Að þora að reka skóla

Ritstjórnargrein í desember 2002

1. des. 2002

  • Davíð Lúðvíksson
  • Sveinn Hannesson

Björn Bjarnasona, fyrrverandi menntamálaráðherra, gerir viðhorf Samtaka iðnaðarins til skólareksturs að umtalsefni á heimasíðu sinni og sakar þau um hugleysi fyrir að taka ekki ábyrgð á rekstri skóla og kröfuhörku á hendur ríkinu í því sambandi. Af því tilefni verður ekki lengur undan því vikist að greina nánar frá því samningsferli sem átti sér stað milli Undirbúningsfélags að rekstri tækniháskóla og menntamálaráðuneytis um uppbyggingu Tækniháskóla Íslands.

Björn Bjarnasona, fyrrverandi menntamálaráðherra, gerir viðhorf Samtaka iðnaðarins til skólareksturs að umtalsefni á heimasíðu sinni og sakar þau um hugleysi fyrir að taka ekki ábyrgð á rekstri skóla og kröfuhörku á hendur ríkinu í því sambandi. Af því tilefni verður ekki lengur undan því vikist að greina nánar frá því samningsferli sem átti sér stað milli Undirbúningsfélags að rekstri tækniháskóla og menntamálaráðuneytis um uppbyggingu Tækniháskóla Íslands.

Ófögur lýsing
Björn lýsir Samtökum iðnaðarins sem ?...kröfugerðaraðila á hendur ríkinu um aukið fjármagn. Samtökin hafa til þessa dags ekki treyst sér að þora að taka ábyrgð á neinum skóla - lengi var beðið eftir því, hvort þau vildu hafa forystu um að flytja Tækniskóla Íslands á háskólastig og breyta honum í einkarekinn skóla. Þegar Samtök iðnaðarins fengu ekki þá fjármuni, sem þau kröfðust af ríkinu, ef þau ættu að koma að Tækniskóla Íslands, lauk viðræðum um það mál.?

Þá segir Björn: ?Viðhorf Samtaka iðnaðarins til skólareksturs er allt annað en Samtaka verslunarinnar. Verslunarmenn hafa rekið skóla á eigin forsendum í marga áratugi, Verslunarskóla Íslands, sem er öflugur og vinsæll framhaldsskóli. Verslunarráðið hvatti einnig til þess, að lögum um háskóla var breytt, svo að forsendur yrðu til þess að reka háskóla undir forystu einkaaðila.?

Þjösnast áfram með meingallað reiknilíkan
Tilefni greinarskrifa Björns er umræðan sem átt hefur sér stað um reiknilíkan menntamálaráðuneytis og fjárhagsvanda framhaldsskólanna. Birni mislíkar greinilega að Samtök iðnaðarins styðji við bakið á skólastjórnendum verkmennta- og tækniháskóla í viðleitni þeirra til að fá aukið tillit tekið til augljóss meiri kostnaðar við verklega og sérhæfða kennslu á tæknisviðum í tiltölulega litlum nemendahópum í samanburði við fjöldakennslu í viðskipta- og rekstrargreinum.

Málflutningur Björns staðfestir raunar það skilnings- og áhugaleysi sem ríkti í menntamálaráðuneytinu í ráðherratíð hans á málefnum verk- og tæknimenntunar. Mergur málsins er að umræddur lagarammi og reiknilíkan eru einmitt, eins og kemur fram í skrifum Björns, sniðin að einföldu bóknámi og stórum nemendahópum en taka ekki nægilegt tillit til meiri kostnaðar við sérhæfðari tæknilega og verklega kennslu. Menntamálaráðuneytið hefur árum saman þverskallast við að leiðrétta augljósa galla á því. Fjárhagur iðn-, verknáms- og tækniskóla sýnir, svo að ekki verður um villst, að dæmið gengur einfaldlega ekki upp.

Verslunarráð gat heldur ekki rekið tækniháskóla á grundvelli gamla reiknilíkansins
Undirbúningsfélag að rekstri tækniháskóla gerði sér fullkomlega grein fyrir ágöllum reiknilíkansins í samningaviðræðum um uppbyggingu Tækniháskóla Íslands. Menntamálaráðherra vildi hins vegar ekki horfast í augu við þá staðreynd og því fór sem fór. Vonir um að Verslunarráð gæti töfrað fram einhverja rekstrarlega forsendu til að reka skólann, þegar Samtök iðnaðarins treystu sér ekki til þess, eins Björn orðar það, rættust ekki. Forráðamenn Verslunarráðs og Háskólans í Reykjavík skoðuðu málið a.m.k. í tvígang en afþökkuðu að lokum gott boð ráðherrans og treystu sér greinilega ekki í málið frekar en Samtök iðnaðarins og samstarfsaðilar þeirra. Þeir höfðu þó heilan háskóla fyrir til að sameina við reksturinn þannig að um mun hagkvæmari rekstrareiningu hefði orðið að ræða.

Þokkaleg vöggugjöf
Að lokum var stofnaður ríkisháskóli úr Tækniskóla Íslands með stjórnfyrirkomulagi sem er eins konar eftirlíking af akademísku stjórnfyrirkomulagi án formlegra tengsla við atvinnulífið og hlaut uppsafnaðan rekstrarhalla upp á 260 milljónir króna í vöggugjöf. Ljóst er að eitthvað mun það kosta ríkið að koma þeim skóla áfram og mun meira en það sem Undirbúningsfélagið ræddi um við menntamálaráðuneytið á sínum tíma. Undirbúningsfélagið var meira að segja tilbúið að leggja fram 25 milljónir króna auk vinnuframlags, á móti ríkinu sem er talsvert meira en aðstandendur annarra einkarekinna skóla hafa lagt fram sem stofnframlag. Forsendan var að sjálfsögðu að gengið yrði frá samningum við menntamálaráðuneytið um rekstrarkostnað, rannsóknir, þróunar- og húsnæðiskostnað eins og við aðra einkarekna skóla en að teknu tilliti til sérstöðu skólans varðandi verklega og tæknilega sérhæfingu. Það var nú öll kröfugerðin á hendur ríkinu. Björn Bjarnason hefði beinlínis sparað ríkissjóði stórfé á því að ljúka samningum við Undirbúningsfélagið en hafnaði því. Það er kjarni málsins.

Von um betri tíð
Nýr menntamálaráðherra Tómas Ingi Olrich hefur undanfarið verið nokkuð í fjölmiðlum vegna umræðunnar um reiknilíkanið. Þar hefur greinilega komið fram vilji hans til að færa reiknilíkanið og greiðslur samkvæmt því nær raunveruleikanum. Því ber að fagna.

Davíð Lúðvíksson
Sveinn Hannesson