Mætum COVID-skellinum með innviðauppbyggingu

6. maí 2020

Á vordögum er hefðbundið að störfum fjölgi í byggingaog mannvirkjagerð og það dragi úr atvinnuleysi í greininni enda sumarið tími framkvæmda. 

Á vordögum er hefðbundið að störfum fjölgi í bygginga- og mannvirkjagerð og það dragi úr atvinnuleysi í greininni enda sumarið tími framkvæmda. Undanfarin ár hefur fjöldi atvinnulausra í greininni verið á þessum tíma um 200-300 manns og lækkandi. Nú er þróunin önnur. Atvinnuleysi í greininni er að aukast hratt. Í mars mældist atvinnuleysið í greininni 1.220 sem er margfaldur fjöldi þess sem sést hefur á þessum árstíma síðustu ár.

Einn af hverjum fimm atvinnulaus eða á hlutabótum

Bygginga- og mannvirkjagerð er stór grein í íslensku efnahagslífi. Hlutdeild greinarinnar í landsframleiðslu í fyrra var rúmlega 7% og á vinnumarkaði var vægi greinarinnar í fyrra sömuleiðis 7%. Í janúar voru launþegar í greininni um 12.400 og hafði þeim þá fækkað um 1.000 frá janúar árinu áður en niðursveifla var þá hafin í greininni líkt og í hagkerfinu öllu fyrir tíma COVID-19. Við þetta bætist að í greininni voru 1.638 komnir í minnkað starfshlutfall núna í apríl. Samanlagt er því nær einn af hverjum fimm starfsmönnum í greininni atvinnulaus eða á hlutabótum.

Mikill samdráttur í fjárfestingum fyrirtækja og heimila

Verkefnastaðan í greininni hefur minnkað hratt undanfarið. Dregið hefur úr fjárfestingum atvinnuveganna samhliða þeim mikla samdrætti sem kominn er í hagkerfið. Veik staða fyrirtækja samhliða hruni í eftirspurn hefur haft mikil áhrif á fjárfestingar þeirra en bygginga- og mannvirkjagerð hefur m.a. verið í mikilli uppbyggingu fyrir ferðaþjónustuna á síðustu árum. Einnig hefur dregið umtalsvert úr byggingum íbúðarhúsnæðis og þá sérstaklega á fyrstu byggingarstigum. Má í því sambandi nefna að skv. vortalningu SI á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu mældist 42% samdráttur á fyrstu byggingastigum.

Heildarumfang fjárfestinga í hagkerfinu á síðasta ári í byggingum og mannvirkjum var um 536 ma.kr. Af því voru fjárfestingar atvinnuveganna um 267 ma.kr., fjárfestingar í íbúðarhúsnæði 167 ma.kr. og hins opinbera 102 ma.kr. Þetta eru háar tölur og vægi þeirra í verðmætasköpun hagkerfisins mikið eða um 18% á síðastliðnu ári. Það er meðal annars vegna þessa mikla vægis sem samdráttur á þessu sviði hefur víðtæk áhrif á hagkerfið langt út fyrir raðir fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð.

Hið opinbera skapar mótvægi með auknum fjárfestingum

Í þessu sambandi er jákvætt að ríki, sveitarfélög og opinber fyrirtæki hafa undanfarið boðað auknar innviðaframkvæmdir af ýmsum toga til að skapa hagkerfinu viðspyrnu á þessum tímum vaxandi atvinnuleysis og samdráttar í efnahagslífinu. Auk þess hafa þau boðað aðgerðir sem gætu örvað fjárfestingu einkaaðila. Í heild er áætlað að umfangið gæti verði um 50 ma.kr. og eiga auknar innviðaframkvæmdir opinberra aðila að mestu að falla til á þessu ári. Um er að ræða verkefni sem skapa mótvægi við niðursveifluna í bygginga- og mannvirkjagerð og stemmir þannig stigum við þeirri alvarlegu þróun aukins atvinnuleysis og samdráttar sem hafin er í hagkerfinu öllu. Þróun samdráttarins er hröð og því mikilvægt að loforðum fylgi skjótar efndir í aðgerðum stjórnvalda sem geta spornað gegn þeirri óheillaþróun. Í ljósi líklegs umfangs samdráttarins er þörf á frekari aðgerðum á þessu sviði.

Með fjárfestingu í innviðum eru sköpuð störf og verðmæti

Á sviði innviða er mikil uppsöfnuð viðhalds- og nýfjárfestingaþörf. Viðhaldsþörfin var metin um 372 ma.kr. á þessu sviði í skýrslu sem SI og Félag ráðgjafarverkfræðinga vann árið 2017. Nú er tækifærið til að vinna á þessari þörf. Með því eru bæði sköpuð störf og verðmæti til mótvægis við niðursveifluna í hagkerfinu og í leiðinni byggðir upp innviðir sem eru nauðsynlegir fyrir kröftuga viðspyrnu og verðmætasköpun hagkerfisins litið til lengri tíma. Með því að mæta COVID-skellinum með fjárfestingum í innviðum er fjárfest í hagvexti framtíðarinnar á sama tíma og sköpuð er nauðsynleg viðspyrna á fordæmalausum tímum í íslensku hagkerfi. 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Fréttablaðið, 6. maí 2020.