Þversagnir og lýðræðishalli

Ritstjórnargrein í júlí 2002

1. júl. 2002

Ýmsir þeirra, sem börðust harðast gegn EES-samningnum á sínum tíma, óttuðust að með honum væri of langt gengið varðandi framsal á ákvörðunarrétti okkar til ESB í ýmsum málum. Til þess að tryggja frjáls og óhindruð viðskipti á innri markaði Evrópu er augljóst að samræma þarf ákaflega margt í lögum og reglum Evrópuríkja. Með samningnum var vissulega framseldur hluti af fullveldi okkar eða því deilt með öðrum Evrópuþjóðum. Tilgangurinn er hins vegar ekki sá að svipta Evrópuþjóðir frelsi og forræði í eigin málum heldur að auðvelda viðskipti, auka hagvöxt og bæta lífskjör í aðildarríkjunum.

Ýmsir þeirra, sem börðust harðast gegn EES-samningnum á sínum tíma, óttuðust að með honum væri of langt gengið varðandi framsal á ákvörðunarrétti okkar til ESB í ýmsum málum. Til þess að tryggja frjáls og óhindruð viðskipti á innri markaði Evrópu er augljóst að samræma þarf ákaflega margt í lögum og reglum Evrópuríkja. Með samningnum var vissulega framseldur hluti af fullveldi okkar eða því deilt með öðrum Evrópuþjóðum. Tilgangurinn er hins vegar ekki sá að svipta Evrópuþjóðir frelsi og forræði í eigin málum heldur að auðvelda viðskipti, auka hagvöxt og bæta lífskjör í aðildarríkjunum.

Léttvægt samráð
Þegar EES-samningurinn var gerður var að sönnu verulegur munur á stærð og styrkleika samningsaðila. EFTA megin við borðið voru ríki með u.þ.b. 33 milljónir íbúa, þar á meðal Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Sviss. Þetta er þó umtalsverður markaður og tekjuhár. Nú eru einungis þrjú lönd Noregur, Ísland og Lichtenstein eftir EFTA megin við borðið með samtals tæpar 5 milljónir íbúa (Sviss hafnaði aðild að EES-samningnum) en viðsemjandinn, ESB ríkin, aftur á móti með 375 milljónir manna sem mun fjölga verulega á næstu árum. Hlutföllin hafa raskast gersamlega. Ljóst er að áhrif EFTA ríkjanna eru hverfandi og það samráð, sem samningurinn gerir ráð fyrir, er lítið annað en dauður bókstafur. Það er þess vegna hárrétt að við höfum nú lítil sem engin áhrif á leikreglurnar og áreiðanlega alls engin meðan við erum ekki aðilar að ESB.  

Evrópa árið 2002

Jákvæð efnahagsleg áhrif
Jafnvel þeir, sem mest óttuðust fullveldisframsal EES-samningsins, viðurkenna flestir að efnahagsleg áhrif samningsins hafi orðið betri og meiri en þeir reiknuðu með fyrirfram. Þessi jákvæðu áhrif voru engan veginn fyrirsjáanleg og þaðan af síður hægt að reikna þau út af nákvæmni. Hins vegar hefur ótvírætt komið í ljós að íslenskum fyrirtækum og heimilum hentar það sama og fyrirtækum og heimilum í nágrannalöndunum. Það furðulega er að stór hluti íslensku þjóðarinnar virðist ekki trúa eigin augum í þessum efnum. Enn og aftur er staglast á því að atvinnulíf okkar sé sérstakt, efnahagssveiflurnar sérstakar og lífið á Íslandi sé og verði saltfiskur. Kvartað er hástöfum yfir því að á þessu öllu skorti mjög skilning í öðrum Evrópulöndum.

Þversagnir í umræðunni
Það eru margar fleiri einkennilegar þversagnir í Evrópuumræðunni á Íslandi. Við óttumst áhrifaleysi sem smáríki en afsölum okkur í raun öllum möguleikum til að hafa áhrif því að við eigum ekki fulltrúa við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Við kvörtum yfir reglufargani frá ESB en hrósum um leið EES-samningnum þar sem við samþykktum að taka upp allar þessar reglur. Stærsta þversögnin er svo auðvitað sú að til þess að verjast efnahagssveiflum þurfum við okkar eigin mynt sem stöðugt sveiflast upp eða niður og er þar með uppspretta endalausra kúvendinga í atvinnurekstri okkar og efnahagsstjórn. Á sama tíma taka aðrar Evrópuþjóðir upp evruna og samræma efnahagsstjórnina í Evrópu. Þar er áherslan umfram allt lögð á stöðugleika, lága vexti og stöðugt verðlag. Þá koma fram á Íslandi sérfræðingar sem lýsa þeirri skoðun sinni að það geri okkur ekki nema gott að hafa hér tvöfalda eða þrefalda vexti á við það sem gerist í nágrannalöndunum!

Vagga lýðræðisins?
Við óttumst lýðræðishalla ESB en virðumst ekki taka eftir því að valdið er smám saman að færast frá framkvæmdastjórn ESB til ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Á sama tíma fara völd þingmanna á Íslandi sífellt minnkandi en löggjöfin kemur ýmist forsniðin frá ESB eða fæðist fullsköpuð í ráðuneytunum. Þeir stjórnmálamenn, sem mestar áhyggjur hafa af lýðræðishalla innan ESB, sjá ekkert athugavert við þetta. Þeir raða sjálfir á framboðslista sína og finnst fráleitt að íslenska þjóðin fái að greiða atkvæði um stefnuna í Evrópumálum eða öðrum mikilvægum hagsmunamálum sínum. Þingmenn eru beittir svo hörðum flokksaga að þeir þora varla að hafa skoðun á nokkru máli. Það er helst að losni um hömlurnar þegar ræddar eru hvalveiðar, hnefaleikar eða hvort breyta eigi klukkunni.

Umræðan um lýðræði er þörf og góð
Það er ekki nema gott að við veltum því fyrir okkur hvort við stöndum þar öðrum þjóðum framar en vandséð í hverju þeir yfirburðir eru fólgnir. Er það svo að nágrannaþjóðir okkar hafi glatað frelsi sínu og sjálfstæði með aðild sinni að ESB? Svarið við þeirri spurningu er auðvitað nei. Samt trúum við því mörg hver að Íslendingar myndu glata frelsi sínu og fullveldi með aðild að ESB. Er það ekki enn ein þversögnin í íslenskri Evrópuumræðu?

Sveinn Hannesson