Hjartað ráði för í námsvali

11. apr. 2019

„Mamma, á ekki bara að skella mér í lögfræðina í haust?“ spurði ég hæstaréttardómarann og heiðursdoktorinn hana móður mína sumarið 1988. 

„Mamma, á ekki bara að skella mér í lögfræðina í haust?“ spurði ég hæstaréttardómarann og heiðursdoktorinn hana móður mína sumarið 1988 þegar ég var nýútskrifuð úr Menntaskólanum í Reykjavík. „Nei veistu það, Hansa mín, ég held að það henti þér ekkert sérlega vel,“ svaraði mamma um hæl.

Ég leiði alltaf hugann að þessum orðum mömmu um þetta leyti árs og verð hugsað til þeirra ungmenna sem nú standa frammi fyrir því vali að velja nám í framhaldsskóla eða háskóla. Samkvæmt könnun frá árinu 2016 kemur fram að 33-68% framhaldsskólanema líkaði betur við verkleg fög en bókleg fög í grunnskóla, eftir námssviði. Þrátt fyrir það völdu aðeins um 15% nýnema starfsnámssérhæfingu í framhaldsskóla. Við hljótum því að spyrja: Eru kannski fjölmargir framhaldsskólanemar á rangri hillu? Af hverju ræður hjartað ekki för í námsvali?

Ítrekað hefur komið fram að einn stærsti áhrifaþáttur í námsvali ungmenna eru raddir foreldra. Skoðanir þeirra eru þó því miður oft byggðar á ranghugmyndum og upplýsingaskorti um virði náms og starfa. Starfsnám lokar engum leiðum en það er einfalt að taka stúdentspróf með blöndu bóklegra og verklegra faga á sviði iðnaðar, lista eða annarra starfsnámsgreina í framhaldsskóla. Starfsnámið kemur sér einnig vel sem grunnur í tækninámi í háskóla, t.d verkfræði, standi hugur til. Ungmenni með starfsnám geta farið fyrr út á vinnumarkaðinn og í raun benda nýleg gögn til þess að tækifæri starfsmenntaðra til tekjuöflunar yfir starfsævina geti verið meiri en þeirra sem hafa hefðbundinn bóknámsgrunn eingöngu.

Ég vil hins vegar leyfa mér að nefna aðra ástæðu sem er jafnvel enn mikilvægari. Það sem tvítugi nýstúdentinn vissi nefnilega ekki fyrir 30 árum, en mamma vissi blessunarlega, er mikilvægi þess að láta hjartað ráða för í námsvali. Ég hvet alla foreldra nemenda í 10. bekk grunnskóla til að vera víðsýna og skoða þá möguleika sem felast í starfsnámi í framhaldsskóla. Starfsgreinarnar hafa þróast mikið frá frumstæðu handverki fyrri tíma og spanna breitt litróf, allt frá tölvustýrðum verkefnum málm- og véltækni til kökugerðar, tæknibrellna, tölvuleikjagerðar og teiknimyndagerðar.

„Finndu starf sem þú elskar og þú munt aldrei vinna dag í þínu lífi,“ á Konfúsíus að hafa sagt. Í mínum huga eru það mikil sannindi.

Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá Samtökum iðnaðarins.

Morgunblaðið, 11. apríl 2019.