Þörf á áframhaldandi lækkun vaxta

Ritstjórnargrein í september 2002

1. sep. 2002

  • Þorsteinn Þorgeirsson
Nýverið sendi stjórn SI frá sér ályktun um þörf fyrir áframhaldandi lækkun vaxta. Rökin, sem liggja að baki ályktuninni, eru þau að vaxtastigið sé allt of hátt miðað við núverandi efnahagsástand og áhrif stóriðjuframkvæmda á komandi misserum.

Nýverið sendi stjórn SI frá sér ályktun um þörf fyrir áframhaldandi lækkun vaxta. Rökin, sem liggja að baki ályktuninni, eru þau að vaxtastigið sé allt of hátt miðað við núverandi efnahagsástand og áhrif stóriðjuframkvæmda á komandi misserum.

Þrefaldir vextir
Verðbólgan hefur minnkað og er komin inn fyrir vikmörk Seðlabankans. Háir vextir, styrking krónunnar og samstillt átak aðila vinnumarkaðarins hafa lagst á eitt við að tryggja það. Vissulega er það jákvætt fyrir efnahagslífið að endurheimta verðstöðugleikann en Seðlabankinn þarf einnig að gæta þess að ganga ekki of nærri undirstöðum efnahagslífsins, fyrirtækjum í atvinnurekstri og þeim sem þar starfa, með of langvarandi aðhaldi í peningamálum. Stýrivextir á Íslandi (7,9 prósent í ágúst), eru enn þrefalt hærri en samvegið vaxtastig í viðskiptalöndum okkar (2,7 prósent).

Slíkan vaxtamun geta fyrirtæki sem þurfa að reiða sig á innlenda fjármögnun ekki borið til langframa.

Raunvextir og raungengi hækka
Um leið og verðbólgan minnkar hafa raunvextir hækkað. Þetta er vegna þess að þótt Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti í mörgum litlum skrefum, hefur enn hraðar dregið úr verðbólguvæntingum, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Raunvextir, sem er munurinn á þessu tvennu, eru nú um 6 prósent en það samræmist engan veginn ástandi efnahagslífsins um þessar mundir. Landsframleiðslan, og sérstaklega innlend eftirspurn, hafa dregist hratt saman frá ársbyrjun 2001. Þá hefur krónan styrkst á árinu en það ásamt hækkun á innlendu verðlagi hefur á ný rýrt samkeppnisstöðu innlendra fyrirtæka í alþjóðlegri samkeppni. Með öðrum orðum raungengið hefur hækkað á ný. Nýlegar tölur benda til þess að ábatinn í erlendum viðskiptum sé byrjaður að ganga til baka. Þar sem peningastefnan hefur áhrif í allt að átján mánuði er miðað við þessar forsendur ekki að vænta sterkrar uppsveiflu á komandi misserum. En þá er eðlilegt að spurt sé hverju fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir breyti?

Þróun raunvaxta

Svigrúm til framkvæmda
Þær raddir hafa heyrst að nauðsynlegt sé að stöðva ferli vaxtalækkana og jafnvel hækka vexti til að sporna gegn þensluáhrifum álvers- og virkjanaframkvæmda. Verði af öllum framkvæmdum má vel vera að spenna myndist í efnahagslífinu á ný. En þá ber að huga að því að þeirra áhrifa mun ekki gæta strax. Vegna núverandi slaka má segja að tímasetning framkvæmdanna sé góð og að svigrúm sé til að hefja framkvæmdir án þess að ógna verðstöðugleika. Þá er fyrirséð að framkvæmdirnar dreifast á nokkur ár sem mun valda minni spennu en ella. Þá er mögulegt að innflutt vinnuafl mildi áhrifin á vinnumarkaðinn. Þar að auki er enn töluverð óvissa um hvort öll áform í þessa veru rætist. Það er því allt of snemmt að draga þá ályktun að hagkerfið ofhitni á komandi misserum og að herða þurfi ólarnar á ný.

Ályktun stjórnar SI
Stjórn SI telur að miðað við núverandi raunvaxta- og raungengisstig sé fremur hætta á að hagvöxtur verði of lítill á komandi misserum. Til að sporna gegn því er áríðandi að lækka vexti á komandi mánuðum. Það mun einnig auka svigrúm Seðlabankans til að hækka vexti þegar þess gerist þörf.

Við núverandi aðstæður er brýnt að lækka vexti. Með því að létta byrðar skuldsettra heimila og fyrirtækja, mun það jafnframt styrkja undirstöður fjármálakerfisins og leggja grunn að meiri þjóðhagslegum sparnaði, fjárfestingu og sjálfbærum hagvexti á komandi árum.
 

Þorsteinn Þorgeirsson