úr iðnaðarúrgangi og Álvit sem vinnur að þróun á umhverfisvænum kragasalla. Álklasinn er með aðsetur í Tæknisetri, þar hefur myndast vísir að rannsóknarsetri í áli í tækni og búnaði.

Loftslagsmálin í forgrunni

Framundan eru ærin verkefni. Þar stendur upp úr að fara alla leið í loftslagsmálum og ná tökum á losun álvera. Ekki hefur enn tekist að þróa slíka tækni á stórum skala, en unnið er að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum hjá öllum íslensku álverunum, sem lúta annarsvegar að föngun á koltvísýringi sem verður til í framleiðsluferlinu og hinsvegar að þróun kolefnislausra skauta sem koma í veg fyrir myndun koltvísýrings.

Ekki verður þó horft framhjá því, að nú þegar hefur mikill árangur náðst. Dregið hefur verið úr losun á hvert framleitt tonn hér á landi um 75% frá árinu 1990. Og það er áfangi út af fyrir sig að staðsetja álver hér á landi, orkusækinn iðnað í landi endurnýjanlegrar orku, en á heimsvísu munar langmest um þá losun í álframleiðslu sem myndast vegna orkuvinnslu úr kolum og gasi til að knýja álframleiðsluna.

Markið sett hátt

Þegar Álklasanum var hleypt af stokkunum vorið 2014 var framtíðarsýn mótuð á tveggja daga stefnumótunarfundi í Borgarnesi. Upplýsandi að glugga í þau 10 áhersluverkefni sem skilgreind voru á fundinum. Upp úr stendur að mikið hefur áunnist.

Til marks um það má nefna höfuðáherslu á að stofnað verði rannsóknarsetur, rannsóknir efldar og stuðlað að samstarfi við háskóla. Samstarfið við Tæknisetur, blómlegir sprotar og árlegt nýsköpunarmót Álklasans í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík ber ágætan vitnisburð um hversu vel hefur tekist til í þeim efnum. Deginum ljósara, að verkefnin við sjóndeildarhringinn kalla á að ekki verði staðar numið.

Allt ber þetta vott um að rætur áliðnaðar eru sterkar í íslensku samfélagi. Innviðirnir eru stöðugt að eflast og horft er til langs tíma. 

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

Viðskiptablaðið, 11. október 2023.