Hneppt í heimatilbúna fjötra

30. des. 2020

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar um atburði þessa árs í Markaðnum.

Atburðir þessa árs hafa sannarlega minnt okkur á að sagan er ekki línuleg. Morgundagurinn verður ekki sjálfkrafa betri en dagurinn í dag. Atburðir þessa árs eru ekki síður áminning um það að gera það sem í okkar valdi stendur til að gera eins gott úr öllu og hægt er. Það gildir um okkur sem einstaklinga, um fyrirtæki og stjórnvöld. Eitt er þó ljóst. Verðmætin verða til í atvinnulífinu og þau standa undir velferðarsamfélaginu sem við höfum þurft á að halda nú sem aldrei fyrr. 

Vinnumarkaðurinn og sú umgjörð sem stjórnvöld skapar fyrirtækjum ræður úrslitum um það hvort hér verður velmegun eða ekki. Í upphafi árs voru óveðursský yfir Íslandi og það var áður en kórónuveiran skall á. Enn vofa óveðursskýin yfir landinu. 

Verkalýðshreyfingin situr hjá 

Í ár höfum við upplifað mesta efnahagsáfall í lýðveldissögunni. Um þessar mundir hækka laun samt sem áður á sama tíma og atvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Verkalýðsforystan stendur fast við boðaðar launahækkanir nú um áramótin og virðist ekki sjá ástæðu til þess að verja störf í landinu með því að draga í land. Fyrirtækin þurfa að hagræða í enn ríkari mæli þannig að boðaðar launahækkanir nú hvetja til aukins atvinnuleysis og vandinn eykst. Þessir fjötrar eru heimatilbúnir og þá verður að leysa. 

Ryðjum hindrunum úr vegi 

Á sama tíma þarf að hlúa að rótgrónari atvinnugreinum. Stjórnvöld hafa að mörgu leyti staðið sig vel í því að ryðja hindrunum úr vegi en mikið verk er enn óunnið.

Samkeppnishæfni er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum og þar skipta fjórir þættir meginmáli, menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Bylting er að eiga sér stað varðandi iðnnám og metnaður er fyrir því að menntakerfið styðji við vöxt hugverkaiðnaðar. Umgjörð nýsköpunar hefur batnað verulega, sérstaklega á þessu ári og styður það við fjórðu stoðina. Auknu fjármagni hefur verið varið til innviðauppbyggingar en innviðir landsins hafa verið fjársveltir um margra ára skeið. Regluverkið hér á landi er óþarf lega íþyngjandi og starfsumhverfi fyrirtækja því ekki sem best verður á kosið. Með líkingu má segja að okkar fólk sé sent í keppnina með 30 aukakíló á bakinu og við skiljum ekki í því að það komi ekki á sama tíma í mark og erlendir keppinautar. Þarna eru heimatilbúnir fjötrar sem þarf að leysa og spilar ríkisvaldið lykilhlutverk í því. 

Látum hugvitið blómstra 

Efnahagsleg framtíð Íslands ræðst af því hversu hratt tekst að efla hugverkaiðnað, fjórðu stoðina, á sama tíma og hlúð er að því sem fyrir er, enda er vöxtur leiðin fram á við en ekki aukin skattlagning. Þannig verða til eftirsótt störf og aukin verðmæti til að standa undir lífsgæðum landsmanna. Hugverkaiðnaður byggir fyrst og fremst á mannauði en ekki á náttúruauðlindum eins og hinar útflutningsstoðirnar þrjár. 

Með umbótum á síðustu árum hafa stjórnvöld gert jarðveginn frjóan og frumkvöðlar hafa sáð fræjum í þann frjóa jarðveg. Meira þarf til og ganga verður hreint til verks. Þessi uppbygging má ekki bíða.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 30. desember 2020.