Mistækir reglusmiðir
Ritstjórnargrein í nóvember 2002
Því hefur verið haldið fram með réttu að umbætur í starfsskilyrðum atvinnulífsins hafi skilað þjóðinni ótrúlegum ávinningi á undanförnum árum. Því verður heldur ekki á móti mælt að mikill hluti þessara umbóta á rót sína beint eða óbeint að rekja til alþjóðlegra samninga sem við höfum gert. Þar sker EES – samningurinn sig úr. Engu að síður veltur þó enn mest á því hvernig við stöndum okkur sjálf í því að setja okkur reglur þótt oft sé gerð krafa um tiltekna samræmingu
Því hefur verið haldið fram með réttu að umbætur í starfsskilyrðum atvinnulífsins hafi skilað þjóðinni ótrúlegum ávinningi á undanförnum árum. Því verður heldur ekki á móti mælt að mikill hluti þessara umbóta á rót sína beint eða óbeint að rekja til alþjóðlegra samninga sem við höfum gert. Þar sker EES ? samningurinn sig úr. Engu að síður veltur þó enn mest á því hvernig við stöndum okkur sjálf í því að setja okkur reglur þótt oft sé gerð krafa um tiltekna samræmingu vegna samninga okkar við önnur ríki.
Sjálfs er höndin hollust
Andstæðingar alþjóðlegrar samvinnu á Íslandi, sem eru enn ótrúlega margir og í öllum flokkum, halda því gjarna fram að þeir séu hlynntir alþjóðlegri samvinnu en vilja bara að Íslendingar viðhaldi fullveldi sínu óskertu og telja að hag okkar sé best borgið með því að við gerum samninga á eigin spýtur. Þeir vilja helst að sem frjáls og fullvalda þjóð getum við gert þær breytingar á samkeppnislögum, skattalögum, reglum um opinber innkaup og öðrum starfsskilyrðum sem okkur sýnist.
Maðkar í mysunni
Þetta kann að hljóma vel. Auðvitað viljum við gjarna ráða okkur sjálf og setja okkur þær reglur sem okkur sjálfum hentar. Vandamálið er það að við erum ekki ein í heiminum og erum t.d. hluti af innri markaði EES. Við höfum samið um að fara að þeim reglum sem ESB ríkin hafa komið sér saman um. Þótt ýmsum þjóðernissinnum þyki þetta afleitt þá sýnir reynslan að flestar þessar reglur henta okkur ágætlega. Mestu vandkvæðin í þessu sambandi koma upp þegar embættismenn í stofnunum og ráðuneytum finna hjá sér þörf til að búa til reglur sem engin skylda er að taka upp hér eða lauma inn í EES reglurnar alls konar viðbótum og breytingum sem enga stoð eiga í Evrópureglunum.
Vitlausar reglur og óþarfar
Gott dæmi um þetta eru hinar undarlegu og þarflausu reglur um rekstrarleyfi til fólks-, efnis- og vöruflutninga. Í fyrsta lagi hefur enginn getað bent á þörfina fyrir þessar reglur. Í öðru lagi er útilokað að átta sig á því hvaða reglum er byggt á þegar sagt er að setja þurfi slíkar reglur vegna ?skuldbindinga? Íslands samkvæmt EB gerðum. Síðan er bætt gráu ofan á svart með því að láta Vegagerðina heimta rekstraráætlanir, ársreikninga, sakavottorð o.s.frv. af forráðamönnum verktaka- og iðnfyrirtækja sem þessar reglur áttu að sögn aldrei að ná til. Tilgangurinn virðist sá einn að selja þeim gula miða á kr. 1.400 stk. til að líma í framrúður bílanna. Til hvers veit enginn. Fáránleg fjáröflun byggð á óþörfum reglum.
Ólög sem standa óhögguð
Í rúm fjögur ár hafa breytingar á hafnalögum þvælst í kerfinu án niðurstöðu. Þó eru liðin þrjú ár síðan samkeppnisráð beindi því til samgönguráðherra ? að hlutast verði til um breytingar á hafnarlögum þannig að skapað verði lagaumhverfi fyrir virka samkeppni í rekstri hafna, samanber markmið samkeppnislaga.? Á grunni núgildandi hafnalaga, er gefin út samræmd gjaldskrá, vörugjöld lögð á alla nema þá, sem mest nota hafnirnar og tekjur færðar milli hafna. Þetta stenst ekki samkeppnislög. Það hefur legið fyrir í þrjú ár. Er beðið eftir því að ESA skerist í leikinn og reki stjórnvöld til úrbóta?
Augljós vandi en ekkert gerist
En gengur okkur þá ekki betur á heimavelli þar sem torskildar reglur ESB eru ekki að flækjast fyrir stjórnvöldum? Ekki virðist það einhlítt. Í átta ár hafa Samtök iðnaðarins og Samtök íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja barist fyrir því að virðisaukaskattur verði innheimtur af hugbúnaðargerð og ?þjónustu á vegum fjármálafyrirtækja og opinberra stofnana sem að öðru leyti eru ekki virðisaukaskattskyld. Auðvitað veldur þetta því að þessir aðilar byggja upp eigin starfsemi á þessu sviði og komast þannig hjá greiðslu virðisaukaskatts svo lengi sem skattyfirvöld grípa ekki í taumana. Enginn vafi leikur þó á um skattskylduna. Bæði ríkisskattstjóri og fjármálaráðuneyti hafa úrskurðað um það fyrir mörgum árum. Samt gerist ekkert annað en það að skjalabunkarnir um málið hrannast upp. Þarna þurfum við ekkert leyfi frá Brussel. Allir eru sammála um að þetta skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja á almennum markaði sem verða að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti af sambærilegri þjónustu.
Rök fyrir ríkisvæðingu?
Málið ristir dýpra því að þessi óvissa og mismunun hamlar gegn einkavæðingu og færslu verkefna frá opinberum aðilum til einkaaðila. Það munar um það hvort greiða þarf 24,5% virðisaukaskatt eða ekki. Svo tekið sé nýlegt dæmi, þá voru ein rökin fyrir því að breyta Skráningarstofunni ehf. í Umferðarstofu einmitt þau að það væri ódýrara að annast þjónustuna á vegum ríkisstofnunar af því að þá þurfi ekki að innheimta virðisaukaskatt! Góð rök á tímum einkavæðingar.