Innviðaráðuneytið

20. apr. 2018

Allir þurfa þak yfir höfuðið og fjárfesting í húsnæði er gjarnan stærsta og mikilvægasta fjárfesting hverrar fjölskyldu. 

Allir þurfa þak yfir höfuðið og fjárfesting í húsnæði er gjarnan stærsta og mikilvægasta fjárfesting hverrar fjölskyldu. Myndast hefur gjá milli framboðs og eftirspurnar sem hefur m.a. leitt til þess að Íslendingar eyða nú mun hærra hlutfalli ráðstöfunartekna en áður í húsnæði og verulega er vegið að húsnæðisöryggi ungs fólks. Þetta eru áskoranirnar sem Ísland stendur frammi fyrir og þarf að bæta úr. Ríkið þarf að sýna forræði í þessum málum. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu hlýtur að vera stofnun innviðaráðuneytis, ráðuneytis húsnæðis-, samgöngu- og sveitarstjórnarmála. 

Óstöðugt og óskilvirkt starfsumhverfi 

Sveiflur í mannvirkjagerð eru miklar hvort heldur sem litið er til veltu í greininni eða fjölda starfa. Mannvirkjagerð sveiflast meira en gengur og gerist í hagkerfinu hér á landi. Í alþjóðlegu samhengi eru sveiflurnar einnig meiri hér en annars staðar. Þessi óstöðugleiki er óhagkvæmur fyrir samfélagið í heild sinni. Yfirsýn skortir í þessum mikilvæga málaflokki. Húsnæðismál og mannvirkjagerð eru nú á forræði fjögurra ráðuneyta þar sem umgjörð markaðarins er sett. Ráðuneytin fjögur gegna því mikilvæga hlutverki að tryggja húsnæðisöryggi enda segir réttilega á vef stjórnarráðsins að öruggt húsnæði sé mikilvæg forsenda fyrir velferð hverrar fjölskyldu. Íbúðalánasjóður annast stjórn og framkvæmd húsnæðismála fyrir hönd ráðherra og stofnanir á borð við Mannvirkjastofnun og Skipulagsstofnun koma einnig að málaflokknum. Sveitarstjórnir landsins bera ábyrgð á að leysa húsnæðisþörf fólks í viðkomandi sveitarfélagi, fara með skipulagsvald, leyfisveitingar og síðast en ekki síst gera húsnæðisáætlanir. Núverandi fyrirkomulag er óskilvirkt, lengir boðleiðir og tefur ákvarðanatöku. Það leiðir til aukakostnaðar við byggingu húsnæðis. 

Rétt húsnæði á réttum stað 

Sveitarfélögum er þá ekki skylt að gera húsnæðisáætlanir og engin samræmd sýn eða staðlar eru um gerð þeirra. Sýnin er fögur en flækjustigið mikið og málaflokkurinn einkennist af ómarkvissri áætlanagerð. Án heildarsýnar og samræmdra vinnubragða er ómögulegt að gera áreiðanlegar áætlanir um þörfina. Sveitarfélög geta hægt á húsnæðisuppbyggingu og þannig velt byrðinni yfir á önnur sveitarfélög. Að sama skapi geta sveitarfélög ákveðið að ráðast í stórfellda uppbyggingu húsnæðis, langt umfram þörf. Þetta fyrirkomulag eykur sveiflur og þar með samfélagslegan kostnað. 

Tekið á málum 

Í ýmsum ríkjum heims er skortur á íbúðarhúsnæði. Stjórnvöld í Bretlandi og í Kanada hafa tekið á málum á markvissan hátt þar sem ríkisvaldið hefur tekið forræði í málinu. Í hvítbók breskra stjórnvalda, sem kom út í byrjun árs 2017, voru áform stjórnvalda kynnt. Sveitarfélögum er gert skylt að gera staðlaðar skipulagsáætlanir og velt er fram ýmsum leiðum til að tryggja að framleiðni í byggingariðnaði aukist, að heimili séu byggð hratt og hvatt er til nýsköpunar. Haft er víðtækt samráð við sveitarfélögin um leiðir til lausna. Í Danmörku eru húsnæðis- og byggingamál innan sama ráðuneytis til þess að auka skilvirkni. Hér á landi þarf ríkið að taka forræði í málinu og stofna innviðaráðuneyti með því að koma húsnæðis- og skipulagsmálum inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Með aukinni samvinnu, einfaldara og skilvirkara kerfi og auknu gagnsæi á húsnæðismarkaðnum eykst stöðugleiki og skilvirkni sem skilar sér í hagkvæmara húsnæði, öllum til heilla.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið  19. apríl 2018.