Fleiri hagkvæmar íbúðir

17. apr. 2019

Erfiðleikar yngra fólks og tekju- og eignalágra einstaklinga við að eignast íbúð er eitt af stærstu og brýnustu viðfangsefnunum á íbúðamarkaði í dag.

Erfiðleikar yngra fólks og tekju- og eignalágra einstaklinga við að eignast íbúð er eitt af stærstu og brýnustu viðfangsefnunum á íbúðamarkaði í dag. Margir úr þessum hópi eru á hrakhólum og í óvissu, fastir á leigumarkaði sökum efnahagslegrar stöðu sinnar. Ástandið er sérstaklega slæmt á höfuðborgarsvæðinu enda húsnæðisverð þar hærra í hlutfalli við laun en annars staðar á landinu. Á sama tíma og það sárvantar fleiri hagkvæmar íbúðir á markaðinn er framboð nýrra íbúða á því svæði fyrst og fremst á þéttingarreitum þar sem verð íbúða og byggingakostnaður er hár. 

Ábyrgðin á húsnæðisvanda tekju- og eignalágra liggur að miklu leyti hjá skipulagsyfirvöldum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu enda hafa þau mikið um það að segja hvað er byggt og hvar. Lóðaframboð þeirra tók allt of seint við sér í nýlegri efnahagsuppsveiflu sem gerði það að verkum að verð íbúða hækkaði talsvert og umfram laun og þannig varð erfiðara fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð. Áhersla á þéttingu byggðar fylgdu meiri tafir og kostnaður við byggingar sem gerði það að verkum að nýjar íbúðir skiluðu sér seinna inn á markaðinn en ella og byggingakostnaður þeirra var hærri. Þegar framboðsaukningin kom var henni mest beint á dýrari svæði höfuðborgarinnar og því ekki til þess fallin að leysa vanda þeirra efnaminni og fyrstu kaupenda. 

Stefna stærsta sveitarfélagsins á höfuðborgarsvæðinu hefur verið sérstaklega áberandi í þessu sambandi en af öllum íbúðum í byggingu í Reykjavík er ríflega þriðjungur í póstnúmeri 101, þ.e. á svæði þar sem verð á nýjum íbúðum er um 46% hærra en á íbúðum í póstnúmerum utan þéttingarreita. Um 20% Reykvíkinga eldri en 25 ára eiga ekki sitt eigið húsnæði og eru ríflega 16% Reykvíkinga í leiguhúsnæði. Hópurinn er því stór sem sökum fjárhagslegrar stöðu sinnar finnur sig tilneyddan að nýta það húsnæðisúrræði. Þá fjölgar þeim á aldrinum 20-29 ára sem búa enn í foreldrahúsum. 

Nýframkomnar hugmyndir um aðkomu stjórnvalda að lausn vanda tekju- og eignalágra á íbúðamarkaði hafa fyrst og fremst snúið að því að efla eftirspurnarhlið markaðarins. Mun minni áhersla hefur verið á aukið framboð íbúða á svæðum þar sem íbúðaverð er lægra en gengur og gerist miðsvæðis í höfuðborginni. Þetta er hættuleg blanda en aukin eftirspurn á tíma þegar framboð er takmarkað kallar á verðhækkun umfram hækkun launa. Aðgerðirnar gætu misst marks nema ráðist sé að rót vandans og framboð aukið. 

Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir umbótum á byggingamarkaði. Áttu samtökin sinn þátt í því að átakshópur ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um aukið framboð á íbúðum skilaði forsætisráðherra tillögum sínum nýlega. Þar kemur fram að óuppfyllt íbúðaþörf er á bilinu 5-8 þúsund íbúðir. Leggur átakshópurinn til umbætur á byggingamarkaði í 40 liðum. Margar þeirra snúa að vandamálum sem Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á og því eru það jákvæð tíðindi að samstaða hafi náðst um tillögur að lausnum. 

Meðal umbóta sem átakshópurinn mælir með eru aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða. Mikilvægt er að í útfærslu þess sé tryggt að allir byggingaraðilar sitji við sama borð, hvort sem um er að ræða leigufélög eða aðra. Nýsköpun og framleiðnivöxtur eru best tryggð þar sem samkeppnin er sem mest. Með slíku fyrirkomulagi má best tryggja hagkvæmni og skilvirkni í byggingariðnaði til heilla fyrir íbúðakaupendur. Með því að gefa sem flestum tækifæri til að leggja sitt til lausnar vandans – og þá auðvitað að allir fái að sitja við sama borð þegar kemur að afgreiðslu hjá sveitarfélögunum – má byggja þær hagkvæmu íbúðir sem markaðurinn kallar eftir. Þannig verður vandinn leystur og um leið stuðlað að efnahagslegum sem og félagslegum stöðugleika.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

ViðskiptaMogginn, 17. apríl 2019.