Lífskjör batnað hraðar hér en í Evrópu

27. des. 2019

Það fór vel á því að Isal, álverið í Straumsvík, fagnaði 50 ára afmæli álframleiðslu á Íslandi með því að afhenda Árnastofnun íslenskt álorðasafn á stafrænu formi. 

Það fór vel á því að Isal, álverið í Straumsvík, fagnaði 50 ára afmæli álframleiðslu á Íslandi með því að afhenda Árnastofnun íslenskt álorðasafn á stafrænu formi. Þegar fyrirtækið hóf starfsemi sumarið 1969 voru ekki til orð á íslensku yfir búnað, efni og aðferðir í álverum. Lögð var vinna og metnaður í að íslenska orðin og með tímanum varð álorðasafnið til. Nú má fletta orðunum upp í Íðorðabanka Árnastofnunar á Netinu. 

Eitt af þeim orðum sem festu rætur var súrál, en það er lýsandi fyrir efnasamband áls og súrefnis. Víst er mikilvægt að nefna hlutina réttum nöfnum til þess að öðlast skilning. Til að mynda er rétt að tala um álver en ekki álbræðslu af því að álframleiðsla fer fram með rafgreiningu. Í því felst að súrefnið er skilið frá álinu. Það er ekki fyrr en við endurvinnslu áls sem það er brætt. Þá hefur álið líka þann eiginleika umfram f lest önnur efni að það er svo gott sem nýtt. 

Ál er frábært orð 

Við af hendingu álorðasafnsins sem getið var í upphafi flutti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarp í Straumsvík. „Ál er frábært orð,“ sagði hann. „Í sögu álversins í Straumsvík les ég að um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar hafi Baldur Jónsson íslenskufræðingur bent á þetta kjörorð fyrir erlenda orðið alúmíníum sem léti illa í munni og samræmdist auk þess ekki íslensku málkerfi og málvitund. Íslensk málnefnd gerði orðið að sínu og íslensk þjóð í kjölfarið.“ 

Eins og nærri má geta fór Guðni varlega í alla pólitík, en lét þess getið að það gæti verið fróðlegt og ögrandi viðfangsefni að ímynda sér Ísland án allrar stóriðju og allra stórvirkjana, eða aðeins án þeirra virkjana og iðjuvera sem risu í fyrstu atrennu. „Erfitt gæti reynst að láta þá niðurstöðu vera jákvæða þjóðarhag þegar allt er tekið með í reikninginn.“ 

Hagkvæmari raforkuframleiðsla 

Rýnt var í þessa sögu af Ingólfi Bender hagfræðingi á raforkufundi Samtaka iðnaðarins í haust. Í máli hans kom fram að á því 50 ára tímabili sem liðið er frá því orkusækinn iðnaður fór að skjóta rótum hér á landi, hafi landsframleiðsla farið úr því að vera til jafns við meðaltal Evrópu í að vera nú tæplega 50% meiri. Hann sagði stóran hluta skýringarinnar vera að Íslendingar hafi farið að nýta orkuauðlindir í ríkari mæli en áður. „Framleiðsla stórnotenda gerði Íslendingum kleift að byggja upp raforkuframleiðslu í stórum skrefum og með hagkvæmari hætti en ella hefði verið.“ 

Fram að þeim tíma hafi gjaldeyrissköpun nær alfarið byggst á sjávarútvegi, en að sögn Ingólfs jafnaði sveif lur í hagkerfinu að fá f leiri stoðir undir útf lutninginn. „Gjaldeyrissköpun stórnotenda raforku er nú orðin meiri en heildargjaldeyristekjur af útf lutningi sjávarafurða eða um 260 milljarðar króna á árinu 2018. Vöxtur þessarar greinar hefur aukið stöðugleika hagkerfisins til heilla fyrir fyrirtæki og heimili í landinu.“ 

Álvísa séra Jóns 

Í sögunni af orðinu ál rifjaði Guðni upp að téður Baldur hefði ekki eignað sér hugmyndina. Þvert á móti hefði hann glaður bent á að orðið hefði sést og heyrst mun fyrr og nefndi sem dæmi málmvísu séra Jóns Jónssonar í Stafafelli sem birtist í Almanaki Þjóðvinafélagsins árið 1914: 

Silfur og gull með gljáa fullan skarta, 

má og blika eir og ál 

einnig nikul, tin og stál.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

Fréttablaðið/Markaðurinn, 27. desember 2019.