Mótum framtíðina

6. nóv. 2018

Iðnaður hefur fylgt mannkyninu um margra alda skeið.

Iðnaður hefur fylgt mannkyninu um margra alda skeið. Í gegnum þrjár iðnbyltingar og þá fjórðu sem er yfirstandandi hefur iðnaður þróast og orðið mikilvægari hluti af verðmætasköpun ríkja og útflutningstekjum auk þess að skapa verðmæt og eftirsótt störf. 

Ef horft er til framtíðar viljum við að Ísland sé í fremstu röð hvað varðar samkeppnishæfni þjóða og njóti velgengni. Við viljum að efnahagsleg velmegun íbúa sé mikil og Ísland sé eftirsótt land til búsetu og atvinnurekstrar. Hagkerfið þarf að byggjast á fjölbreytilegri og gróskumikilli atvinnustarfsemi sem er drifin áfram af nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi. 

Ef þessi framtíðarsýn á að verða að veruleika er nauðsynlegt að móta atvinnustefnu þar sem leiðir í ýmsum málaflokkum eru útfærðar þannig að samkeppnishæfni aukist. Með atvinnustefnu er ekki einungis lagður grunnur að uppbyggingu til að styðja við efnahagslega velsæld heldur getur atvinnustefna verið rauði þráðurinn í stefnumótun hins opinbera þar sem stefnumótun einstakra málaflokka er samhæfð. Staðreynd málsins er sú að auknir fjármunir eru ekki ávísun á meiri árangur heldur skipta stefnumörkun og umbætur á grunni hennar meira máli. Um þessar mundir standa stjórnvöld að stefnumótun í mörgum lykilmálaflokkum. Má þar nefna orkumál, menntamál og nýsköpun. Vandinn er sá að stefnumótunin er ekki samræmd. Því er haldið fram að nú séu um 80 stefnur í gildi hjá stjórnvöldum. Það vantar hins vegar rauðan þráð og þar gæti atvinnustefna skipt sköpum. Samtök iðnaðarins ætla í vikunni að leggja fram skýrslu um atvinnustefnu þar sem koma fram hátt í 70 tillögur að umbótum í málaflokkum sem skipta mestu í að efla samkeppnishæfni. 

Með því að draga fram þær grundvallarbreytingar sem verða á samfélaginu á næstu áratugum og mæta þeim áskorunum sem breytingunum fylgja má byggja upp nýjan iðnað, jafnt innan rótgróinna fyrirtækja og með frumkvöðlastarfsemi. Þannig getum við saman látið framtíðarsýnina rætast.

Sigurður Hannesson, framkvæmdstjóri SI.

Morgunblaðið, 6. nóvember 2018.