Menntun er forsenda bættra lífskjara
Á síðustu öld upplifðu Íslendingar einhverjar mestu framfarir í sögu þjóðarinnar. Með iðnvæðingunni færðist atvinnan úr sveitum og sjávarplássum á mölina. Fólk flykktist til borgarinnar þar sem það þurfti að laga sig að breyttum atvinnuháttum. Sérhæfðum störfum í þéttbýli fylgdi krafa um aukna menntun og skólar voru álitnir undirstaða velmegunar og framfara. Okkur hefur tekist að byggja hér upp gott menntakerfi en menntakerfið er, rétt eins og önnur kerfi, breytingum háð. Við megum aldrei sofna á verðinum og halda að nú höfum við siglt skipi okkar í örugga höfn. Við eigum þess heldur að sigla um hin ókunnu höf. Á þeirri leið þarf að stýra milli skers og boða, mæta mótbárum og aldrei leggja árar í bát, heldur vaxa með verkefninu og læra af reynslunni.
Við erum sífellt að fást við nýjar áskoranir varðandi orkuúrlausnir, mengunarmál eða áhrif veðurfars, svo dæmi séu tekin. Heimurinn er flókinn og síbreytilegur og til að fóta sig í hinu síkvika umhverfi er góð menntun nauðsynleg undirstaða til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Fólk á vinnumarkaði verður að geta tileinkað sér færni og getu til að laga sig að atvinnulífinu á hverjum tíma. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að byggja brú á milli skólakerfis og atvinnulífs. Það þarf að vera gott framboð menntunar, samfelld starfsþjálfun og símenntun. Samkeppni um vel menntaða einstaklinga og sveigjanleiki fólks er sífellt meiri. Ef störfin eru spennandi og launin góð vílar fólk jafnvel ekki fyrir sér að flytja sig heimshorna á milli. Þetta hafa Íslendingar lengi gert og verið eftirsóttir starfskraftar víða um heim.
Með nýjum áskorunum þurfum við að tileinka okkur nýja færni og endurmeta umhverfi okkar ef við ætlum ekki að verða eftirbátar annarra þjóða. Skólakerfið þarf því að vera í sífelldri mótun. Það þarf að vera framsýnt og skila hæfu fólki út í atvinnulífið. Fólki sem leiðir Ísland inn í nýja tíma.
Breytingar á menntakerfi
Menntakerfið okkar stendur á tímamótum. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra kynnti Hvítbók í haust þar sem farið er yfir þá stefnu í menntamálum sem ráðherra vill framfylgja. Þetta er ögrandi verkefni og í því felast róttækar breytingar. Því ber að fagna. Það er næsta víst að við höfum hvert og eitt okkar mismunandi skoðanir á því hvernig skólakerfi við viljum sjá hér á landi og margir eru þeirrar skoðunar að atvinnulífið eigi að skipta sér sem minnst af því. Þar er ég ósammála, enda tel ég að samstarf ríkisvalds, atvinnulífs og menntakerfis verði að vera gott eins og við sjáum mörg góð dæmi um í nágrannalöndum okkar.
Stúdentspróf samhliða starfsnámi
Samtök iðnaðarins hafa fylgst grannt með þeirri vinnu sem nú á sér stað innan menntamálaráðuneytisins og hafa lagt fram sínar tillögur. Þar er megináhersla lögð á iðn- og starfsnám. Meðal þess sem menntamálaráðuneytið boðar í nýrri stefnu er stytting náms til stúdentsprófs en ekki er enn ljóst hver tillaga varðandi starfsmenntakerfið verður.
Á Íslandi innritast hlutfallslega fáir nemendur í starfsnám og margir ljúka ekki námi á tilsettum tíma. Einungis 12% grunnskólanema völdu starfsnám að loknu grunnskólaprófi síðastliðið haust. Þessu þarf að breyta. Gera starfsnámið meira aðlaðandi fyrir unga fólkið okkar og auka möguleika þeirra með því að bjóða upp á stúdentspróf samhliða starfsnáminu. Það er markmið SI að þetta hlutfall verði 25% árið 2025 og 30% árið 2030.
Á Íslandi er skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki. Við viljum sjá fleiri nemendur í þessum greinum og fleiri stúlkur velja sér þessa leið. Samtök iðnaðarins hafa lengi bent á nauðsyn þess að ná meiri samfellu á milli skólastiga og eins innan skólanna. Við viljum sjá að gráðan „sveinsprófsstúdent“ veiti beinan aðgang að námi á háskólastigi innan iðn- og tæknifræðigreina án þess að fólk þurfi að fara fyrst í frumgreinadeild eins og nú er raunin. Þá er einnig afar mikilvægt að ná meiri virkni innan fyrirtækjanna þannig að allir nemendur sem innritast í iðnnám eigi tryggan samning í vinnustaðanáminu.
Við þurfum að sækja fram í menntamálum. Setja iðn-, verk- og tækninám enn betur í forgrunn og tengja saman atvinnustefnu og menntastefnu í landinu. Atvinnulífið kallar á fólk með iðn-, verk- og tæknimenntun. Íslenskur iðnaður stendur að vissu leiti á tímamótum. Það er okkar að móta nýja framtíð Íslands.
Ég óska félagsmönnum SI og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og þakka ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.