Græn iðnbylting á Íslandi

12. feb. 2022

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifa um græna iðnbyltingu í Morgunblaðinu.

Iðnbyltingar hafa mótað samfélög heims undanfarnar aldir þar sem nýsköpun hefur getið af sér nýja tækni sem rutt hefur fyrra fyrirkomulagi úr vegi. Þetta hefur gerst vegna þess að nýjungar þess tíma juku afköst og leiddu til efnahagslegra framfara. Það var hagkvæmt að fjárfesta í nýrri tækni. 

Græn iðnbylting stendur nú yfir þar sem ríki heims hafa sammælst um að bregðast við áhrifum gróðurhúsalofttegunda á umhverfið og draga úr losun kolefnis. Íslensk stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og að Ísland verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Það þýðir að við hættum að flytja inn olíu og brenna. Samkvæmt orkustefnu stjórnvalda er stefnt að nýtingu innlendra orkugjafa. Ekki eingöngu er þetta gott fyrir umhverfið heldur er þetta efnahagslegt framfaramál sem mun bæta lífskjör landsmanna. 

Ólík öðrum iðnbyltingum þá eru lausnirnar ekki til og þær þarf að finna til þess að ná metnaðarfullum markmiðum. Þetta er samvinnuverkefni um allan heim þar sem stjórnvöld setja upp hvata þannig að grænu umskiptin verði hagkvæm en fyrirtækjanna er að finna bestu lausnirnar. Græn iðnbylting felur í sér nýsköpun, orkuskipti og miklar fjárfestingar. Íslenskur iðnaður ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og er reiðubúinn að finna bestu og hagkvæmustu lausnirnar í þágu loftslagsins og samfélagsins alls. 

Grænn iðnaður 

Grænar lausnir hafa orðið til með virkjun hugvits og fleiri eru á teikniborðinu. Þessar grænu lausnir getum við flutt út og þannig hjálpað öðrum að ná sínum markmiðum um leið og við eflum hugverkaiðnað sem er fjórða stoðin í hagkerfinu. Framleiðsla verður smám saman græn þar sem sum fyrirtæki hafa þegar náð markmiðum um kolefnishlutleysi, önnur hafa náð miklum árangri en enn önnur eru skemur á veg komin. Byggingariðnaður vinnur hörðum höndum að því að gera mannvirki vistvænni og grænni og er að vænta aðgerðaáætlunar síðar á árinu. Þá getum við náð forskoti í orkuskiptum og ef rétt er á málum haldið getur orðið til hér iðnaður og þekking sem verður eftirsótt víða um heim. Til mikils er að vinna fyrir umhverfið og fyrir samfélagið allt. 

Frumkvæði iðnaðar 

Samtök iðnaðarins setja þessi mál í öndvegi allt þetta ár undir merkjum grænnar iðnbyltingar og mun það endurspeglast með ýmsum hætti með útgáfu, greiningum og fjölbreyttum viðburðum. Raunar hafa Samtök iðnaðarins látið þessi mál sig miklu varða um alllanga hríð og sýndu frumkvæði með því að vera leiðandi við stofnun Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir, sem ætlað er að hvetja til aðgerða innanlands og markaðssetja íslenskar lausnir erlendis og hjálpa þannig öðrum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum. Þá hefur orðið mikil viðhorfsbreyting meðal íslenskra fyrirtækja og við höfum fengið skýr skilaboð frá félagsmönnum okkar um að láta meira til okkar taka í þessum málum. 

Sigrar, áskoranir og tækifæri 

Við hlustum, við heyrum og við látum til okkar taka. Við ætlum að kjarna málin og setja þau í nauðsynlegt samhengi þannig að sem flestir skilji og átti sig á því hvað við erum að gera í dag og möguleikum framtíðarinnar. Með ári grænnar iðnbyltingar vilja Samtök iðnaðarins hvetja til aðgerða þannig að Ísland geti sannarlega talist grænt, hvað sem nafninu líður, og verið svarið við lausn loftlagsvandans. Megi árið verða okkur öllum árangursríkt og gefa tóninn fyrir íslensk afrek framtíðarinnar í loftslagsmálum. 

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 12. febrúar 2021.