Íslenskur iðnaður verðmætur en ekki sjálfgefinn

6. ágú. 2024

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, skrifar um iðnað í ViðskiptaMoggann. 

Frá fyrstu dögum iðnvæðingar til nútíma hátækni hefur iðnaður mótað þann heim sem við búum í. Hann hefur gjörbreytt samfélaginu, verið aflvaki hagvaxtar, skapað störf og lyft þjóðinni upp á nýtt stig velmegunar. Iðnaður hefur staðið fyrir uppbyggingu innviða, þjónustað landsmenn, framleitt vörur og alið af sér tækniframfarir sem hafa gjörbreytt daglegu lífi landsmanna til batnaðar. 

Hér á landi starfa nú 50 þúsund manns í iðnaði sem er um 22% af heildarfjölda starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Störfin eru fjölbreytt í stórum og litlum iðnfyrirtækjum um allt land. Fyrirtækin í útflutningi og á innlendum markaði eru í hugverkaiðnaði, framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Umfang og fjölbreytni greinarinnar á innlendum vinnumarkaði er mikill styrkur fyrir landsmenn þar sem greinin býður upp á fjölda ólíkra tækifæra. 

Samhliða kröftugum vexti iðnaðar á síðustu árum hefur starfandi í greininni fjölgað umtalsvert. Í heild telur fjölgunin 14.000 störf yfir síðustu tíu ár. Það er um 28% af heildarfjölgun starfa í hagkerfinu öllu á tímabilinu. Laun í greininni eru há og yfir meðallaunum í hagkerfinu. Endurspeglar það háa framleiðni vinnuafls í greinum iðnaðar og stór hluti tekna íslenskra heimila kemur því frá störfum í iðnaði. 

Hlutur iðnaðar í fjölgun starfa síðustu ár gefur vísbendingu um þátt greinarinnar í aukinni verðmætasköpun á þessu tímabili. Verðmætasköpun iðnaðar er umtalsverð en hún nam 884 mö.kr. á síðasta ári sem er um fimmtungur af heildarverðmætasköpun hagkerfisins. Ljóst er að virðiskeðja iðnaðarins hefur mikil og jákvæð áhrif á starfsemi fyrirtækja fyrir utan greinina. Vægi greinarinnar í verðmætasköpun er því meira en ofangreindar tölur sýna ef óbein áhrif greinarinnar eru tekin með. 

Stór þáttur í verðmætasköpun greinarinnar á sér stað með útflutningi. Í nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins um útflutning iðnaðar kemur fram að útflutningstekjur greinarinnar námu 698 ma.kr. í fyrra sem er 38% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins á því ári. Til samanburðar námu útflutningstekjur ferðaþjónustunnar á síðasta ári 598 mö.kr. (32%) og sjávarútvegs 352 mö.kr. (19%). Iðnaður er því stærsta útflutningsgreinin. Það er ekki síst í því ljósi sem miklu máli skiptir með hvaða hætti greinin þróast. 

Mikil verðmætasköpun iðnaðar hér á landi skilar sér í því að skattspor greinarinnar er umfangsmikið. Með skattspori er átt við framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna og þar með framlag greinarinnar til fjármögnunar þátta á borð við heilbrigðis- og menntamála þjóðarinnar. Nam heildarskattspor iðnaðar 462 mö.kr. árið 2022 samkvæmt niðurstöðum Reykjavík Economics en SI fengu fyrirtækið til þess að reikna skattspor iðnaðarins fyrir árið 2022 með sambærilegum hætti og hefur verið gert fyrir aðrar atvinnugreinar. Þröngt skattspor iðnaðarins er 213 ma.kr. og er það stærst allra útflutningsgreina. Til samanburðar nam þröngt skattspor ferðaþjónustunnar 92 ma.kr. og sjávarútvegsins 85 ma.kr. árið 2022. Skattspor iðnaðarins hefur stækkað síðustu ár en það nam 370 mö.kr. árið 2020 á verðlagi ársins 2022. 

Tilvist iðnaðar hér á landi er ekki sjálfgefin. Framlag greinarinnar til efnahagslegrar velmegunar grundvallast á því umhverfi sem greininni er búið. Stærstu tækifæri til vaxtar íslenska hagkerfisins til framtíðar liggja í iðnaði. Samtök iðnaðarins hafa unnið að því að efla samkeppnishæfni íslensk iðnaðar í þágu samfélagsins alls með því að leggja áherslu á þau málefni sem efla samkeppnishæfni landsins. Þau málefni sem mestu skipta eru starfsumhverfi, mannauður, nýsköpun og innviðir en einnig orku- og umhverfismál. Hafa samtökin sagt að tryggja þurfi aukið framboð af grænni orku til fullra orkuskipta og uppbyggingar í iðnaði um allt land, fjölga þurfi iðn-, tækni- og verkmenntuðu starfsfólki, greiða götu framkvæmda og setja kraft í innviðafjárfestingu, ekki síst í samgöngum, húsnæði og orkuskiptum. Með umbótum stjórnvalda á þessum sviðum eflist geta hagkerfisins til að skapa verðmæti og störf sem bætir lífskjör landsmanna.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

ViðskiptaMogginn, 31. júlí 2024.