Ísland í fremstu röð

8. jan. 2018

Það er gott að búa og starfa á Íslandi og stöndum við framarlega á margan hátt í samanburði við önnur lönd. 

Það er gott að búa og starfa á Íslandi og stöndum við framarlega á margan hátt í samanburði við önnur lönd. Því má þó ekki gleyma að önnur lönd vinna að umbótum sem bæta lífsgæði fólks og fyrirtækja í þeim löndum þannig að við þurfum stöðugt að bæta okkur til að dragast ekki aftur úr. Ísland á í harðri samkeppni við önnur lönd um atvinnuuppbyggingu og hæft starfsfólk. Við verðum að sjá til þess að á Íslandi séu ávallt hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir fyrirtæki til vaxtar. Þannig byggjum við upp fjölbreytt atvinnulíf með fjölbreyttum störfum sem aftur leiðir til þess að hér getum við skapað það velferðarríki sem við viljum búa í. 

Bjartsýn 

Þegar við göngum til móts við nýtt ár 2018 er ekki hægt annað en að fyllast bjartsýni fyrir Íslands hönd. Við höfum nú lifað eitt lengsta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar og hagur landsmanna heilt yfir góður. Kaupmáttur sjaldan verið meiri og góður gangur í efnahagslífinu. Við megum þó ekki sofna á verðinum og halda að hér getum við tryggt bestu skilyrði án þess að hlúa að styrkleikum okkar. Samtök iðnaðarins leggja í þessu skyni áherslu á bætta samkeppnishæfni landsins og hafa talað fyrir umbótum í menntamálum og nýsköpun, uppbyggingu innviða landsins og bætt starfsumhverfi fyrirtækja. Atvinnulífið þarf á vel menntuðu og hæfu starfsfólki að halda. Gríðarleg eftirspurn er eftir fólki með iðn-, verk- og tæknimenntun. Ef okkur tekst ekki að laða fleira fólk í iðngreinar mun samkeppnishæfni okkar skerðast verulega og hætta á að við drögumst aftur úr, verðmætasköpun verði minni og lífsgæði ekki þau sömu og ella gæti orðið. Er það von mín að nú sé að hefjast sókn með aukinni umræðu um þessi mál, ekki síst í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Sonur minn kaus að fara úr hefðbundnu bóknámi í menntaskóla yfir í iðnnám og hefur aldrei séð eftir því. Hann hefur getað valið úr margvíslegum spennandi og vel launuðum störfum frá því hann hóf nám við Tækniskóla Íslands. Það sama á við um félaga hans úr skólanum. Allir sinna þeir spennandi og áhugaverðum störfum. Okkar eigin fordómar eru mesta hindrunin gagnvart iðnnámi og því þarf nauðsynlega að breyta. Við höfum á síðustu áratugum leyft okkur að líta þannig á iðnnám að það sé með einhverjum hætti óæðra öðru námi. Því hafna ég algerlega. 

Nýtum breytingar til góðs 

Mannkynið stendur frammi fyrir einni mestri tæknibyltingu frá örófi þar sem fjórða iðnbyltingin er staðreynd. Aukin sjálfvirkni og stafræn tækni hefur áhrif á daglegt líf okkar allra og breytir öllum framleiðsluaðferðum. Með þessum öru breytingum mun tæknin leysa margt af hólmi og störf munu hverfa, á sama tíma og ný skapast. Aðalatriðið er að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem felast í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað til að auka skilvirkni og lækka kostnað. Þau fyrirtæki sem ekki mun takast að tileinka sér nýjar framleiðsluaðferðir munu eiga undir högg að sækja. Það ber að fagna mörgum áherslum nýrrar ríkisstjórnar, ekki hvað síst loforði þeirra um afnám þaks á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja. Staðreynd mála er sú að nýsköpun á sér stað innan flestra fyrirtækja, ekki síst rótgróinna iðnfyrirtækja. Þessi aðgerð mun losa krafta úr læðingi um leið og hún kemur til framkvæmda enda hafa slíkir hvatar þegar sannað gildi sitt bæði hér á landi sem og erlendis. Eins er vert að minna á nauðsyn þess að lækka tryggingargjald fyrirtækja eins og stjórnvöld raunar lofuðu að gera fyrir um tveimur árum síðan. Þar með geta fyrirtæki ráðið fleiri starfsmenn eða greitt hærri laun og verðmætasköpunin verður áþreifanleg. Samkeppnishæfni Íslands er háð traustum og öruggum innviðum, ekki síst samgöngum og framboði raforku um land allt. Vegakerfi landsins er víða í hörmulegu ásigkomulagi. Samtök iðnaðarins kynntu nýlega skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi og var það fyrsta heildstæða úttektin sem birt hefur verið. Þar kom fram hrópandi þörf fyrir innviðauppbyggingu á ýmsum sviðum, ekki hvað síst í vegamálum, dreifikerfi raforku, fráveitum og fasteignum hins opinbera. Aðgerða er þörf og nú er að skapast svigrúm til framkvæmda eftir því sem dregur úr hagvexti. 

Heilbrigt atvinnulíf forsenda góðra lífskjara 

Gott og heilbrigt atvinnulíf er forsenda góðra lífskjara. Samstarf atvinnurekenda og launþega þarf að vera gott. Það eru blikur á lofti varðandi endurskoðun kjarasamninga. Það er einlæg von mín að okkur takist að viðhalda þeim góða kaupmætti sem tekist hefur að skapa hér á undanförnum misserum. Það er eitt af stóru verkefnum nýs árs og raunar forsenda þess að leggja grunn að frekari stöðugleika. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki gengið á undan með góðu fordæmi og endurskoðun á hlutverki kjararáðs blasir við á árinu. Hjá Samtökum iðnaðarins tökum við fagnandi á móti nýju ári með öllum þeim áskorunum sem árið mun færa okkur. Samtökin hafa sjaldan verið öflugri og metnaður stjórnar og starfsmanna mikill fyrir öflugri iðnaði, umbótum sem bæta hag fólks og fyrirtækja og tryggja það að Ísland verði í fremstu röð.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins

Morgunblaðið, 6. janúar 2018.