Lækka þarf vexti meira og hraðar

Ritstjórnargrein í ágúst 2002

1. ágú. 2002

  • Sveinn Hannesson
Umtalsverð stýrivaxtalækkun (0,6%) nú um mánaðamótin er að sjálfsögðu ánægjuefni og sérstaklega er gleðilegt að Seðlabanki Íslands skuli ekki taka undir með þeim hagspekingum sem vilja fresta vaxtalækkunum nú til þess að búast til varnar gegn þensluáhrifum væntanlegra virkjana- og stóriðjuframkvæmda. Enn eru vextir hér á landi þó mjög háir. Það sem máli skiptir er að vegna þess hve hratt verðbólgan hefur lækkað hafa raunvextir hér á landi farið hækkandi. Eins og myndin sýnir þurfa stýrivextir að lækka hratt á komandi mánuðum til þess að fyrirbyggja að raunvextir hækki ekki ört á ný. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 7,9% samanborið við 3,25% stýrivexti Seðlabanka Evrópu.

Umtalsverð stýrivaxtalækkun (0,6%) nú um mánaðamótin er að sjálfsögðu ánægjuefni og sérstaklega er gleðilegt að Seðlabanki Íslands skuli ekki taka undir með þeim hagspekingum sem vilja fresta vaxtalækkunum nú til þess að búast til varnar gegn þensluáhrifum væntanlegra virkjana- og stóriðjuframkvæmda. Enn eru vextir hér á landi þó mjög háir. Það sem máli skiptir er að vegna þess hve hratt verðbólgan hefur lækkað hafa raunvextir hér á landi farið hækkandi. Eins og myndin sýnir þurfa stýrivextir að lækka hratt á komandi mánuðum til þess að fyrirbyggja að raunvextir hækki ekki ört á ný. Stýrivextir Seðlabankans eru nú 7,9% samanborið við 3,25% stýrivexti Seðlabanka Evrópu.

Barátta við kulnaðan eld
Við erum í þeirri einkennilegu stöðu að Seðlabanki Íslands er enn að berjast við þenslu sem er gersamlega horfin. Samkvæmt síðustu spá Þjóðhagsstofnunarinnar sálugu verður samdráttur hér á þessu ári meiri en áður var áætlað eða 0,8% og að því leyti skerum við okkur úr í samanburði við önnur Evrópuríki. Hins vegar er vandséð hvernig spá um 2,4% hagvöxt á næsta ári getur ræst að óbreyttu. Sá hagvöxtur á nefnilega að byggjast á aukinni fjárfestingu en sú fjárfesting verður fráleitt í hefðbundnum atvinnurekstri nema fleiri og stærri skref verði stigin í vaxtalækkunum.

Þróun raunvaxta

Tímabær sameining
Það er ánægjulegt að náðst hefur samkomulag meðal stærstu hluthafa í Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans hf. og Þróunarfélags Íslands hf. um að sameina félögin. Með þessari sameiningu verður til mun öflugra og vonandi betra félag sem ætti að hafa burði til að koma með aukið áhættufjármagn inn í íslensk fyrirtæki.

Þessi tvö félög hafa undanfarin ár verið farvegur fyrir umtalsverðar fjárfestingar stærstu eigendanna sem eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og félagasamtök en þau hafa fjárfest í atvinnurekstri í gegnum þessi félög þó að með ólíkum hætti sé. ÞFÍ hefur að mestu fjárfest í skráðum félögum en EFA meira í óskráðum. Bæði hafa þessi félög orðið fyrir umtalsverðum áföllum vegna verðhruns á hlutabréfamarkaði undanfarin misseri og eru nú, eins og önnur áhættufjármagnsfyrirtæki, nánast lokuð fyrir öllum nýfjárfestingum. Öll eiga þessi félög fullt í fangi með að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Segja má að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sé eini aðilinn sem hefur einhverja tilburði til að takast á við ný verkefni nú um stundir. Þar á bæ hljóta menn að fagna því að fá þetta nýja félag sem vænlegan samstarfsaðila til að efla nýsköpun í atvinnulífinu.

Hagvöxtur morgundagsins
Það er háskaleg staða ef jafnvel vænlegustu sprotafyrirtækin visna og deyja þegar uppsprettur áhættufjármagns þorna upp. Sameining EFA og ÞFÍ ætti að gera lífeyrissjóðum kleift til að beina auknu fjármagni í atvinnuuppbyggingu í gegnum félag sem ætti að hafa fjárhagslega og faglega getu til að vinna að þessu verkefni. Þarna er ákaflega mikið í húfi því að sprotafyrirtækin í dag eru þau sem standa eiga undir hagvexti morgundagsins. Vonandi verður niðurstaðan ekki sú að stærra félag telji sig yfir það hafið að þjóna litlum og meðalstórum fyrirtækjum líkt og gerðist í kjölfar sameiningar fjárfestingarlánasjóðanna.

Opinber stuðningur við rannsóknir og þróun
Síðastliðið vor var frestað afgreiðslu frumvarpa um opinberan stuðning við tækniþróun og vísindi. Frumvörpin ganga í daglegu tali undir heitinu Rannísfrumvörpin. Ákveðið var að fresta afgreiðslu þeirra sl. vor til þess að ná um þau meiri samstöðu. Síðan hefur umræðan ekki farið hátt og raunar ekkert verið um þessi mál rætt opinberlega. Vonandi er ekki ætlunin að ráða þessum málum til lykta innan veggja stjórnarráðsins enda er það augljóslega ekki rétta aðferðin til að ná um þau víðtækri samstöðu. Segja má að samtök atvinnurekenda hafi haft tvennt við umrædd frumvörp að athuga. Í fyrsta lagi lá ekki og liggur ekki fyrir nein skýr stefnumörkun um tilganginn og markmiðin með þessum breytingum. Í öðru lagi er allt óljóst um það hvaða fjármagn Tækniþróunarsjóður, sem taka á við hlutverki Tæknisjóðs, muni hafa.

Vonandi verður þess ekki langt að bíða að teknar verði upp viðræður við atvinnulífið um þessar breytingar. Hvað sem öðru líður er ljóst að það er ekki rétti tíminn að loka á opinberan stuðning við rannsóknar- og þróunarstarf þegar framboð á fjármagni frá einkaaðilum á fjármagnsmarkaði hefur gersamlega horfið með hruni hlutabréfamarkaða.

Sveinn Hannesson