Hagstjórnarmistök stjórnvalda

17. jan. 2024

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, skrifar um íbúðauppbyggingu í ViðskiptaMoggann.

Í síðustu fjármálaáætlun komu fram áform stjórnvalda um að hækka virðisaukaskatt við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis með því að lækka hlutfall endurgreiðslu af framkvæmdum við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35%. Tók skattahækkunin gildi um mitt síðasta ár og var svo gott sem fyrirvaralaus. Í fjármálaáætlun kom fram að skattahækkunin væri til þess fallin að hægja á umsvifum í byggingageiranum, m.ö.o. hægja átti á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis með umræddri aðgerð. Á þetta sér stað á sama tíma og unnið er að markmiðum stjórnvalda um að byggja 35 þúsund íbúðir sem komu fram með yfirlýsingu innviðaráðherra og var þeim fylgt eftir með gerð rammasamnings við Samband Íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Það er því óhætt að segja að með skattahækkuninni hafi átt sér stað hagstjórnarmistök.

Umrædd skattahækkun, sem lagðist ofan á hækkandi fjármagnskostnað og viðvarandi lóðaskort, hafði neikvæð áhrif á áform byggingaverktaka samkvæmt nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins. Greiningin byggir á könnun sem samtökin létu framkvæma meðal verktaka sem byggja íbúðir í eigin reikning. Samkvæmt könnunni segja 75% verktakanna að umrædd skattahækkun hafi haft áhrif á uppbyggingu íbúða hjá þeirra fyrirtæki og þar með dregið úr uppbyggingu. Af þessu má ljóst vera að aðgerðin ýtir enn frekar undir áframhaldandi íbúðaskort, líkt og Samtök iðnaðarins vöruðu ítrekað við í aðdraganda skattabreytinganna.

Greiningin staðfestir að verulegur íbúðaskortur mun að óbreyttu blasa við næstu árin þar sem fá áform eru uppi um að hefja uppbyggingu á nýjum íbúðum næstu 12 mánuði. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar reikna stjórnendur með því að byrjað verði á byggingu 699 íbúða hjá þeirra fyrirtækjum á næstu tólf mánuðum samanborið við 986 á síðustu tólf mánuðum. Samdrátturinn er því 29% og hefur niðurstaða könnunarinnar forspárgildi fyrir markaðinn.

Í því sambandi má benda á að í sambærilegri könnun frá því í mars á síðasta ári kemur fram að stjórnendur reikna með 65% samdrætti í fjölda íbúða sem byrjað yrði á á næstu 12 mánuðum samanborið við síðustu 12 mánuði. Sá samdráttur raungerðist þó fyrr en könnunin benti til þar sem niðurstöður síðustu talningar HMS, sem framkvæmd var í september síðastliðnum, sýndu að þá þegar væri 68% samdráttur í fjölda íbúða í byggingu frá talningunni í mars á síðasta ári. Hafa ber í huga að HMS hefur metið það svo að byggja þurfi 3-4.000 íbúðir á ári til að mæta fyrirliggjandi þörf.

Þegar metnaðarfull áform stjórnvalda um uppbyggingu á 35.000 íbúðum lágu fyrir hófust byggingavertakar handa við að fjölga byggingaverkefnum til að mæta þörfum almenning. Frá þeim tíma hafa stýrivextir hækkað umtalsvert, byggingarvísitala hefur hækkað, sölutími íbúða lengst og stjórnvöld hafa lækkað endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þessi þættir hafa leitt til þess að á stuttum tíma hækkaði byggingakostnaður mikið og hefur verð á meðalíbúð hækkað um hátt í 7 milljónir. Leita þarf allra leiða til að koma til móts við þessa þróun.

Í fjármálaáætlun kemur fram að endurgreiðslan verður eftir atvikum aukin á ný kalli staðan í hagkerfinu á slíkan stuðning á komandi misserum. Staðan kallar svo sannarlega á slíka endurskoðun nú. Óháð öllum metnaðarfullum áformum um uppbyggingu þá er staðreyndin sú að verulegur íbúðaskortur blasir við næstu árin og er sú þróun þveröfug við það sem þyrfti að vera. Íbúðaskorturinn kemur ekki aðeins til með að hafa áhrif á þá sem þurfa á húsnæði að halda heldur á allt samfélagið. Þegar vextir taka að lækka og landsmönnum verður gert kleift að kaupa íbúðir á ný verður framboð ekki nægjanlegt og fasteignaverð fer enn og aftur upp. Hækkun fasteignaverðs leiðir svo aftur til hárrar verðbólgu og hárra vaxta. Ráðast þarf í skipulag á nýjum uppbyggingarsvæðum, endurskoða skilmála sveitarfélaga við lóðaúthlutanir og lækka aftur skatta af vinnu manna á verkstað.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.

ViðskiptaMogginn, 17. janúar 2024.