Horfum til framtíðar í menntamálum

14. des. 2018

Breytingar á menntakerfinu eru nauðsynlegar til að mæta þeirri öru þróun sem þegar sjást merki um í atvinnulífinu og samfélaginu öllu.

Breytingar á menntakerfinu eru nauðsynlegar til að mæta þeirri öru þróun sem þegar sjást merki um í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Það blasir við að slíkum breytingum verður ekki mætt nema með nýrri nálgun og umbótum á kerfinu eins og við þekkjum það í dag. Breytingarnar snúast ekki um aukið fjármagn heldur nýjar áherslur og skýrari stefnu í menntamálum þar sem horft er til framtíðar.

Menntakerfið gegnir þeim mikilvæga tilgangi að undirbúa komandi kynslóðir undir störf framtíðarinnar. Það velkist enginn í vafa um að menntakerfið er mikilvægt fyrir gangverk samfélagsins en það er langt frá því að vera eyland heldur þarf það að búa einstaklinga undir störf í samfélaginu. Þróun í menntamálum endurspeglar ekki þann hraða sem er í þróun og þörfum atvinnulífsins. Bent hefur verið á að vandinn snúi ekki aðeins að námsskránni heldur sé hann djúpstæðari og snúi að því hvernig efla megi kennarastéttina, efla námsefnisgerð og bregðast við þeim skýru vísbendingum sem þegar hafa komið fram um stöðu í íslensku menntakerfi, t.d. í niðurstöðum PISA.

Þurfum meiri fjölbreytileika

Undirstaða íslensks efnahagslífs byggist á vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Um það eru allir sammála. En vel menntað starfsfólk þýðir einnig fjölbreytileiki. Undanfarin ár hefur þróunin verið með þeim hætti að sífellt fleiri ljúka stúdentsprófi og færri ljúka námi í iðn-, verk- eða tækninámi. Við höfum beint ungu fólki í hefðbundið bóknám í stað þess að byggja á fjölbreytileikanum og miðla námi með betri hætti til nemenda okkar.

Nú þegar er orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Með öðrum orðum þá er gríðarlegur skortur á fólki með hæfni og þekkingu í verklegum greinum. Það hefur að undanförnu reynst erfitt fyrir fyrirtæki að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og því er mikilvægt að fjölga þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Vantar fagmenntaða starfsmenn

Íslenskur iðnaður og íslensk fyrirtæki hrópa á fleiri fagmenntaða starfsmenn. Það er alveg sama hvar borið er niður, alltaf er viðkvæðið það sama hjá atvinnurekendum, það vantar fleiri fagmenntaða starfsmenn. Nú er svo komið að þetta er það sem vegur einna þyngst þegar atvinnurekendur hér á landi eru spurðir um hvað hrjái þá helst í rekstri sinna fyrirtækja. Í könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og önnur atvinnugreinasamtök á síðasta ári kemur skýrt fram að fyrirtæki sem sjá fram á fjölgun stöðugilda á komandi árum segjast helst reikna með fjölgun starfsmanna sem lokið hafa iðn- eða starfsnámi. Eftirspurn eftir starfsfólki með þessa menntun hefur aukist og á síðustu misserum hefur það reynst fyrirtækjum hvað erfiðast að manna störf tengd þessum greinum. Þá nefna fyrirtækin að erfitt reynist að fá til starfa fólk með tæknimenntun.

Starfsnám á undir högg að sækja

Hlutverk menntastofnana er m.a. að sjá atvinnulífinu fyrir hæfu starfsfólki en margt bendir til þess að ekki fari saman framboð og eftirspurn. Hlutfall brautskráðra úr iðnnámi hefur farið sílækkandi á undanförnum árum á sama tíma og mikil umframeftirspurn er eftir iðnmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaðnum. Í alþjóðlegum samanburði á starfsnám á Íslandi undir högg að sækja en aðeins voru um 32% nemenda í framhaldsskólanámi sem sóttu starfsnám á árinu 2015. Hlutfallið er að meðaltali 47% innan ESB.

Haustið 2017 innrituðust í framhaldsskóla 98,3% nemenda sem útskrifuðust úr grunnskóla. Af þeim sem innrituðust í framhaldsskóla hófu 12% nám á verk- og starfsnámsbrautum og 5% á listnámsbrautum. Þessi hlutföll endurspegla ekki þá stöðu sem virðist vera á íslenskum vinnumarkaði hvað varðar eftirspurn eftir starfsfólki. Þetta er jafnframt mjög frábrugðið því sem sést í mörgum Evrópulöndum þar sem hlutfallið er allt að 50%. OECD hlutfallið er t.a.m. 25% eða tvöfalt á við Ísland. Hins vegar er rétt að minnast á það að nú í haust sáum við í fyrsta sinn í langan tíma jákvæð teikn á lofti hvað varðar aðsókn í iðnnám og komust til að mynda færri að en vildu í vissar greinar. Það var til dæmis um 60% aukning umsókna í pípulagnir og rafvirkjun svo eitthvað sé nefnt.

Mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg

Fyrir íslenskan sjávarútveg er lífsnauðsynlegt að eðlileg fjölgun og endurnýjun eigi sér stað í iðngreinunum. Íslenskur sjávarútvegur hefur vaxið og dafnað vegna þess að hér á landi hefur sjávarútvegurinn haft aðgengi að mjög hæfu iðn- og tæknimenntuðu fólki.

Sjávarútvegurinn sem ein af okkar undirstöðuatvinnugreinum hefur þurft á sérhæfðum tæknibúnaði að halda til að geta framleitt úr miklu magni af afla á sem skemmstum tíma. Sjávarútvegurinn hefur haft, umfram margar aðrar framleiðslugreinar hérlendis, fjárhagslega burði til að vinna að framgangi og þróun tæknilausna með tæknifyrirtækjum. Þar af leiðandi hafa orðið til fjölmörg fyrirtæki hér á landi sem þróa vélar, hugbúnað eða aðrar tæknilausnir tengdum sjávarútegi. Í dag eru yfir 40 fyrirtæki hér á landi sem bjóða tæknilausnir undir eigin vörumerki fyrir fiskvinnslu og mörg af stærri tæknifyrirtækjum landsins hafa orðið til í þjónustu og þróun eftir áratuga samstarf við útgerðir og fiskvinnslu.

Öll þessi fyrirtæki þurfa stöðugt á iðn-, verk- og tæknimenntuðu fólki að halda. Þá má nefna að mörg þessara fyrirtækja bjóða hinum ýmsu greinum matvælaframleiðslu tæknilausnir sem eiga uppruna sinn að rekja til þróunar í sjávarútvegi. Þannig hjálpar allt hvert öðru. Það má því segja að fyrirtæki okkar séu orðin leiðandi í matvælatækni og heildarvelta í greininni hleypur á hundruðum milljarða króna.

Tæknin hefur áhrif

Nú eru liðlega 8.500 störf í sjávarútvegi á Íslandi. Það er gríðarleg breyting frá því sem áður var. Það hefur orðið gríðarleg eðlisbreyting starfa þegar hægt er að ganga um vinnslusali sjávarútvegsins nánast mannlausa enda tæknin búin að yfirtaka einhæf og líkamlega erfið störf. En það er einmitt það sem er að gerast. Tæknin mun taka yfir störf sem eru einhæf og líkamlega slítandi og það er af hinu góða. Þar með eykst framleiðni okkar og þar af leiðandi mun samkeppnishæfni okkar aukast til mikilla muna. Á síðustu 20 árum hefur störfum í sjávarútvegi fækkað um tæplega 50% en þrátt fyrir það hefur framleiðsluvirði greinarinnar stóraukist. Við megum þó ekki líta framhjá því að þessi þróun hefur haft afgerandi áhrif á atvinnulíf og búsetu á landsbyggðinni þar sem yfir 80% starfa í sjávarúvegi eru á landsbyggðinni.

Mikið fjármagn en lakari árangur

Í skýrslu sem Samtök iðnaðarins gáfu út fyrr á þessu ári með heitinu Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina kemur fram að Íslendingar eru í 8. sæti innan OECD þegar kemur að framlögum til menntamála, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Við verjum um fimmtungi meira til málaflokksins en meðaltal innan 22 landa Evrópu. Ef þessi framlög eru skoðuð nánar með hliðsjón af skólastigum kemur í ljós að á Íslandi er mun meira veitt til grunnskólanáms en háskólanáms í samanburði við hin löndin. Ísland er þannig í 1. sæti af 35 innan OECD þegar kemur að fjárveitingu til grunnskóla, 13. sæti í flokki framhaldsskóla og 25. sæti af 35 þegar kemur að fjárveitingu til háskóla. Ef leiðrétt er fyrir fjölda nemenda kemur þá munurinn enn skýrar í ljós.

Íslendingar verja mestum fjármunum til grunnskólakerfisins innan OECD en á sama tíma benda árangursmælikvarðar PISA til þess að frammistaða nemenda sé um margt lakari en hjá öðrum OECD löndum. Þannig var Ísland í 27. sæti af 35 þegar kom að lesskilningi á árinu 2015 og 24. sæti í stærðfræði. Þegar kemur að árangri í stærðfræði er Ísland í hópi með Portúgal, Tékklandi og Slóvakíu og árangurinn mun lakari en hjá löndum í sama tekjuflokki miðað við árið 2015.

Mætum krefjandi áskorunum

Samtök iðnaðarins kynntu nýlega menntastefnu samtakanna þar sem lagðar eru fram fjölmargar tillögur að umbótum í íslensku menntakerfi til að mæta krefjandi áskorunum framtíðarinnar.

Fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin fylgja miklar breytingar á tækni og störfum. Oft er nefnt að um 60% þeirra starfa sem grunnskólabörn munu vinna við í framtíðinni þekkist ekki í dag og að á árinu 2020 verði mikilvægasta færnin fólgin í lausnamiðaðri og gagnrýnni hugsun og sköpun.

Í menntastefnu samtakanna eru dregnir fram 10 þættir sem munu skipta sköpum um færni framtíðarinnar:

  1. Lausnamiðuð hugsun
  2. Gagnrýnin hugsun
  3. Sköpun
  4. Mannauðsstjórnun
  5. Samskipti og samstarf
  6. Tilfinningagreind
  7. Ákvarðanataka og dómgreind
  8. Þjónustumiðun
  9. Samningatækni
  10. Aðlögunar- og þróunarhæfni

Auk þess munum við þurfa að leggja ríka áherslu á endurmenntun, starfsþróun, raunfærnimat og fullorðinsfræðslu samfara hækkandi lífaldri fólks. Meginstefnumið í menntastefnu Samtaka iðnaðarins er að efla íslenskt menntakerfi með markvissum aðgerðum í samstarfi atvinnulífs og skóla þannig að færniþörf atvinnulífsins verði mætt á hverjum tíma.

Það eru einkum tvö viðfangsefni í menntamálum sem Samtök iðnaðarins hafa látið sig varða á undanförnum misserum. Annars vegar er um að ræða stóreflt átak í iðn- og verknámi og hins vegar er um að ræða tækninám í víðtækri merkingu þar sem forritun og viðfangsefni stafræns hagkerfis eru höfð að leiðarljósi.

Nýjar áherslur og skýrari stefna

Líkt og ég gat um hér í upphafi greinarinnar þá snýst þetta ekki um aukið fjármagn til menntakerfisins heldur nýjar áherslur og skýrari stefnu í menntamálum. Aukið fjármagn er ekki ávísun á aukinn árangur. Horfum til framtíðar og ýtum undir athafnagleði og sköpunargleði hjá börnum í gegnum allt skólakerfið og eflum list- og verkgreinar til að mæta kröfum nýrra kynslóða. Þannig styðjum við efnahagslega velmegun og aukum hagsæld þjóðarinnar.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI.

Tímaritið Sjávarafl, 14. desember 2018.