Fjórða stoðin – til mikils að vinna

1. nóv. 2020

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifa um fjórðu stoðina í Morgunblaðinu.

Okkar bíður stórt verkefni og það má engan tíma missa. Óveðursskýin vofðu yfir íslensku efnahagslífi í lok síðasta árs og kólnun hagkerfisins var staðreynd. Stóra álitamálið var og er hvað og hvernig skapa eigi verðmæti framtíðar. Á nýliðnu Iðnþingi kom fram að skapa þarf 60 þúsund störf til ársins 2050 eða sem samsvarar 40 störfum á viku hverri næstu þrjá áratugina. Stórauka þarf einnig verðmætasköpun til að standa undir þeim samfélagslega kostnaði sem hlýst af kórónuveirunni. Á sama tíma og hlúa þarf að þeim atvinnugreinum sem umfangsmestar eru þarf að festa nýja stoð – fjórðu stoðina – í sessi. Brýnt er að skipta um kúrs og gera þetta að forgangsmáli.

Í megindráttum eru þrjár stoðir útflutnings, sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta. Nú hriktir í tveimur stoðunum. Ferðaþjónusta á undir högg að sækja um heim allan vegna veirufaraldursins. Hömlur eru á ferðalögum og ferðavilji fólks er minni meðan á faraldrinum stendur. Þá eru blikur á lofti í orkusæknum iðnaði á Íslandi, afkoma iðnfyrirtækja sem nýta raforku versnar og umsvif hafa dregist saman. Það yrði mikið áfall ef tvær stoðir létu undan á sama tíma.

Fleiri Össur, Marel og CCP

Með fjórðu stoðinni undir efnahag Íslands sköpum við störf og verðmæti til að standa undir þeim lífsgæðum sem landsmenn þekkja og vilja búa við. Fjórða stoðin byggir á hugviti og nýsköpun en sá brunnur er óþrjótandi á meðan náttúruauðlindir landsins, sem hinar þrjár stoðirnar byggja á, eru takmarkaðar. Því eru hins vegar engin takmörk sett hversu mikil verðmæti má skapa með því að virkja hugvitið.

Össur, Marel og CCP eru gjarnan nefnd sem dæmi um fyrirtæki í fjórðu stoðinni og hefur verið sagt að eitt slíkt fyrirtæki verði til á áratug á Íslandi. Mörg önnur fyrirtæki sem tilheyra fjórðu stoðinni eiga möguleika á því að vaxa og verða næsta Össur, Marel og CCP. Ef rétt er á málum haldið gætu þrjú til fimm fyrirtæki náð þessari stærðargráðu á hverjum áratug.

Jarðvegurinn er frjór

Á síðasta áratug eða svo hefur umgjörð nýsköpunar verið styrkt svo um munar en þar skipta umbætur sem Alþingi samþykkti í vor mestu. Stjórnmálamenn eiga hrós skilið fyrir að hvetja til nýsköpunar og atvinnulífið hefur svarað kallinu. Hugmyndaríkt fólk hefur unnið hörðum höndum að því að skapa nýjungar og selja þær. Hvatarnir hafa sannað gildi sitt, jarðvegurinn er frjór og fræjum hefur verið sáð. Framundan getur hæglega verið áratugur nýsköpunar – áratugur uppskeru þar sem sprotar blómstra og skapa mikilvæg verðmæti. Þannig verður fjórða stoðin fest í sessi með fjölmörgum nýjum störfum, útflutningsverðmæti og auknum fjölbreytileiki í atvinnulífinu sem eykur stöðugleika til framtíðar.

Umbætur og sókn

Tvö meginverkefni eru á borði stjórnvalda svo fjórða stoðin verði fest í sessi. Annars vegar er það að efla samkeppnishæfni landsins og hins vegar að sækja tækifærin. Mótun atvinnustefnu er öflugasta leiðin til að efla samkeppnishæfni. Stefnan grundvallast á umbótum á fjórum meginsviðum. Í menntamálum þannig að mannauður landsins styðji við sýn um fjórðu stoðina, með því að tryggja að innviðir landsins séu traustir og leggi grunn að verðmætasköpun, að umgjörð nýsköpunar sé eins og best verður á kosið þannig að hugvit landsmanna verði virkjað í ríkari mæli og starfsumhverfi fyrirtækja sé hagkvæmt, skilvirkt og stöðugt. Þannig er hlúð að þeim atvinnugreinum sem stærstar eru um leið og fjórða stoðin er reist.

Umbætur einar og sér duga þó skammt ef ekki er sagt frá þeim dyrum sem þær opna. Sækja þarf tækifærin með markvissum og skipulegum hætti og markaðssetja Ísland á breiðari grunni en verið hefur. Með samstilltu átaki stjórnmála, stjórnsýslu, Íslandsstofu og atvinnulífs er hægt að laða að erlenda fjárfestingu, ný fyrirtæki og þekkingu í ríkari mæli. Við höfum dregist aftur úr á þessu sviði í samanburði við mörg önnur ríki og þurfum að sækja tækifærin með kröftugri markaðssetningu – frá upplýsingatækni til kvikmyndaframleiðslu, frá líftækni til grænnar tækni.

Hlaupum hraðar

Efnahagsleg framtíð Íslands er í húfi. Með fjórðu stoðinni verða til ný störf, aukin verðmæti til að standa undir þeim lífsgæðum sem landsmenn þekkja og vilja búa við og verðmæti til að greiða fyrir þann kostnað sem hlýst af kórónuveirunni. Leiðin liggur fyrir en verkefnið er rétt að hefjast. Við þurfum að hlaupa hraðar og setja þetta verkefni í forgang. Þannig verður Ísland áfram í fremstu röð. 

Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið  31. október 2020.