Hver verður efnahagsleg arfleifð núverandi ríkisstjórnar?

15. jan. 2020

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum í lok nóvember 2017 var hagvöxtur hér á landi 4,4% og atvinnuleysi rétt ríflega 2%.

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum í lok nóvember 2017 var hagvöxtur hér á landi 4,4% og atvinnuleysi rétt ríflega 2%. Nú þegar styttist í næstu Alþingiskosningar og kjörtímabilið ríflega hálfnað er hagvöxturinn enginn og atvinnuleysið komið yfir 4%. Spár um hagvöxt fyrir þetta ár hafa verið á hraðri niðurleið undanfarið. Í nýjustu spá Arion banka er því spáð að hagvöxturinn verði ekki nema 0,6% og að atvinnuleysið haldi áfram að aukast. Í ljósi þessa er vert að spyrja hver verður efnahagsleg arfleifð núverandi ríkisstjórnar. Verður þetta það efnahagslega veganesti sem ríkisstjórnarflokkarnir munu fara með inn í komandi Alþingiskosningar?

Ekki of seint

Hagspár eru ávallt ákveðin sviðsmynd sem byggir á forsendum um þá þætti sem ákveða hagvöxt framtíðarinnar. Þegar spárnar eru svartar er það m.a. á valdi stjórnvalda að grípa til aðgerða og breyta þannig framtíð landsmanna til betri vegar. Spár um hægan hagvöxt á árinu og vaxandi atvinnuleysi er þannig ekki orðinn hlutur heldur eitthvað sem stjórnvöld geta mótað.

Í hagspám fyrir Ísland sem birtar hafa verið undanfarið er ráð fyrir því gert að hagvöxtur þessa árs verði fyrst og fremst drifinn áfram af vexti einkaneyslu. Stöðnun eða hægum vexti er spáð í gjaldeyristekjum og fjárfestingum atvinnuveganna. Þetta er sérstakt áhyggjuefni en til lengdar er ljóst að við byggjum hagvöxt ekki á vexti einkaneyslu einni saman.

Stjórnvöld efli samkeppnishæfni

En á hverju byggjum við þá stöðu íslenskra fyrirtækja sem á að skila okkur vexti í gjaldeyristekjum, fjárfestingum og aukinni hagsæld heimilanna á næstu árum? Hvaðan á þessi hagvöxtur að koma í raun? Ef skyggnst er bak við tölurnar þá markaðast framtíðin, sem hér er verið að spá fyrir um, af þeim ákvörðunum sem við tökum í dag. Hvernig við tökumst á við áskoranir eða viðfangsefni sem skera úr um hvernig samkeppnisstaða okkar fyrirtækja mun þróast ræður miklu um hvort þau geti skapað aukin verðmæti og störf til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag í framtíðinni.

Við hjá Samtökum iðnaðarins höfum lagt áherslu á þá þætti sem líklegastir eru til að efla samkeppnishæfni Íslands um þessar mundir og undirbyggja þar með bætt lífskjör landsmanna litið til framtíðar:

  • Menntakerfið leiði saman færni mannauðsins og þarfir atvinnulífsins á skilvirkan og hagkvæman hátt.
  • Innviðir séu í góðu ástandi og uppfylli þarfir atvinnulífs og almennings.
  • Umgjörð og hvatar til nýsköpunar séu með því besta sem þekkist í heiminum.
  • Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt.
  • Íslenskur iðnaður sé í fararbroddi í sjálfbærni og umhverfismálum og styðji við markmið þjóðarinnar um kolefnishlutleysi.
  • Íslenskar vörur og fyrirtæki hafi jákvæða ímynd í samanburði við erlenda valkosti.

Niðurstaðan hvílir á hagstjórninni

Verkefni hagstjórnar hefur á tiltölulega skömmum tíma snúist úr því að draga úr þenslu yfir í að milda samdrátt og undirbyggja fjölgun starfa og aukna verðmætasköpun fyrirtækja. Undanfarið hafa stjórnvöld nýtt ríkisfjármálin til að vinna á móti niðursveiflunni og peningastefnunefnd Seðlabankans lækkað stýrivexti bankans í sama tilgangi. Aðilar almenna vinnumarkaðarins hafa einnig lent kjarasamningum á breiðum grundvelli til langs tíma og í anda stöðugleika. Hagstjórnaraðilar hafa þannig gengið í takt í verkefni sínu.

En betur má ef duga skal. Hagvaxtahorfur eru ekki góðar. Það er ekki nóg að ganga í takt í hagstjórninni. Takturinn verður að vera af áræðni og nægjanlega hraður til að mýkja efnahagssamdráttinn og skapa grundvöll fyrir nýju hagvaxtartímabili. Huga þarf að öllum þeim þáttum sem efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og hjálpa fyrirtækjum og heimilum að snúa efnahagssamdrættinum í nýtt vaxtarskeið. Það styttist í Alþingiskosningar og því mikilvægt að nýta tímann vel.   

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Fréttablaðið/Markaðurinn / Frettabladid.is, 15. janúar 2020.