Er verkleg kennsla svæfð í grunnskólanum?

14. maí 2018

Tölfræðin segir okkur að á undanförnum árum hafi ásókn í hefðbundnar iðngreinar farið minnkandi. 

Hvað ætlar þú að verða væni? 

voða ertu orðinn stór, 

allir spyrja einum rómi, 

eilíft hljómar þessi kór. 

Þannig sungu Hrekkjusvínin svo skemmtilega árið 1977. Enn í dag erum við að spyrja unga fólkið okkar þessarar spurningar sí og æ og oft verður fátt um svör enda námsframboð aldrei verið meira á Íslandi. Tölfræðin segir okkur að á undanförnum árum hafi ásókn í hefðbundnar iðngreinar farið minnkandi. Það er gríðarlegt áhyggjuefni á sama tíma og atvinnulífið hér á landi hrópar eftir iðnmenntuðum starfskröftum. 

Þegar ég spyr leikskólabörn hvað þau ætla að verða er þau verða stór stendur sjaldnast á svari og flest nefna störf sem krefjast handverksþekkingar svo sem smiður, hárgreiðslumaður, matreiðslumaður, bakari, gera við bíla, slökkviliðsmaður og svo framvegis. Svo virðist sem gríðarlegur munur sé á leikskólastiginu og grunnskólastiginu. Í leikskólunum er ýtt undir sköpun og verklega kennslu en svo virðist sem þessir þættir séu svæfðir í grunnskólanum. Eftir nám í grunnskóla ætlar lítill hluti nemenda í verklegt nám. 

Það virðist sem tíu ára grunnskólanám geri lítið annað en að búa nemendur undir áframhaldandi bóknám þegar grunnskólinn ætti að horfa til fjölbreytileika og ýta undir hæfni og getu hvers og eins. Það er skoðun mín að mikið brottfall nemenda í framhaldsskólum megi að einhverju leyti rekja til þess að börn séu í röngu námi og hafi ekki fengið viðeigandi ráðgjöf um námsval sitt í grunnskóla. Við þurfum að hlúa að og rækta áhuga barna frá blautu barnsbeini. Námsáherslur á grunnskólastiginu þarf að endurskoða ef við viljum ná árangri í því að fleiri sæki sér iðnnám að grunnskóla loknum. Kennsla í verklegum greinum allt frá 1. bekk grunnskóla ætti að vera aðgengileg fyrir alla. Við getum þá hvatt unga fólkið okkar til að efla með sér verklega færni sem getur skilað sér í iðnmenntuðu fagfólki sem atvinnulífið tekur fagnandi.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI.

Morgunblaðið, 14. maí 2018.