Íslenskt hugvit í þágu framfara og friðar

30. mar. 2025

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar um tvíþættar tæknilausnir í Morgunblaðinu.

Við lif­um á tím­um örra breyt­inga. Örygg­is­mál, viðbúnaður og varn­artengd verk­efni hafa færst nær okk­ar dag­lega lífi nú þegar heim­ur­inn er að taka stakka­skipt­um. Mörk­in milli borg­ara­legr­ar og hernaðartengdr­ar notk­un­ar tækni­lausna hafa orðið óljós­ari. Þetta kall­ar á nýja sýn en um leið skap­ast ný tæki­færi. Ísland get­ur gegnt mik­il­vægu hlut­verki ef við nýt­um styrk­leika okk­ar og vinn­um sam­an að því að skapa vett­vang fyr­ir tvíþætt­ar tækni­lausn­ir sem skipta máli – ekki aðeins í viðskipt­um, held­ur einnig á sviði ör­ygg­is­mála, alþjóðlegra sam­skipta og sam­fé­lags­legs stöðug­leika. Á fjöl­mennri ráðstefnu sem Sam­tök iðnaðar­ins héldu í sam­starfi við Íslands­stofu og ut­an­rík­is­ráðuneytið var rætt um tæki­fær­in sem í þessu fel­ast og má segja að þarna hafi verið fyrsta ráðstefn­an um varn­ariðnað á Íslandi.

Stjórn­völd gegna lyk­il­hlut­verki

Á Íslandi eru fjöl­mörg fyr­ir­tæki sem hafa þróað lausn­ir með tvíþætt nota­gildi á mörg­um sviðum og lausn­ir þeirra eiga sann­ar­lega er­indi á alþjóðavísu. Þær nýt­ast í borg­ara­legu sam­hengi en geta einnig stutt við viðbúnað, neyðarviðbrögð, ör­ygg­is­mál og jafn­vel varn­artengd verk­efni. Það er ljóst að eft­ir­spurn­in eft­ir slíkri tækni mun aukast hratt á næstu árum. Markaður­inn er að stækka og Ísland hef­ur tæki­færi til að taka virk­an þátt. En tæki­fær­in sækja sig ekki sjálf. Til að fyr­ir­tæk­in okk­ar geti keppt á þess­um vett­vangi þarf að opna dyr.

Stjórn­völd gegna þar lyk­il­hlut­verki. Í alþjóðleg­um útboðum og sam­starfs­verk­efn­um eru oft sett­ar strang­ar tækni­leg­ar og stjórn­sýslu­leg­ar kröf­ur. Ef við ætl­um að styðja ís­lensk fyr­ir­tæki til að upp­fylla þess­ar kröf­ur – og jafn­vel hafa áhrif á mót­un þeirra – þá verðum við að vinna mark­visst sam­an. Sam­starf at­vinnu­lífs og stjórn­valda skipt­ir þar öllu máli.

Trygg­ir þjóðarör­yggi og viðnámsþrótt

Tækni með tvíþætt nota­gildi er ná­tengd hug­verkaiðnaði sem er fjórða stoðin í út­flutn­ings­hag­kerfi Íslands. Hún krefst hug­vits, rann­sókna, fjár­fest­inga og sam­starfs. Hún skap­ar störf, efl­ir verðmæta­sköp­un og styrk­ir sam­keppn­is­hæfni – en hún er einnig lyk­ilþátt­ur í ör­ygg­is­mál­um, viðnámsþoli sam­fé­laga og alþjóðlegu sam­starfi.

Það er því afar mik­il­vægt að við horf­um ekki á þessa tækni sem ein­angrað svið, held­ur sem hluta af víðtækri efna­hags- og ör­ygg­is­stefnu. Því öfl­ug­ur iðnaður og tækni­lega þróað at­vinnu­líf er hluti af því að tryggja þjóðarör­yggi og viðnámsþrótt – það býr yfir sveigj­an­leika, getu og úrræðum sem skipta sköp­um þegar á reyn­ir.

Hin hliðin er sú að stjórn­völd þurfa einnig að horfa sér­stak­lega til þess­ar­ar tækni í breyttri heims­mynd, hvetja til þró­un­ar og taka virk­an þátt í að sækja tæki­fær­in með fyr­ir­tækj­un­um.

Með sam­starfi opn­ast marg­ar dyr

Í framtíðinni mun aukast krafa um fram­lag stjórn­valda til ör­ygg­is- og varn­ar­mála á hinu stóra, alþjóðlega sviði. Þar stönd­um við frammi fyr­ir tæki­færi: við get­um boðið fram ís­lensk­ar tækni­lausn­ir – hug­vit sem get­ur hjálpað öðrum að tak­ast á við krefj­andi aðstæður.

Íslenskt hug­vit get­ur þannig hjálpað öðrum þjóðum að ná mark­miðum sín­um í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Við get­um orðið virk­ur þátt­tak­andi á þessu sviði með því að út­vega tækni­lega getu, sér­hæfðar lausn­ir og ábyrgt sam­starf.

Það kall­ar á mark­vissa nálg­un: stefnu­mörk­un, hvata, alþjóðlega hags­muna­gæslu og stuðning við þátt­töku í alþjóðleg­um verk­efn­um. Ef all­ir leggj­ast á eitt, opn­ast marg­ar dyr.

Allt þetta – tækniþróun, markaðsaðgang­ur, hags­muna­gæsla, siðferði og ábyrg nýt­ing – á einn sam­eig­in­leg­an grunn sem er sam­starf. Til að þetta gangi upp þarf öfl­ugt og skipu­lagt sam­starf iðnaðar­ins, stjórn­valda og alþjóðlegra aðila. Áskor­an­irn­ar eru sann­ar­lega marg­ar en með góðu sam­starfi lyk­ilaðila verður mögu­legt að sækja tæki­fær­in.

Þegar við vinn­um sam­an get­um við tryggt að ís­lensk þekk­ing og lausn­ir fái að blómstra og nýt­ist ekki aðeins heima, held­ur víða um heim. Við get­um orðið hluti af lausn­inni – í þágu ör­ygg­is, fram­fara og friðar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Morgunblaðið, 29. mars 2025.