10 ára afmæli EES samningsins

30. jan. 2004

  • Sveinn Hannesson
Fráfarandi sendiherra ESB á Íslandi, Gerhard Sabathil, kemst skemmtilega að orði í nokkurs konar kveðjuviðtali sem birtist í Morgunblaðinu nú á Þorláksmessu.

Fráfarandi sendiherra ESB á Íslandi, Gerhard Sabathil, kemst skemmtilega að orði í nokkurs konar kveðjuviðtali sem birtist í Morgunblaðinu nú á Þorláksmessu. Þar talar hann um að Íslendingar og Norðmenn fylgist með ESB úr stúkusætinu og að verðið fyrir þau sæti hafi hækkað með samningnum um aðlögun EES samningsins að stækkun ESB og á þar við hækkuð framlög EFTA-ríkjanna í þróunarsjóð ESB.

Reglurnar koma að utan
Í viðtalinu við þennan orðvara sendiherra kemur einnig fram að Íslendingar séu í þeirri stöðu að hafa í reynd úthýst lagasetningarvaldinu til verktaka í Brussel og í höfuðborgum ESB-landanna fimmtán. Þetta þýði í reynd að með EES-aðildinni hafi Ísland afsalað sér meira af eigin fullveldi en vera myndi með fullri aðild að ESB þar sem aðildarríkin deila þessu valdi með sér. Þá gerir hann að umræðuefni hversu stórstígar framfarir hafi orðið í íslensku efnahagsog atvinnulífi á þeim áratug sem liðinn er síðan EES-samningurinn tók gildi.

Gæfuspor
Það er vissulega rétt að aðild okkar Íslendinga að EES-samningnum var mikið gæfuspor. Um þetta efast fáir lengur. Við fengum í þeim samningi allt fyrir ekkert eða næstum ekkert. Stúkusæti á frímiða. Þessum árangri náðum við ekki í krafti eigin styrks heldur með aðstoð annarra EFTA ríkja sem nú eru flest gengin í ESB. Svisslendingar, sem felldu aðild að EES-samningnum, voru mörg ár að gera tvíhliða samninga við ESB sem flestir eru sammála um að gangi mun skemmra og séu mun lakari en EES-samningurinn. Þó er enginn vafi á að Sviss er mun mikilvægara fyrir ESB en Ísland í öllu tilliti.

EFTA klippir og límir
Við Íslendingar höfum á þeim sextíu árum, sem liðin eru frá stofnun Lýðveldisins, notið mjög góðs af samstarfi eða samfloti við nágrannaþjóðir okkar, einkum á Norðurlöndum. Nú hin síðari ár höfum við sem aukaaðilar notið góðs af verktakavinnu ESB, ekki aðeins við smíði laga og reglna, heldur einnig við samningagerð við önnur ríki. Fríverslunarsamningar EFTA eru t.d. jafnan gerðir í kjölfar samninga ESB við þessi sömu ríki. Í því ljósi er í besta falli broslegt þegar andstæðingar ESB aðildar Íslands halda því fram að eitt af því sem við myndum glata sé möguleikinn til að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki.

Að löðrunga verktakann
Við lestur áðurnefnds viðtals við fráfarandi sendiherra verður manni á að hugleiða hversu einkennileg framkoma okkar Íslendinga, sumra hverra að minnsta kosti, er gagnvart ESB. Við viljum ekki aðild en undrumst svo stórum að ESB skuli ekki gæta hagsmuna okkar í hvívetna. Kvartað er sáran yfir óbilgirni í samningum t.d. um flökkustofna og að lítið tillit sé tekið til sérhagsmuna eða sérstakra landfræðilegra aðstæðna okkar. Við sýnum þó sjálf oftast furðu lítinn áhuga á að fylgjast með þeirri undirbúningsvinnu við lagasetningu og reglusmíði sem við þó höfum aðgang að. Þegar lokafrestur til að taka upp reglurnar rennur út förum við gjarna að velta fyrir okkur hvort þær henti okkur eða hvort hægt sé að fá undanþágu. Við tökum upp mestan hluta lagasetningar ESB og sem betur fer er það oftast svo að þetta lagaumhverfi hentar almenningi og fyrirtækjum mun betur en gömlu heimalöguðu reglurnar. Samt bölsótumst við yfir þessum reglum og formælum höfundum þeirra. Því er jafnvel spáð í svartasta skammdeginu að Evrópusambandið muni fljótlega líða undir lok. Spurning er hversu skynsamlegt það er að löðrunga stöðugt verktakana sem setja okkur reglurnar en ætlast jafnframt til þess að þeir gæti hagsmuna okkar til jafns við sína eigin.

Að vera með eða ekki með?
Fjölgun ESB-ríkja úr 15 í 25 er meira en breyting. Nær er að segja að til verði nýtt ESB. Þeir sem hafa óttast að stefnt væri að því að breyta ESB í sambandsríki ættu að geta andað léttar. Líkurnar á slíkri breytingu hafa aldrei verið miklar en eru endanlega úr sögunni með þessari miklu fjölgun aðildarríkja sem flest eru smáríki. Á sama hátt ætti þeim að létta sem hafa óttast að hlutur smáríkja verði fyrir borð borinn í Evrópusambandi framtíðarinnar því að í drögum að fyrstu stjórnarskrá þess er gengið út frá að atkvæðavægi smærri ríkjanna verði margfalt meira en fólksfjöldi segir til um. Endanleg samþykkt þessarar stjórnarskrár hefur ekki gengið hnökralaust fyrir sig en spyrja má hvort það sé ekki til vitnis um það að innan ESB semja menn um niðurstöður en beita ekki aðildarríkin þvingunum. Það er hins vegar ljóst að þeir Norðmenn og Íslendingar sem endalaust vilja standa hjá og „fylgjast náið með þróun ESB“ munu sjá að æ minna svigrúm og enn minni áhugi verður á að taka tillit til hagsmuna þessara sérvitringa meðal Evrópuþjóða.

Sveinn Hannesson