Opinber innkaup

Ritstjórnargrein í október 2002

1. okt. 2002

  • Sveinn Hannesson
Miklar framfarir hafa orðið á sviði opinberra innkaupa hin síðari ár. Þetta svið er eitt þeirra sem oft er nefnt þegar rætt er um jákvæð áhrif EES-samningsins á atvinnulíf og efnahagsumhverfi á Íslandi.

Miklar framfarir hafa orðið á sviði opinberra innkaupa hin síðari ár. Þetta svið er eitt þeirra sem oft er nefnt þegar rætt er um jákvæð áhrif EES-samningsins á atvinnulíf og efnahagsumhverfi á Íslandi.

Auðvitað er það svo að skýrar og skilvirkar reglur getum við sett sjálf á þessu sviði og ættum ekki að þurfa þrýsting frá þunglamalegu reglusmiðunum í Brussel. Reynslan er hins vegar ólygin og kennir okkur að litla, gegnsæja og spillingarlausa stjórnkerfið okkar er þegar til kastanna kemur afar ólíklegt til að koma frá sér nothæfum reglum um þessi mál eins og svo ótal mörg önnur. Það var enginn sem bannaði okkur að setja almennileg samkeppnislög, auka frelsi til fjárfestinga eða opna fyrir samkeppni á þjónustusviði svo eitthvað sé nefnt. Það bara gerðist ekki fyrr en við gengum í EES og fengum reglurnar sendar frá Brussel.

Reglur í stað pólitískra afskipta
Það hefur sýnt sig að þessar innfluttu reglur um opinber innkaup henta alveg ágætlega á Íslandi. Það hefur komið í ljós að skýrar leikreglur henta íslensku atvinnulífi mun betur en pólitískar ákvarðanir. Þá hefur verið sett upp kærunefnd útboðsmála en segja má að fram til þess tíma hafi enginn farvegur verið fyrir þá sem þótti á sig hallað á þessu sviði. Allir vissu að tilgangslaust var að kvarta við fjármálaráðuneytið vegna gallaðra útboða. Framan af breytti kærunefndin ekki miklu því í henni voru innanhússmenn í ráðuneytinu sem sjaldan eða aldrei sáu ástæðu til að grípa í taumana. Stöku sinnum var fundið að því að útboðsgögn og málsmeðferð væri gölluð en föðurlegar áminningar látnar nægja. Með auknu sjálfstæði kærunefndar útboðsmála hefur orðið veruleg breyting á.

Kærunum fjölgar
Engum dettur í hug að allt hafi verið í góðu lagi á sviði samkeppnismála áður en við fengum samkeppnislög og samkeppnisráð. Þegar lögin voru komin og menn sáu að ekki var með öllu vonlaust að klaga yfir meintum brotum á þeim, þá streymdu kærurnar inn. Sama hefur gerst á sviði opinberra innkaupa. Kærum hefur fjölgað. Það er nefnilega ekki nóg að hafa reglur það þarf einnig fagmennsku á þessu sviði. Af margra ára reynslu vill undirritaður halda því fram að fagmennsku á sviði opinberra innkaupa sé stórlega áfátt.

Fúskararnir vaða uppi
Algengt er að útboðsgögn séu illa unnin, verk ekki nema hálfhönnuð þegar farið er í útboð og algengt er að þeir sem bjóða út skipti um skoðun á miðri leið, þ.e.a.s. ákveði í miðju kafi að kaupa eitthvað allt annað en þeir lýstu í útboðsgögnum. Alls konar fúskarar á sviði útboðsmála, forstjórar ríkisstofnana, skólanefndir, bygginganefndir og stjórnmálamenn standa fyrir útboðum sem eru svo illa unnin að það sem á endanum er keypt og greitt fyrir er ekki í neinni líkingu við útboðið og þau tilboð sem bárust. Síðan vaða uppi alls konar verðkannanir sem enga stoð eiga í lögum og eru ekkert annað en hálfköruð útboð þar sem menn annaðhvort vilja ekki eða nenna ekki að fara að settum reglum.

Nóg að gera hjá kærunefndinni
Því miður er það ekki svo að fúsk á þessu sviði sé bundið við skólanefndir og forstöðumenn ríkisstofnana. Því miður eru mörg dæmi um að kært sé vegna ófaglegra vinnubragða við mat tilboða hjá þeim sem ættu að vera faglegastir á þessu sviði. Ekki þarf annað en að skoða þau mál sem kærunefnd útboðsmála hefur fengið til afgreiðslu til þess að sjá það. Sérstaklega virðist algengt að mat á tilboðum sé í ólagi. Einkunnastiginn er ýmist búinn til eftir á til þess að rökstyðja ákveðna niðurstöðu eða þá að einkunnagjöf fyrir einstaka þætti er órökstudd og misvísandi miðað við útboðsgögn.

Verðug verkefni
Það hefur mikið áunnist á þessu sviði en margt er enn í ólagi. Væri nú ekki rétt að stjórnvöld tækju á sig rögg og sýndu að við erum þess megnug að koma á úrbótum á þessu sviði án þess að vera rekin til þess með reglusetningum frá Brussel. Á þessum verkefnalista ættu að vera eftirtalin verkefni.

  • Opinberir aðilar ættu að þurfa sérstakt leyfi til að mega standa fyrir útboðum. (Þetta er reyndar í lögum en hefur aldrei verið framkvæmt).
  • Stórauka þarf menntun á sviði opinberra innkaupa.
  • Setja þarf lög um innkaup sveitarfélaga hliðstæð þeim sem gilda um ríki og ríkisfyrirtæki.
  • Fella þarf undir reglur um opinber innkaup ýmis konar þjónustukaup. Til dæmis hvað varðar húsaleigu, hönnunarvinnu, verkfræði- og endurskoðunarþjónustu o.s.frv.
  • Setja þarf reglur sem takmarka hvað ríkisfyrirtæki og stofnanir mega framkvæma á eigin vegum. Dæmi um þetta er að útboðsskyldan fýkur út í veður og vind ef Vegagerðinni dettur í hug að byggja brýr með eigin vinnuflokkum.

Sveinn Hannesson