Íslenskt, gjörið svo vel

11. apr. 2020

Nú er unnið að því dag og nótt að tryggja heilsu almennings á tímum kórónuveirunnar. 

Nú er unnið að því dag og nótt að tryggja heilsu almennings á tímum kórónuveirunnar. Landsmenn allir verða fyrir áhrifum með einum eða öðrum hætti enda hefur daglegt líf farið úr skorðum og fyrirtæki í öllum atvinnugreinum finna fyrir samdrætti. 

Samstaðan í samfélaginu er áþreifanleg og hún mun skila árangri; jafnt í baráttunni við vágestinn, veiruna sjálfa, sem breiðir nú úr sér yfir alla heimsbyggðina en ekki síður til að ná kröftugri viðspyrnu þegar tækifæri gefst til. Stjórnvöld setja í forgang að tryggja lífsafkomu fólks en það er líka margt sem við getum saman gert til að koma samfélaginu sterku í gegnum þessar hremmingar. Mikilvægt framlag er að landsmenn allir, fólkið í landinu og fyrirtækin, skipti sem mest við innlend fyrirtæki, og þar er engin atvinnugrein undanskilin. Með því að velja íslenskt og skipta við innlend fyrirtæki verður til keðjuverkun sem nær yfir allt samfélagið. Þannig verjum við störf og stuðlum að uppbyggingu og tryggjum að heimilin, efnahagslífið og samfélagið allt haldist gangandi. 

Verðmæt framleiðsla og hugvit 

Við búum nú við gjörbreyttar aðstæður frá því fyrir nokkrum vikum og ríki heims eru m.a. háðari eigin framleiðslu. Við erum lánsöm hér á landi og njótum góðs af fjölbreyttum iðnaði. Öflug og fjölbreytt matvælaframleiðsla tryggir landsmönnum fæðuöryggi og góðar vörur. Með því að velja íslensk matvæli verjum við störf um land allt, í sveitum landsins og sjávarplássum sem og á höfuðborgarsvæðinu, störf í fiskvinnslu, við grænmetisræktun, í bakaríum og allt þar á milli. Hönnun, líf- og heilbrigðistækni, snyrtifræði, húsgagnasmíði og leikjaframleiðsla – þetta er einungis brot af þeim lifandi og fjölbreytta íslenska iðnaði sem við getum stutt við með því að velja íslenskt. 

Þá má ekki gleyma að með hugviti landsmanna hafa orðið til grænar lausnir sem nýst geta heiminum öllum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis sem og í öðrum ríkjum heims. 

Ísland, gjörið svo vel 

Alla okkar mestu fjársjóði eigum við hér heima, í fólkinu og náttúrunni. Erlendir ferðamenn hafa notið íslenskrar náttúru og menningar undanfarin ár en í sumar ætlum við upp til hópa að gerast ferðamenn í okkar eigin landi. Á Íslandi er ekki eingöngu hægt að upplifa stórbrotna náttúru og bjartar sumarnætur, heldur líka spennandi afþreyingu um allt land, gististaði og veitingastaði sem nota íslenskt hráefni. Með því að kynnast landinu betur og heimsækja jafnvel staði sem við höfum ekki sótt heim áður sköpum við verðmæti og störf í fjölmörgum greinum, ekki einungis í ferðaþjónustu. 

Með því að skipta við íslenska verslun, hvort sem hún er í hverfinu eða heima í stofu í gegnum vefinn, sköpum við störf fyrir nágranna okkar, vini og fjölskyldumeðlimi. Fyrirtækin hafa aðlagast aðstæðum hratt og gera vörur og þjónustu aðgengilegri til að mynda með því að bjóða upp á heimsendingu. Þannig snúast hjólin áfram og verðmæti verða til. 

Með vali höfum við áhrif 

Nýtum tímann vel til að byggja okkur upp þannig að viðspyrnan verði kröftug þegar þar að kemur. Stjórnvöld og atvinnulíf hafa tekið höndum saman um að hvetja landsmenn, fólk og fyrirtæki, til að skipta við innlend fyrirtæki og verja þannig störf og skapa verðmæti á erfiðum tímum. Þannig getum við öll lagt okkar af mörkum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 11. apríl 2020.