Koma tímar, koma ráð
Árni Sigurjónsson, formaður SI, skrifar um árið sem er að líða og hvað er framundan í Morgunblaðinu.
Okkur hefur sennilega sjaldan verið það jafnljóst og á þessu erfiða ári 2020, sem við getum vart beðið eftir að kveðja, að ekkert er í veröldinni víst. Ársins verður helst minnst í sögubókum fyrir baráttu mannkyns við skæðan heimsfaraldur, þann versta í meira en öld, og fyrir upphaf dýpstu efnahagskreppu síðari tíma sem beina afleiðingu af heimsfaraldrinum. Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af þessu ástandi þar sem hrikt hefur í grunnstoðum efnahagslífsins og tilveran hefur, að því er virðist, staldrað örlítið við. Við erum hins vegar orðin vön því að takast á við áföll og breytingar og þjóðin hefur síðustu mánuðina sýnt einstaka aðlögunarhæfni og samstöðu sem ber vott um heilbrigða þjóðarsál.
Erfið staða í árslok
Í ljósi þess að faraldurinn hefur verið erfiðari við að eiga og varað lengur en reiknað var með, hafa efnahagsspár þróast til neikvæðari vegar. Samdráttur hefur verið meiri í ár en útlit var fyrir á vormánuðum og búast má við hægari efnahagsbata á næsta ári en vonir höfðu staðið til. Flestir geirar atvinnulífsins hafa fundið verulega fyrir áhrifum af samdrættinum, sem hefur verið umtalsverður í útflutningi, sérstaklega ferðaþjónustu en einnig í orkusæknum iðnaðaði. Vel heppnaðar aðgerðir í hagstjórn, sem haldið hafa uppi fjárfestingarstiginu í hagkerfinu, hafa þó dregið úr áhrifum samdráttar í framleiðsluiðnaði og byggingariðnaði, sem verður engu að síður að teljast verulegur. Mikil fækkun hefur orðið á störfum og atvinnuleysi er nú í sögulegum hæðum. Þá eru ótalin þau beinu og óbeinu áhrif sem faraldurinn hefur haft á heilsu og hag landsmanna. Staðan hefur því sjaldan verið svartari, en hvað boðar nýárs blessuð sól?
Jákvæð teikn á lofti
Jákvæðu fréttirnar eru þær að farsóttir eru tímabundið ástand og samfélög og hagkerfi rísa jafnan upp að loknu slíku tímabili með kröftugum hætti. Hið litla og fremur einsleita íslenska hagkerfi er viðkvæmara en flest önnur fyrir þeim miklu áföllum sem átt hafa sér stað á árinu. Af sömu rótum getum við vænst þess að viðspyrnan kunni af þessum sökum að verða hraðari á Íslandi en víða annars staðar þegar veiran gefur eftir og við náum aftur vopnum okkar. Þá eru bólusetningar til varnar veirunni að hefjast sem gefa góð fyrirheit um framhaldið. Þó það glitti í ljósið við enda ganganna, skulum við engu að síður stilla væntingum í hóf um skjótan viðsnúning. Allt hefur sinn tíma, þó öll séum við orðin óþreyjufull og langþreytt á stöðunni. En teiknin eru sannarlega jákvæð, höldum áfram einbeitingunni og þá mun okkur farnast vel.
Bylgja nýsköpunar
Gleymum því heldur ekki að áföll í efnahagslífi leiða gjarnan af sér bylgjur nýsköpunar, sem hefur sannarlega fengið aukna og verðskuldaða athygli á árinu. Hugverkaiðnaður – fjórða stoðin – sem er nú þegar orðin öflug stoð í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, er grunnur að auknum stöðugleika og hagvexti til framtíðar. Ekki þarf að fjölyrða um að við munum áfram byggja á sterkum en sveiflukenndum stoðum sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar og ferðaþjónustu, en nú sem aldrei fyrr þurfum við að leggjast á eitt við að skapa nýjar útflutningsgreinar og aukin verðmæti með nýsköpun sem byggir á ótakmörkuðum auðlindum, hvort sem það er af nýjum rótum eða í rótgrónum greinum. Fjórða stoðin mun skapa verðmæt störf sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda. Þrátt fyrir erfiða stöðu er jarðvegur nýsköpunar frjór og uppskeran kann að verða ríkuleg ef rétt verður á spilum haldið.
Tími endurreisnar
Senn kemur sá tímapunktur að við hefjum endurreisnina og snúum saman vörn í sókn. Telja má ljóst að hagkerfið sem mun koma út úr faraldrinum verði annað en það sem var fyrir. Þróun sem þegar var hafin hefur orðið mun hraðari vegna faraldursins og tæknilausnir hafa gert okkur kleift að halda úti eins hefðbundnu samfélagi og unnt er í ljósi aðstæðna. Höfum það í huga þegar við hefjumst handa við að reisa við efnahaginn. Þegar við nú kveðjum árið þar sem væntumþykja var helst sýnd með því að halda sig fjarri eða í gegnum stafræna miðla í stað hefðbundinna vinafunda eða faðmlaga, skulum við taka með okkur í veganesti fyrir nýja árið samstöðuna, framfarirnar og þær góðu hugmyndir sem urðu til á þessum fordæmalausu tímum. Sá lærdómur mun nýtast okkur vel í þeim mikilvægu verkefnum sem við ætlum að takast á við og leysa.
Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins.
Morgunblaðið, 31. desember 2020.