Kaupum íslenskt!
Við erum flest að upplifa tíma sem eiga sér ekki hliðstæðu í okkar fortíð.
Við erum flest að upplifa tíma sem eiga sér ekki hliðstæðu í okkar fortíð. Nú á öðrum degi strangara samkomubanns heyrir maður um hvert fyrirtækið á eftir öðru sem skellir í lás og slekkur ljósin, í bili vonandi. Vágesturinn er ekki útþensla fjármálakerfisins eins og var fyrir tólf árum heldur óþekkt veira sem dreifir sér meira en góðu hófi gegnir. Við öll höfum notið leiðsagnar frábærs fólks frá almannavörnum, Landlæknisembættinu, heilbrigðisstarfsmönnum sem og vísindafólki okkar ásamt fleirum. Fyrirmælin eru skýr. Höldum okkur heima, takmörkum samskipti, gætum hreinlætis.
Allt þetta felur í sér að daglegt líf okkar hefur riðlast sem aftur hefur áhrif á ýmsar atvinnugreinar svo sem hárgreiðslustofur, snyrtistofur, líkamsræktarstöðvar, verslanir, veitinga- og kaffihús, leigubíla, ferðaþjónustufyrirtæki og svo mætti lengi telja. Við erum í raun að upplifa efnahagslegar hamfarir. Í ljósi þess getum við öll lagt okkar af mörkum til að reyna að milda skellinn og vernda störf og fyrirtæki hér á landi.
Ég hvet ykkur því til að styðja við atvinnustarfsemi í ykkar nærumhverfi. Margir veitingastaðir eru opnir með 20 manna takmörkunum og margir veitingastaðir senda mat heim eða afhenda í bílinn. Bakaríin okkar eru opin og bjóða okkur upp á nýbökuð brauð á hverjum degi. Blómabúðirnar eru opnar og fátt gleður meira en fallegur blómvöndur. Margar íslenskar verslanir selja í gegnum netið og senda heim. Svo eru fjöldamörg matvælafyrirtæki hér á landi sem eru þjóðhagslega mikilvæg og tryggja matvælaöryggi okkar landsmanna. Þar er nú víðast unnið dag og nótt til að ekki verði skortur á mat.
Verum þess minnug nú sem aldrei fyrr að ábyrgð fylgir hverjum kaupum. Með kaupum á íslenskri vöru og þjónustu erum við að tryggja atvinnu á Íslandi. Ég færi mínar krónur í þínar hendur og svo koll af kolli. Með kaupum á íslenskri vöru og þjónustu er ég að styðja við það samfélag sem ég hef kosið að búa í og samfélagið verður aldrei meira en það sem ég er reiðubúin að leggja til þess.
Fréttablaðið, 27. mars 2020.