Læra börnin það sem fyrir þeim er haft?

11. okt. 2018

Mikil spurn er eftir iðnmenntuðum á vinnumarkaði. 

Mikil spurn er eftir iðnmenntuðum á vinnumarkaði. Ástæður þess að ungt fólk hefur á síðustu árum valið bóknám frekar en iðnnám eru í meginatriðum tvíþættar, annars vegar er skýringa að leita í kerfislægum vanda í tengslum við iðn- og starfsmenntun og hins vegar tengist það ímynd tiltekinna starfa og námsleiða. Það þekkist einnig að áhrif og jafnvel þrýstingur frá vinum og foreldrum letji einstaklinga til þess að sækja iðn- og starfsmenntun. Það er miður. 

Grunnskólar kenna færri tíma í list- og verkgreinum en námskrá kveður á um og starfsráðgjöf endurspeglar ekki þær fjölbreyttu námsleiðir sem eru í boði eftir grunnskólanám. Almennt virðast skólar vera næst því að mæta viðmiðum varðandi list- og verkgreinar í yngstu bekkjum grunnskóla en þegar litið er til efstu bekkja grunnskólanna kemur í ljós að aðeins einn af hverjum fimm grunnskólum í Reykjavík fylgir þessum viðmiðum aðalnámskrár. Á sama tíma virðist vera að starfsráðgjöf sé sinnt af veikum mætti í mörgum skólum og í ljós kemur að þegar nemendur eru spurðir varðandi námsframboð í starfsnámi nefna þeir fjórar til sex leiðir á meðan raunin er sú að allt að 100 leiðir eru í boði þegar að starfsnámi kemur og þar af eru um 60 greinar sem tengjast iðngreinum. 

Í þessu eins og svo mörgu öðru er mikilvægt að ráðist sé að rótum vandans með markvissum aðgerðum á grunnskólastigi. Þar þurfa nemendur að fá innsýn í fjölbreytileika náms og starfa og fá tækifæri til að snerta á viðfangsefnum ólíkra greina, reyna sig í sköpun og verklegum viðfangsefnum. Ef efasemdaraddir eru til staðar um mikilvægi þessa væri áhugavert að heyra í foreldrum sem hafa sannfært börn sín um það hversu skemmtilegar hjólreiðar geta verið og jafnvel kennt hjólreiðar með upplestri, skýringarmyndum og bóklegri uppfræðslu. Slíkar aðferðir eru ekki vænlegar til árangurs og sveitarfélögin hljóta að hafa metnað til þess að grunnskólarnir geri betur.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum iðnaðarins

Morgunblaðið, 11. október 2018.