Kjöraðstæður fyrir innviðaframkvæmdir

21. feb. 2019

Eftir uppsveiflu síðustu ára dregur nú hratt úr hagvexti og atvinnuleysi eykst. 

Eftir uppsveiflu síðustu ára dregur nú hratt úr hagvexti og atvinnuleysi eykst. Er því nú spáð að hagvöxtur í ár verði um 1-2% og hafa þær spár verið að lækka undanfarna mánuði. Um er að ræða minnsta hagvöxt sem mælst hefur í landinu síðan 2012. Atvinnuleysi er þegar farið að aukast en atvinnuleysi í janúar síðastliðnum mældist 3,0% samanborið við 2,4% í sama mánuði í fyrra. Þó að talsverðar framkvæmdir séu fyrirhugaðar hefur stórum verkefnum nú verið frestað, það hægir á vexti í byggingariðnaði sem gæti leitt til samdráttar. Það er bæði nauðsynlegt og skynsamlegt að ráðast í framkvæmdir nú þegar dregur úr vexti hagkerfisins.

Dregur úr vexti

Hægt hefur verulega á vexti útflutnings sem var ein megindriffjöður uppsveiflunnar lengi framan af. Reiknar Seðlabankinn svo dæmi sé tekið með engum vexti í útflutningi vöru og þjónustu í ár í spá sem hann birti fyrr í þessum mánuði. Samhliða dregur úr fjárfestingum atvinnuveganna sem var burðarásinn í auknum fjárfestingum í hagkerfinu. Versnandi útlit í efnahagsmálum og aukin óvissa m.a. vegna stöðu vinnumarkaðarins hefur þar áhrif. Tölur um umfang bygginga- og mannvirkjagerðar bera þessari þróun glöggt vitni. Dregið hefur umtalsvert úr fjölgun launþega í greininni og samkvæmt nýlegri könnun sem Gallup gerði í lok síðastliðins árs fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann telja forsvarsmenn 29% fyrirtækja í greininni að starfsmönnum muni fækka á næstu 6 mánuðum og 25% að innlend spurn eftir vöru eða þjónustu þeirra muni minnka á þeim tíma.

Kanarífuglinn í kolanámunni

Stór verkefni á sviði byggingariðnaðarins hafa undanfarið frestast eða tafir orðið á þeim. Má þar nefna Landspítalann, verkefni Isavia og höfuðstöðvar Landsbankans. Þar spilar inn í aukin óvissa og versnandi útlit í efnahagsumhverfinu. Uppsagnir og hagræðingar eiga sér nú þegar stað hjá arkitektastofum en þær eru fremstar í verkröðuninni í byggingar- og mannvirkjaiðnaði og þannig forboði þess sem koma skal í greininni nema eitthvað breytist. Samtök iðnaðarins hafa bent á að við þessar aðstæður sé kjörið að fara í innviðaframkvæmdir en með því er bæði milduð niðursveiflan í hagkerfinu og byggt undir hagvöxt til lengri tíma. Sterkir innviðir, eins og samgöngur, er forsenda öflugs atvinnulífs. Óstöðugleiki í hagkerfinu sem birst hefur m.a. í miklum sveiflum í fjárfestingum í hagkerfinu og bygginga- og mannvirkjaiðnaði er til þess fallinn að draga úr framleiðni og langtíma hagvexti. Fjárfestingar voru litlar í hagkerfinu lengi fram eftir efnahagsuppsveiflunni 2011-2018. Það var ekki fyrr en 2016 sem fjárfestingarstigið í hagkerfinu var komið á viðunandi stað eða nálægt því sem sjá má að meðaltali í iðnvæddum ríkjum og telja má að þurfi til að viðhalda hagvexti til lengri tíma. Talsverð umsvif eru núna í bygginga- og mannvirkjaiðnaði en hafa ber í huga að þær framkvæmdir sem fyrirtæki í greininni eru nú að fást við eiga sér langan aðdraganda.

Nauðsynlegt að framkvæma

Á tíma lítilla fjárfestinga á fyrstu árum uppsveiflunnar byggðist upp mikil fjárfestingarþörf sérstaklega í íbúðamálum og opinberum fjárfestingum. Framboð á íbúðum náði ekki að mæta vaxandi fólksfjölda í uppsveiflunni þannig að umtalsverður skortur myndaðist. Birtist skorturinn m.a. í hratt hækkandi verði íbúða umfram launahækkanir. Einnig myndaðist mikil uppsöfnuð þörf fyrir viðhald og nýfjárfestingar í opinberum fjárfestingum m.a. í samgöngumálum.

Skynsamlegt að framkvæma

Nú er góður tími til að vinna á þessum skorti og skapa framboð íbúða sem henta þeirri miklu spurn sem er eftir húsnæði. Átakshópur um aukið framboð á íbúðum skilaði forsætisráðherra tillögum sínum nýlega og er það gott innlegg í þessa umræðu. Kom þar fram að mat hópsins væri að óuppfyllt íbúðaþörf væri á bilinu 5-8 þúsund íbúðir. Leggur nefndin til aðgerðir til að auka framboð hagkvæmra íbúða sem hefur verið tekið með jákvæðum hætti af hálfu ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um nýsamþykkta samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar segir að nú séu að skapast kjöraðstæður til að fara í innviðauppbyggingu. Með henni verður byggt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Segir þar að fjárfestingaþörf sé í heild á milli 350-400 milljarðar króna. Meirihlutinn telur brýnt að brugðist verði hratt við þeim vanda sem safnast hefur upp síðustu árin. Ekki er hægt annað en að taka undir þessi orð meirihluta nefndarinnar og fagna þeirri aukningu sem varð á fyrirhuguðum samgönguframkvæmdum í meðferð nefndarinnar.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Viðskiptablaðið, 21. febrúar 2019.