Hugverkaiðnaður er fjórða stoðin

9. des. 2020

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar um hugverkaiðnað sem fjórðu stoðina í ViðskiptaMogganum.

Fjölbreytni í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins eykur stöðugleika og hagvöxt. Það eru því afskaplega jákvæð tíðindi þegar ný stoð hefur myndast, sérstaklega í hagkerfi á borð við það íslenska þar sem einhæfni í gjaldeyrisöflun hefur lengi verið vandamál.

Hugverkaiðnaður er orðin fjórða stoð gjaldeyrisöflunar íslenska þjóðarbúsins til viðbótar við sjávarútveg, ál- og kísiljárnframleiðslu og ferðaþjónustu. Áætlað er að hugverkaiðnaður skapi 140 ma.kr. gjaldeyristekjur í ár sem eru 15% gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Gjaldeyrisöflun greinarinnar hefur aldrei verið meiri og stefnir allt í að verða þriðja stærsta stoð gjaldeyrisöflunar á árinu, á eftir sjávarútvegi (28%) og ál- og kísiljárnframleiðslu (23%).

Tækifæri í hugverkaiðnaði

Greinin er byggð á hugviti og nýsköpun. Um er að ræða fyrirtæki í upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði, lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaði og í öðrum hátækniiðnaði. Mikill fengur er af greininni því framleiðni er há og störfin vel launuð og eftirsóknarverð.

Vöxtur hugverkaiðnaðar hefur verið talsverður síðustu ár. Tekjur greinarinnar voru 78 ma.kr. árið 2013 eða um 7,4% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Vöxturinn sýnir að í hugverkaiðnaði felast raunveruleg tækifæri fyrir Ísland. Gefur það vonir um að þessi fjórða stoð gjaldeyrisöflunar muni vaxa enn frekar á næstu árum.

Fjölmörg og fjölbreytt fyrirtæki hafa sprottið upp í þessari grein um land allt á undanförnum árum. Meðal þeirra eru rótgróin fyrirtæki og sprotafyrirtæki af ýmsum toga og öllum stærðum. Þessi fjölbreytileiki er kostur því hann er í sjálfu sér grundvöllur stöðugleika þeirrar stoðar sem greinin er orðin fyrir verðmætasköpun hagkerfisins.

Fjölbreytt flóra verðmætasköpunar

Innan hugverkaiðnaðar er upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaður (UT). Mjög snarpur vöxtur hefur verið í þeirri starfsemi á undanförnum árum. Það sést vel hvort sem litið er til gjaldeyristekna, veltu fyrirtækja í greininni eða fjölda starfandi. Mikill meirihluti tekna greinarinnar eru gjaldeyristekjur. Á síðasta ári námu gjaldeyristekjur greinarinnar 50 mö.kr. samanborið við 24 mö.kr. árið 2013. Innan UT er, svo dæmi sé tekið, tölvuleikja- og gagnaversiðnaður, þ.e. fyrirtæki á borð við CCP, Advania Data Centers, Etix Everywhere Borealis, Sýn, Opin kerfi, Origo, Sensa, Símann og Verne Global.

Lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaður er einnig innan hugverkaiðnaðar. Skilaði sá hluti greinarinnar ríflega 72 mö.kr. í gjaldeyristekjur á síðastliðnu ári samanborið við 38 ma.kr. árið 2013. Mörg öflug fyrirtæki hafa haslað sér völl hér á landi á þessu sviði. Má þar nefna fyrirtæki á borð við Össur, Coripharma, Alvotech, Florealis, Kerecis og Zymetech. Mörg þessara fyrirtækja hafa verið í örum vexti síðustu ár og eru stór áform um frekari uppbyggingu hér á landi. Má í því sambandi nefna að samkvæmt áætlun Alvotech verður fyrirtækið með 5% af VLF og 20% af útflutningstekjum þjóðarbúsins árið 2027.

Ýmis annar hátækniiðnaður telst til hugverkaiðnaðar. Um er að ræða fyrirtæki sem mörg hver byggja starfsemi á umfangsmikilli rannsókna- og þróunarstarfsemi. Meðal þeirra eru fyrirtæki á borð við Marel og Völku. Hátækni-þjónustuiðnaður af ýmsum toga er líka hluti af þessari fjölbreytilegu flóru sem hefur verið gróskumikil hér á landi á síðustu árum. Um er að ræða greinar á borð við kvikmyndaiðnað ásamt þjónustu arkitekta og verkfræðinga auk vísinda- og tækniþjónustu ýmiskonar.

Með réttum aðgerðum má tryggja frekari vöxt

Samkeppnishæfni hugverkaiðnaðar hér á landi hefur batnað undanfarið með breytingum á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar. Sjáum við nú árangur þess. Með réttri forgangsröðun og ákvörðunum getur þessi stoð orðið sú stærsta og mikilvægasta í íslensku efnahagslífi. Stjórnvöld og atvinnulíf þurfa að taka höndum saman og sækja ný tækifæri á þessu sviði. Með réttum aðgerðum má tryggja frekari vöxt greinarinnar og þar með auka verðmætasköpun hagkerfisins til framtíðar.   

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

ViðskiptaMoggi, 9. desember 2020.