Hugmyndalandið

31. okt. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Formaður og framkvæmdastjóri SI skrifa grein í Morgunblaðið með yfirskriftinni Hugmyndalandið.

Miklar framfarir hafa átt sér stað á Íslandi á undanförnum áratugum. Þær stórstígu breytingar sem orðið hafa í þjóðlífi og á atvinnuháttum hafa gert það að verkum að íslenskt samfélag hefur þróast úr fátækt og fábrotnu atvinnulífi yfir í að vera á flesta mælikvarða í fremstu röð í heiminum. Með hugmyndir, metnað og samtakamátt að vopni voru teknar góðar ákvarðanir og þær framkvæmdar þjóðinni til heilla. Með elju og staðfestu höfum við fjárfest í innviðum, samgöngum, fjarskiptum, húsnæði, nýsköpun og menntun og með því skapað frjóan jarðveg fyrir fjölbreytt atvinnulíf og velsæld. 

Samtakamátturinn og viljinn til þess að byggja upp færði okkur stóra sigra en nú þarf að hefja nýja sókn á ýmsum sviðum. Líta til framtíðar og halda áfram að sækja tækifærin. Hrinda öflugum hugmyndum í framkvæmd og halda áfram á braut framfara, landsmönnum öllum til hagsbóta. Þannig verður Ísland Hugmyndalandið. 

Hugverkaiðnaður er hástökkvarinn 

Hugverkaiðnaður er sú atvinnugrein sem hefur vaxið mest það sem af er þessu ári, eða um ríflega 20% á milli ára. Útflutningur hugverkaiðnaðar gæti numið um 320 milljörðum króna í ár, sem er um tvöföldun á fimm árum. Þetta sýnir þann mikla drifkraft og eldmóð sem býr í frumkvöðlum og þeim ríflega 18 þúsund manns sem starfa nú í hugverkaiðnaði á Íslandi en einnig hvað framúrskarandi og hvetjandi umgjörð um fjárfestingar í nýsköpun, sem stjórnvöld hafa skapað, hefur mikil áhrif. 

Innan greinarinnar er að finna fjölbreytta starfsemi landið um kring, til að mynda tölvuleikjagerð, hátækniframleiðslu, lyfjaþróun og -framleiðslu, líf- og heilbrigðistækni, upplýsingatækni og hugbúnaðarþróun. Þessi fjölbreytni stuðlar að auknu jafnvægi í íslenskum útflutningi og eykur sjálfbærni hagkerfisins. Framleiðni í hugverkaiðnaði er há og greinin skapar verðmæt og eftirsóknarverð störf. Framleiðni og lífskjör þjóða haldast í hendur. 

Breytum ekki kerfi sem virkar 

Miklar umbætur á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar hafa leyst krafta úr læðingi með vexti hugverkaiðnaðar sem skiptir sköpum fyrir framtíðarlífskjör á Íslandi. Tekist hefur að fjölga og styrkja stoðir íslensks útflutnings og sér ekki fyrir endann á þessari jákvæðu þróun. Skattfrádráttur vegna rannsókna- og þróunarverkefna er stærsta og mikilvægasta framlag ríkisins til framtíðaratvinnuuppbyggingar og vaxtar greina sem byggja á fjárfestingu í nýsköpun. 

Samtök iðnaðarins sjá mikil tækifæri til frekari vaxtar hugverkaiðnaðar á næstu árum. Ef stjórnvöld tryggja áfram öflugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í hugverkaiðnaði, með stuðningi við nýsköpun og tækniþróun, er líklegt að greinin verði verðmætasta útflutningsstoð Íslands við lok þessa áratugar. Fjölmörg fyrirtæki á þessu sviði hefðu vafalítið séð hag sínum betur borgið í öðrum löndum ef ekki hefði komið til hvetjandi starfsumhverfi sem er samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Tækni- og hugverkafyrirtæki eru sérstök að þessu leyti, því meirihluti þeirra getur flutt starfsemi sína úr landi á örfáum mánuðum. Það verður viðfangsefni næstu ríkisstjórnar að búa þessum ört vaxandi iðnaði áframhaldandi samkeppnishæf rekstrarskilyrði. Við hvetjum til þess að þau mál verði sett í forgang. 

Látum söguna vísa okkur veginn 

Við vitum auðvitað ekki hvernig framtíðin verður, en hún er miklu nær en við höldum. Vitur maður sagði eitt sinn að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri einfaldlega að skapa hana. Rétt eins og þau sem á undan komu tóku ákvarðanir, framkvæmdu og byggðu með samtakamætti upp öflugt samfélag þarf að gera slíkt hið sama nú. Það sannast reglulega hið fornkveðna að hver er sinnar gæfu smiður og vöxtur íslensks hugverkaiðnaðar er gott dæmi um hvernig hægt er að sækja tækifærin og ná markverðum árangri. Látum því söguna vísa okkur veginn. Sækjum fram og sköpum ákjósanleg skilyrði svo að hér verði enn betra að reka fyrirtæki og athafnasamt fólk geti nýtt hæfileika sína til þess að byggja upp og bæta lífskjör landsmanna. 

Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 31. október 2024.