Kvikmyndaiðnaður ræktar vörumerkið Ísland

21. des. 2017

Framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni er umfangsmikil atvinnugrein hér á landi sem hefur víðtæk og jákvæð áhrif á samfélagið allt.

Framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni er umfangsmikil atvinnugrein hér á landi sem hefur víðtæk og jákvæð áhrif á samfélagið allt. Það efni sem framleitt er styrkir stöðu tungumálsins okkar, laðar erlenda ferðamenn til landsins og skapar ótal störf og önnur verðmæti í samfélaginu. Velta í þessari grein hugverkaiðnaðar nam tæplega 20 milljörðum króna í fyrra og hefur hún aldrei áður verið meiri. Hefur veltan í greininni fjórfaldast frá árinu 2010 og er samanlögð velta á tímabilinu 2009-2016 orðin tæplega 100 milljarðar króna.

Fjöldi ferðamanna sækir landið heim eftir að hafa dáðst að íslenskri náttúru í alþjóðlegum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Einn af hverjum sex erlendum ferðamönnum sækir Ísland heim vegna alþjóðlegra kvikmynda, heimildarmynda, sjónvarpsþátta og tónlistarmyndbanda sem sýna íslenska náttúru, samkvæmt könnun á ferðavenjum erlendra ferðamanna. Þessu til viðbótar segja 4,4% að hugmyndin hafi vaknað við að horfa á íslenskar kvikmyndir.

Það er því hægt að fullyrða að stór hluti þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma gerir það vegna þeirrar öflugu starfsemi sem hér er á þessum vettvangi hugverkaiðnaðar. Greinin skilar þannig talsvert meiru til þjóðarbúsins en ofangreindar veltutölur einar bera með sér og er þannig stór þáttur í gjaldeyrissköpun landsins, hagvexti síðustu ára og atvinnusköpun.

Um síðustu áramót tók gildi breyting á lögum um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar og hækkaði endurgreiðslan úr 20% í 25%. Það var mikil sátt á Alþingi með afgreiðslu málsins og voru allir flokkar sammála um mikilvægi þess. Einstök náttúra, íslenskt fagfólk með reynslu og skattalegir hvatar skapa Íslandi sérstöðu til að laða til sín erlend verkefni og ætti ekki að setja hömlur á endurgreiðslurnar líkt og greint hefur verið frá í fréttum. Þá ætti að stefna að því að auka enn frekar framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Þannig ræktum við vörumerkið Ísland og aukum eftirspurn eftir Íslandi og því sem frá landinu kemur.