Húsnæðismálin eru munaðarlaus

13. ágú. 2018

Húsnæðismarkaðurinn er einn stærsti markaðurinn og einn sá mikilvægasti. 

Húsnæðismarkaðurinn er einn stærsti markaðurinn og einn sá mikilvægasti. Allir þurfa þak yfir höfuðið og því er húsnæði grunnþörf í samfélaginu. Of fáar íbúðir hafa verið byggðar á síðasta áratug þannig að ófremdarástand ríkir. Þetta snýr bæði að efnahagslegum stöðugleika og að félagslegum stöðugleika. Önnur ríki glíma einnig við sama vanda og hafa stjórnvöld þar brugðist við með umbótum. Hér hefur of lítið verið gert og stafar það af því að húsnæðismálin eru munaðarlaus málaflokkur hjá ríkisstjórninni. Því þarf að breyta með því að flytja málaflokka milli ráðuneyta og setja þannig á laggirnar öflugt innviðaráðuneyti sem færi með húsnæðis- og byggingamál auk annarra málaflokka. Í kjölfarið þarf að gera regluverkið skilvirkara. Þá þurfa sveitarfélög að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að einfalda stjórnsýslu og flýta afgreiðslu mála. Þannig verður íbúðauppbyggingu flýtt og hún gerð á hagkvæman hátt, í takt við þarfir fólks. 

Félagslegur stöðugleiki 

Allir þurfa þak yfir höfuðið en staðan hefur versnað talsvert undanfarin ár þar sem of lítið hefur verið byggt. Ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum en áður. Þannig bjuggu 42% fólks á aldrinum 20-29 ára í foreldrahúsum árið 2017 en 35% árið 2010. Húsnæðisverð og leiguverð hefur hækkað umtalsvert undanfarin ár. Leiguverð hefur hækkað umfram laun hér á landi. Samkvæmt greiningu Íbúðalánasjóðs er hærra leiguverð hjá láglaunafólki hér á landi en á Norðurlöndunum. Ráðast þarf í umbætur áður en í óefni er komið. 

Hljóð og mynd fara ekki saman 

Á hverjum tíma þarf skipulag að gera ráð fyrir nægilegum fjölda íbúða og lóðir að vera til reiðu. Þetta er ekki raunin. Skipulag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu gerir ráð fyrir of fáum íbúðum miðað við spár um fjölgun íbúa. Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 30-38 þúsund til ársins 2025 á sama tíma og gert er ráð fyrir íbúðum fyrir 16 þúsund manns. Núverandi skipulag gerir ráð fyrir rúmlega 7.200 nýjum íbúðum. Sveitarfélögin hafa því verk að vinna við að breyta skipulagi svo byggja megi íbúðir fyrir alla. 

Kostnaður og tími 

Það er til mikils að vinna ef hægt er að hraða uppbyggingu íbúða og draga úr kostnaði. Langan tíma getur tekið að breyta skipulagi og afla tilskilinna leyfa þar til hægt er að hefja framkvæmdir. Borgaryfirvöld breyttu skipulagi í Úlfarsárdal svo byggja mætti fleiri íbúðir. Frá því hugmyndin varð til og þar til lóðir voru auglýstar til sölu liðu þrjú ár meðan skipulagi var breytt. Að þessu loknu og þegar íbúðir hafa verið hannaðar er hægt að ráðast í framkvæmdir. Um tvö ár líða frá því fyrsta skóflustunga er tekin og þar til hægt er að flytja inn í íbúð í fjölbýlishúsi. Íbúðauppbygging á sér því talsverðan aðdraganda. 

Óvirkt úrræði? 

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur forræði á ágreiningsmálum innan byggingariðnaðarins. Um áramót höfðu 22% þeirra mála sem biðu afgreiðslu beðið í meira en 18 mánuði en nefndin skal samkvæmt lögum kveða upp úrskurði eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn berast frá stjórnvaldi en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gagnrýnt stjórnvöld vegna þessa og krafist úrbóta. Umboðsmaður Alþingis hefur einnig óskað eftir skýringum. Það hefur ekki dugað til. 

Hátt flækjustig 

Margt bendir til þess að flækjustig við byggingar sé hærra hér á landi en í nágrannalöndum. Í nýlegri skýrslu Alþjóðabankans um starfsumhverfi fyrirtækja í ríkjum heims er Ísland í 64. sæti hvað varðar ferli við að reisa mannvirki. Hér á landi þarf t.d. 17 leyfi en 7 leyfi í Danmörku, 8 í Svíþjóð og 11 í Noregi, samkvæmt skýrslunni. Þessu þarf að breyta. Þá gerir regluverkið ráð fyrir sömu kröfum varðandi einföld mannvirki og flókin. Það er sama ferli við að byggja einbýlishús og há- tæknisjúkrahús svo dæmi sé tekið. Í öðrum löndum hefur verið tekið tillit til þessa. 

Takið af skarið 

Húsnæðismál eru í velferðarráðuneytinu, mannvirkja- og skipulagsmál í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og málefni sveitarstjórna í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Þar sem ábyrgð er dreift á mörg ráðuneyti er enginn einn ráðherra sem getur höggvið á hnútinn. Flækjustigið er allt of hátt. Húsnæðismálin, þessi mikilvægi málaflokkur, eru þannig munaðarlaus. Þessu má breyta á einfaldan og skjótan hátt. Færa á húsnæðismál og mannvirkjamál í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þannig að úr verði öflugt innviðaráðuneyti að danskri fyrirmynd. Það rímar einnig vel við áherslur ríkisstjórnarinnar um sókn í uppbyggingu innviða. Í framhaldinu þarf að einfalda regluverkið svo byggja megi vandaðar íbúðir hratt og á hagkvæman hátt. Sveitarfélög þurfa að vinna í skipulagsmálum hjá sér til að tryggja næga uppbyggingu íbúða. Einnig þurfa þau að gera málsmeðferð skilvirkari í þágu hraðari og þá um leið hagkvæmari uppbyggingar. Þannig verður húsnæðisvandinn leystur og ráðast þarf í ofangreindar umbætur nú þegar áður en vandinn eykst enn frekar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 28. júlí 2018.