Hættan af háum vöxtum

Þörf á samræmdri hagstjórn

1. des. 2003

  • Þorsteinn Þorgeirsson

Gríðarlegar stóriðjufjárfestingar á komandi árum munu hafa ruðningsáhrif á fjölda atvinnugreina og mörg störf í landinu.

Gríðarlegar stóriðjufjárfestingar á komandi árum munu hafa ruðningsáhrif á fjölda atvinnugreina og mörg störf í landinu. Vissulega réttlætir sá langtímaávinningur einhverjar fórnir. Þó er mikilvægt að réttri efnahagsstjórn verði beitt á komandi árum með auknu aðhaldi í opinberum fjármálum og ábyrgri ákvarðanatöku aðila atvinnulífsins. Að öðrum kosti getur uppsveifla snúist í erfiðan samdrátt.

Vaxtahækkun framundan
Eftir samdrátt í innlendri eftirspurn síðustu tvö ár hafa stóriðjuáformin aukið bjartsýni á ný og útlán til einkaneyslu og fjárfestinga tekið að vaxa hröðum skrefum. Þá eru uppi áform um að lækka skatta og auka íbúðarlán á hápunkti framkvæmdanna sem eru þensluhvetjandi aðgerðir. Vegna þessa hefur Seðlabankinn varað við að ferli vaxtahækkana sé framundan. Það sé nauðsynlegt til að draga úr vaxtarhraða hagkerfisins og verðbólguþrýstingi. Seðlabankinn þarf að bregðast tímanlega við þar sem vaxtabreytingar taka eitt til tvö ár að hafa tilætluð áhrif á efnahagsstarfsemina. Þó er ekki allt sem sýnist í þeim efnum.

Langvarandi hátt vaxtastig
Vextir á Íslandi hafa verið háir í hartnær áratug og mun hærri en víðast annars staðar. Með því að draga væntingar um 3% verðbólgu frá útlánsvöxtunum fást raunvextir útlána bankakerfisins. Þeir hafa um árabil verið frá um 5% og upp í 15% eftir tegund útlána.

Helstu ástæður hárra vaxta hérlendis eru að krónan er lítil og ótrúverðug mynt sem fylgir áhættuálag á alþjóðlegum lánamarkaði. Þá eru vísbendingar um fákeppniálag í fjármálaþjónustu. Einnig hefur borið á misvægi í hagstjórn. Aðhald í opinberum fjármálum skorti í lok síðustu uppsveiflu. Afkoma ríkissjóðs versnaði og laun skrúfuðust upp meðan Seðlabankinn hækkaði vexti mikið til að bremsa hagkerfið af og skapa sér meiri trúverðugleika.

Þegar útflutningshorfur versnuðu óvænt í maí 2000, tók gengið dýfu og litlu munaði að illa færi. Hagnaður fyrirtækja þurrkaðist út og skuldsett heimili áttu erfitt uppdráttar þegar margir misstu atvinnuna.

Skuldir þjóðarbúsins

Nú eru skuldir heimila og fyrirtækja að aukast á ný. Þá eru raunvextir hærri en vöxtur kaupmáttarins. Stærri hluti tekna heimilanna fer því í að greiða niður lán. Fyrirtæki á innlendum lánamarkaði eiga líka undir högg að sækja. Vextir um fram arðsemi leiða til þess að fjárfesting dregst saman. Það hægir á vexti framleiðslugetu hagkerfisins og uppsveifla myndar verðbólguþrýsting fyrr en ella. Því þarf að grípa fyrr til aðhaldssamari hagstjórnar. Langvarandi háir vextir bitna mest á vaxtarsprotum í alþjóðlegri samkeppni. Þegar fjölbreytt atvinnustarfsemi fær ekki þrifist minnkar innbyggð sveiflujöfnun hagkerfisins og getan til að standa af sér áföll.

Ógn við stöðugleikann
Hátt gengi krónunnar í ár, sem má rekja til hárra vaxta og bjartsýni, hefur aukið kaupmátt landsmanna erlendis og innfluttar vörur og þjónusta streyma til landsins. Hátt gengið dregur einnig úr útflutningi og minnkar getu okkar að borga fyrir innflutninginn og viðskiptahallinn eykst. Til að fjármagna hallann þarf að taka erlend lán og skuldabyrðin þyngist meira. Hækkun vaxta getur ýtt undir þetta ferli ef flestir búast við háu eða hærra gengi á komandi missirum.

Skuldir landsmanna nema nú þrefaldri landsframleiðslu og við Íslendingar erum orðin ein skuldsettasta þjóð Evrópu sem borgar jafnframt hæstu vextina. Ef horfur í útflutningi versna skyndilega eða vextir erlendis hækka mikið getur gengið kolfallið. Þá hækka afborganir erlendra lána í krónum talið og geta orðið mörgum ofviða. Ef háu vextirnir valda jafnframt samdrætti í innlendri eftirspurn og atvinnuleysi getur hrina gjaldþrota farið af stað með lækkun eignaverðs.

Þörf á ábyrgri hagstjórn
Nauðsynlegt er að vara við ótæpilegri hækkun vaxta. Það getur grafið undan stöðugleika efnahagslífsins og skapað alvarlegan vanda fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki landsins og þar með fjármálakerfið á komandi árum.

Til að draga úr þörfinni á vaxtahækkun þarf rétt viðbrögð í hagstjórninni. Fyrst og fremst þarf virkt aðhald í fjármálum ríkissjóðs og sveitarfélaga á komandi árum. Þá þurfa aðilar vinnumarkaðsins að leggja sitt af mörkum með hóflegum kjarasamningum, bankar að sýna aðgát í útlánum og almenningur að draga úr skuldasöfnun.

Seðlabankinn getur þá beitt hóflegu aðhaldi í peningastjórninni og þjóðin sloppið áfallalaust frá þessum ævintýralega vaxtakipp.

Þorsteinn Þorgeirsson